05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7479 í B-deild Alþingistíðinda. (5543)

468. mál, leigubifreiðar

Frsm. samgn. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir nál. um breytingu á lögum nr. 39 frá 9. maí 1970, um leigubifreiðar, frá samgn. Í nál. segir:

„Nefndin hefur rætt frv. á fundum sínum og fengið til viðtals fulltrúa frá Sendibílum hf., Trausta, félagi sendibifreiðastjóra, og Frama, félagi leigubílstjóra. Einnig mætti Baldur Möller á fundi nefndarinnar.

Nefndin er sammála um afgreiðslu málsins og leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem tillögur eru fluttar um á sérstöku þingskjali.

Í greinargerð fyrir lagafrumvarpi því sem hér er til umfjöllunar segir að frv. sé borið fram til að taka af tvímæli um lagareglur sem fjalla um heimildir til leiguaksturs á fólksbifreiðum. Við umfjöllun nefndarinnar um mál þetta hefur komið fram að stéttarfélög sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra hafa látið í ljós óskir um að samsvarandi breytingar og ráðgerðar eru í frv. um breytingu á lögum um leigubifreiðar, að því er varðar leigubifreiðar til fólksflutninga (1. gr. laganna), verði einnig gerðar á ákvæðum laganna um leiguakstur sendiferðabifreiða (3. gr. laganna) og vörubifreiða (5. gr. laganna). Í gildandi lögum eru samhljóða ákvæði um akstur leigubifreiða þessara þriggja starfsgreina og þykir eðlilegt að verða við þessum óskum um að ákvæðin verði áfram samhljóða. Því ber nefndin fram brtt. til þess að ná fram þessari samsvörun. Það kom fram hjá fulltrúum stéttarfélaganna að þeim er ljós viss minni háttar skörun á verkefnum starfsgreinanna en telja það ekki valda ágreiningi.“

Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn, Stefán Guðmundsson, Júlíus Sólnes, Björn Gíslason, Egill Jónsson, Skúli Alexandersson og Valgerður Sverrisdóttir. Eyjólfur Konráð Jónsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Í brtt. segir:

„Á eftir 1. gr. komi tvær nýjar greinar er orðist svo:

2. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:

Í þeim kaupstöðum og á þeim sýslusvæðum, þar sem viðurkenndar sendiferðabifreiðastöðvar eru starfandi, er öllum óheimill leiguakstur á sendiferðabifreiðum utan stöðvar eða frá stöð sem eigi er viðurkennd.

1. málsl. 5. gr. laganna orðist svo:

Í þeim kaupstöðum og á þeim sýslusvæðum, þar sem viðurkennd vörubifreiðastöð er starfandi, er öllum óheimill leiguakstur á vörubifreiðum utan stöðvar eða frá stöð sem eigi er viðurkennd.“

Það er rétt að segja frá því að það er nefnd starfandi, sem samgrh. skipaði, sem vinnur að því að koma á bættri skipan leiguaksturs í þéttbýli og koma með tillögu um framtíðarskipan þeirra mála. Það var álit þeirra sem við leituðum til í þessari umræðu að þetta væri mjög nauðsynlegt mál til þess að hægt væri að ná fram þeim hugmyndum sem þar væri verið að gera sem vissulega væri brýn þörf á.