11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

María E. Ingvadóttir:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því að jafnréttismál skuli rædd á þessum vettvangi og mér finnst það eiga einkar vel við. Ég tel æskilegt að kannaður verði betur áhugi kvenna á ábyrgðarstöðum og ábyrgðarstörfum og ef áhuginn er fyrir hendi hvaða ástæður liggja þá að baki því að konur skuli ekki vera enn fúsari til að taka að sér slík störf. Þar held ég að Kvenréttindafélagið gæti tekið að sér og unnið mjög gott verk.

Ég er sammála því að ekki hefur tekist að framfylgja jafnréttislögum sem skyldi og enn viðgengst launamisrétti, en jafnframt finnst mér kvótafyrirkomulag ófýsilegur kostur til að bæta stöðu kvenna. Kvóti er ekki það sama og jafnrétti. En við erum að berjast fyrir sama rétti og sömu skyldum. Konur vilja auðvitað fyrst og fremst sitja í ábyrgðarstöðum vegna eigin verðleika. En er ekki hætt við að öðruvísi verði litið á konu í ábyrgðarstöðu ef hún er þangað komin vegna kvótafyrirkomulags? Jafnvel er hætt við að þar með verði hennar vægi minna og þá erfiðara fyrir hana að sanna hæfni sína, en það yrði hún að gera ef hún sæti þar fyrst og fremst til að uppfylla einhvern kvóta.