05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7495 í B-deild Alþingistíðinda. (5556)

477. mál, þinglýsingalög

Frsm. minni hl. allshn. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu neitt að ráði, en aðeins vekja athygli á nokkrum þáttum sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra. Það er í fyrsta lagi það að hann mótmælti því að þetta mál væri ekki vel undirbúið. Það verður náttúrlega alltaf matsatriði hvort svo er eða ekki, en þó að nefnd hafi setið frá því í sept. s.l. til að vinna að þessari frumvarpsgerð finnst mér það ekki langur tími í jafn veigamiklu máli og þessu. En við getum vitaskuld deilt um það, ég og ráðherra, hvort þetta sé vel undirbúið eða ekki. Mín skoðun er sú að þetta mál sé ekki vel undirbúið. En vitaskuld er það skoðun ráðherra að það sé vel undirbúið. Annars veit ég það að hæstv. ráðherra hefði ekki lagt þetta mál fram fyrir hv. Alþingi.

Það kom fram í ræðu ráðherra að hann taldi eðlilegt að gefa mönnum tækifæri til að fá nokkrar sárabætur eða lina svolítið þau vandræði sem menn yrðu fyrir þegar þeir þyrftu að missa númerið sitt og skipta um númer. Þeir gætu því fengið að velja sér númer. En það mundi kosta nokkurn pening o.s.frv. Ég hef þá tilfinningu fyrir þessum málum að þarna sé ekki um mjög mikil einstaklingsbundin vandræði að ræða heldur sé þetta fyrst og fremst á þann veg að við erum bara að breyta umhverfinu okkar. Það er verið að gera stóra hluti í því að breyta umhverfinu á Íslandi. Það er ekki verið að breyta númerinu mínu eða einhvers annars, það er ekki það sem skiptir máli, heldur erum við að taka upp nýtt kerfi sem stangast á við flestar okkar hefðir og reglur, leita eftir einu allsherjarkerfi sem er ekki eðlilegt hjá smáþjóð eins og okkur Íslendingum. Við eigum að reyna að halda okkar sérkennum svo lengi sem við getum.

Hæstv. ráðherra gerði tiltölulega lítið úr því sérkenni gagnvart héraðaeinkennum, það væri ýmislegt fleira. Ekki skal ég draga úr því. Það er margt fleira sem bindur mann og heldur tryggð manns við bæði æskustöðvar og starfshérað. En þetta er e.t.v. hluti af því að halda við sýsluhugmyndinni í landinu. Um leið og við erum búnir að leggja niður sýslumerki á bílum verður það orðið ansi fátt sem bendir okkur á og minnir okkur á það stjórnkerfi sem við höfum búið við og þá svæðahugmynd sem íslensk þjóð hefur búið við. Ég tel þetta mjög vafasamt mál og eins og ég var að segja áðan væri með svipuðum rökum hægt að leggja til að íslenskri mannanafnahefð verði breytt.

Í sambandi við sparnaðinn nefndi ráðherra að fyrst og fremst væri hér um það að ræða að fólkinu væru spöruð sporin og fyrst og fremst væri þetta kostnaður sem fólkið ber. Það er dálítið mikið hægt að togast á um það hvenær það er fólkið og hvenær það er ríkið sem borgar þetta eða hitt. Ég sé nefnilega ekki mikinn mun á því hvort þessi skattur sem hefur verið innheimtur í sambandi við númeraskipti — kostnaðurinn hefur fyrst og fremst verið skattlagning — er innheimtur á þann veg sem gert hefur verið, sem mætti hætta við. Það mætti fella þá skattheimtu niður og halda uppi þeirri skattheimtu sem við vorum að samþykkja hér fyrir réttri stundu. Fólkið þarf að leggja á sig spor og handtök til að afla fjár fyrir þeim skatti sem þar var verið að leggja á.

Það má halda því fram, eins og ráðherra gerði, að hér sé verið að koma á einföldun, auðveldara kerfi, betra kerfi. Ég er á annarri skoðun, hér er verið að flækja málin, hér er verið að sækja útlent kerfi og færa til okkar. Ég held að það væri miklu betra fyrir okkur að búa við okkar góða, gamla, einfalda kerfi en að innleiða það kerfi sem hér er lagt til.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta meira en ítreka samt enn að svipur okkar lands mun breytast ansi mikið við það að númerunum á bílunum verði breytt eins og hér er lagt til. Þegar við ferðumst um landið finnum við ekki fyrir því hvernig sú umferð og hvaða fólk það er sem er að ferðast og við mætum. Það er allt önnur tilfinning að vera inni í einum stórum hóp, einu allsherjar númeri, en að finna fyrir því og vita að það fólk sem er að ferðast með manni, hittir mann á þjóðvegunum, eru Snæfellingar, Reykvíkingar o.s.frv.