05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7491 í B-deild Alþingistíðinda. (5551)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur legið alllanga hríð í meðförum hv. allshn. þessarar deildar og hefur fengið þar mjög rækilega yfirferð. Málið hafði reyndar verið kynnt þinginu fyrr með því að skýrslu um málið var dreift til allra þm. áður en frv. kom fram og hafði áður verið kynnt hv. fjvn. við undirbúning fjárlaga. Hér er því að öllu leyti um vel undirbúið mál að ræða og ég vísa því algjörlega á bug sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. að málið væri flausturslega undirbúið. Þetta mál er þvert á móti mjög vel undirbúið og að því lögð drög af nefnd sem hóf störf í september á sl. ári. Þar áður hafði reyndar verið unnið mikið starf á vegum dómsmrn. til að undirbúa þetta mál. Ég tel þessa gagnrýni fjarstæðu og mun kannski víkja nokkuð að því síðar.

Ég vil í upphafi máls míns, hæstv. forseti, lýsa stuðningi mínum við þá brtt. sem hv. allshn. hefur lagt fram og þakka frsm. og formanni nefndarinnar nál. og grg. fyrir starfinu. Ég tek undir flest sem fram kom hjá formanninum. Ég vil nefna það líka sem hann nefndi að stefna þyrfti að því að gefa þeim kost á sem vildu velja sér ákveðna samstöfu eða númer að fá slíkt auðkenni á sína bíla gegn hæfilegu gjaldi. Ég tel rétt að stefna að þessu, en það þyrfti sjálfsagt að vera nokkuð hátt gjald. Þess eru dæmi í öðrum löndum að menn geti fengið slík auðkenni á bíla sína þar sem svona númerakerfi tíðkast sem er algengt víða um lönd.

Reyndar vildi ég líka benda hv. 4. þm. Vesturl. á það að á því skráningarmerki, númerspjaldi, sem hugmynd hefur verið sett fram um er sérstakur reitur til að setja í auðkenni héraðs ef menn kjósa. Ég vil alls ekki gera lítið úr héraðskenndinni þótt ég hefði frekar átt á öðru von en að menn tengdu hana helst við númerspjaldið á bílnum sínum. En það er sama hvernig um þetta mál er hugsað, eins og segir hjá Grími: „Í átthagana andinn leitar, þótt ei sé loðið þar til beitar.“ En ég átti frekar von á því að hv. þm. byndi sína göfugu átthagaást við annað en númerið sitt. Ég segi það og ég meina það og það er ekki í því nein áreitni heldur mikil hjartans einlægni því ég veit að það er svo margt miklu betra á Snæfellsnesi en bílnúmerin, hversu góð sem þau svo kunna að vera.

Ég ætla svo sem ekki að segja neitt annað en þetta, að vilji menn auðkenna sinn bíl sínu héraði þá er þeim það auðvelt. Þeim verður það reyndar auðveldara eftir þessa breytingu en áður af því að þeir geta þá sett þar merki síns kaupstaðar, síns hrepps, ef þeir kjósa og þá kemur það skýrt fram hver þar fer og hver höfðingi þar er á ferð.

Ég vil líka benda á að það er mjög rækilega frá því skýrt í þessari grg. hvernig sparnaður fæst af því að falla frá því tvöfalda skráningarkerfi sem hér hefur verið. Vel að merkja hefur til hægðarauka fyrir tölvurnar og fólkið verið á bak við héraðsnúmerið fast númer sem sett er á hvern bíl þegar hann er tekinn á bifreiðaskrá til að auðvelda mönnum skráninguna.

Það sem aðallega sparast með nýju kerfi er að fólki eru spöruð sporin, fólki eru spöruð fjárútlátin, fólkinu sem þarf að skipta um bíl og hefur engan áhuga á að halda sérstöku merki, sérstöku númeri. Þarna er sparnaðurinn mestur eins og glöggt kemur fram í grg. og mundi koma enn gleggra fram ef hv. þm. legði sig eftir því að kynna sér hvernig bílaviðskiptin ganga fyrir sig.

Það eru mörg dæmi um það að maður sem kemur utan af landi og þarf að kaupa hér bíl þarf að fara í gegnum þrjár umskráningar en hefur ekki kosið það sjálfur. Best væri að hann þyrfti ekki að gera neitt af þessu. Þetta kostar peninga, þetta kostar tíma. Það er tilgangur þessa frv. að ná þessum sparnaði. Og ég segi að þótt héraðshöfðingjar vilji ekki beygja sig eftir smápeningum þá vil ég gera það, því margs þarf búið við og þetta er eitt af því sem gera þarf. Við þurfum að gefa okkur tíma til að ljúka svona búskaparmálum, koma einföldum hlutum í einfalt lag en vera ekki að þvæla fyrir okkur hlutum sem kosta allt of mikið og sem kosta allt of mikla fyrirhöfn fyrir fólk. Þetta er kjarni númeramálsins og það gildir líka um þá skipulagsbreytingu á skoðuninni sjálfri sem er megintilgangur þessa frv., að gera hana þægilegri þeim almenningi sem þarf að njóta þessarar þjónustu.

Mig langar til að minna þingdeildina á að megintilgangur Bifreiðaeftirlitsins er að stuðla að öryggi. Þetta er öryggismál, ekkert annað. Það er málið, til þess að ná fram auknu öryggi í umferðinni þurfum við tæknibreytingu í bifreiðaskoðun. Til að ná þessari tæknibreytingu fram þarf verulega fjárfestingu. Það verður eðlisbreyting á starfseminni og það er mín skoðun og þeirra manna sem þetta mál hafa undirbúið að til þess að fjárhagsleg ábyrgð fylgi ákvörðun um framkvæmdir, til þess að þeir menn sem ætla að bera ábyrgð á þessum skoðunarstöðvum og rekstri þeirra — því eins og fram kemur í brtt. er að því stefnt að skoðunarstöðvar rísi í hverju kjördæmi — þurfa menn að bera fjárhagslega ábyrgð á þeim. Til þess er hlutafélagsformið einkar vel fallið og betur en ríkisrekstur þegar á að hefja svo fjárfreka starfsemi sem þarna er um að ræða sem er einnig í eðli sínu miklu líkari fyrirtækjarekstri og framleiðslustarfsemi — þetta er eins og gæðaprófun í verksmiðju — þegar loksins verður farið að bremsuprófa bílana almennilega sem er kannski það sem sárast hefur vantað, ekki síst á stóru bílunum. Það er mikið hagsmunamál fólksins úti á landi að þetta sé örugglega gert og til þess þurfum við þetta félag. Ég er ekkert að segja að þessi tilhögun sé algóð en ég vek athygli á því að þarna er þó verið að reyna að koma hlutunum í lag. Ég marka það að þeir sem hafa tekið þátt í þessu starfi eru algjörlega einhuga um það, hvort sem það er Félag ísl. bifreiðaeigenda, Félag bifvélavirkja eða tryggingarfélögin. Hv. 4. þm. Vesturl. velti því fyrir sér hvað það væri sem sameinaði þessa menn. Ég get sagt honum það strax, það er ákaflega einfalt: Það er það að öllu þessu fólki er umhugað um að umferðin verði öruggari.

Mig langar líka til að fara um það nokkrum orðum sem fram kom í máli hv. 11. þm. Reykv. Ég þakka honum stuðning við breytinguna á númerakerfinu og ég heyri á því sem hann sagði að hann hefur skilið út á hvað það mál gengur. Ég vildi hins vegar leyfa mér að benda honum á að félagsstofnunin er ekki á nokkurn hátt stæling á rekstrarformi í öðru landi, þetta er fjarri því að vera eina lausnin sem til greina kemur. En það sem mikilvægt er er að það hafa fundist aðilar sem vilja taka þátt í því að leysa þetta á þennan hátt, vilja leggja í þetta nokkurt fé og hafa hagsmuni af því að umferðin sé örugg. Þetta fer saman í þessari félagsstofnun og það er nauðsynlegt að ljúka þessu máli meðan stendur að menn hafa á þessu áhuga. Fastnúmerakerfið og félagsstofnunin eru tvær hliðar á sama máli vegna þess að það er eitt af því sem gerir þetta félag skynsamlegt og sæmilega vænlegt fyrirtæki að það verður ódýrara að reka það eftir að númerakerfinu hefur verið breytt.

Ég veit að sumum finnst kannski ólíklegt að ná megi svona háum fjárhæðum í sparnaði með þessum einfalda hætti, að falla frá þessu tvöfalda skráningarkerfi, en það er samt satt og rétt. Þetta geta menn sannfærst um með því að skoða það sem segir á bls. 30–32 í þessu frv. um það af hvers konar smámunum þetta hefst. Þetta eru svo mörg spor, þetta eru svo mörg viðvik að þarna er um verulega fjármuni að ræða ef menn vilja gera þennan einfalda hlut.

Ég ætla ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð en vildi aðeins svara að lokum spurningu hv. 11. þm. Reykv. um það hvernig væri hugsanleg eignaraðild að félaginu. Ég vil benda honum á bls. 28 í fskj. með frv. þar sem fram kemur að í upphafi sé gert ráð fyrir að hlutaféð í hlutafélaginu verði 80 millj. kr. og ríkissjóður eigi 51% en aðrir leggi fram 49%. Þetta er þó ekki ákaflega fast bundið frá minni hálfu. Þarna mundi reyna á samninga og áhuga um áskrift á hlutaféð. Ég hef ekki fyrir fram neinar sérstakar skoðanir um það hverjir eigi að eiga félagið, þarna gætu menn skrifað sig á eftir reglum hlutafélagalaga en fyrir fram mundi ríkið stefna að því að eiga u.þ.b. helming.

Ég veit að það er verulegur áhugi hjá þeim aðilum sem upp voru taldir, Bílgreinasambandinu, tryggingafélögum, Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Félagi bifvélavirkja, og það má vera að það finnist fleiri sem áhuga hefðu á að taka þátt í þessu. En ég tek fram að ég tel það mjög æskilegt að þarna fari saman fjárhagsleg ábyrgð og einlægur áhugi á umferðaröryggismálum. Það er einmitt það sem ég held að sé mikilvægast, að menn vilja taka þátt í þessu, bæði af því að þeir sjá þörfina fyrir að breyta og bæta þessa þjónustu og af því að þeir sjá að hægt er að gera þetta fjárhagslega öruggt en um leið fyrirtæki sem eykur öryggi í umferðinni.