11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem orðið hefur um þetta þingmál, um frv. til 1. um að breyta ákveðnu atriði í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Mér finnst að ýmislegt mjög gagnlegt hafi komið fram í þessari umræðu fyrir utan þann ákveðna stuðning sem þar hefur komið fram, sérstaklega af hálfu þm. Kvennalistans sem töluðu hér, hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur og Kristínar Einarsdóttur, og einnig frá hv. þm. Albert Guðmundssyni því ég leyfði mér að taka hans orð alvarlega þó að sumt væri af gamansemi mælt í hans stuttu ræðu áðan eins og ég skildi orð hv. þm.

Ég vík hér, herra forseti, að fáeinum atriðum sem fram komu í máli þm. og þá kannski fyrst að því þar sem efasemda gætti í sambandi við réttmæti þess að breyta jafnréttislögunum með þeim hætti sem hér er lagt til, en þær efasemdir komu frá hv. þm. Alþfl. sem töluðu við umræðuna, frá hv. 15. þm. Reykv. Láru Júlíusdóttur og frá hæstv. félmrh. sem einnig tók til máls í gær. Ég óska báðum hv. varaþm. til hamingju með þær ræður sem þeir fluttu við þessa umræðu og sérstaklega hv. 15. þm. Reykv. sem notaði tækifærið til að flytja sína fyrstu ræðu af þessu tilefni. Ég veit að hennar hugur er eindreginn í sambandi við jafnréttismál og frelsisbaráttu kvenna. Hún hefur sýnt það á þeim vettvangi þar sem hún hefur starfað að hún er þar í fararbroddi. Það voru mér því viss vonbrigði að hún komst í ræðu sinni að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt að styðja þetta mál eins og það lægi hér fyrir. Hún taldi að það væri rétt að láta fyrst reyna á möguleika á að ná fram breytingum með stjórnvaldsaðgerðum án þess að til lagabreytinga þyrfti að koma, að láta reyna fyrst á 3. gr. í gildandi lögum og bíða með breytingar á lögunum eftir að séð verði hvort það náist fram með stjórnvaldsaðgerðum sem hún sérstaklega ræddi um að gætu skilað okkur þarna áfram.

Ég tók fram í minni framsögu fyrir þessu máli að það væri ekkert kappsmál af minni hálfu að breyta og jafn réttur kvenna og karla. 904 lögum ef hægt væri að ná árangri eftir öðrum leiðum, ef menn hefðu trú á því og gætu sannfært sjálfan sig um það, og reynslan skæri þar síðan úr. En ég ítreka það hér vegna þeirra efasemda sem fram komu frá hv. þm. að ég tel að það geti í fyrsta lagi ekki spillt að setja inn þann varnagla og það ákvæði sem hér er lagt til í lögum og það geti ekki spillt fyrir jákvæðum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að vinna að sama marki. Ég hygg að trú hv. þm. á möguleika stjórnvaldsins, framkvæmdarvaldsins, í þessum efnum sé ríkari vegna þeirrar aðstöðu sem hún er í í tengslum við núv. ríkisstjórn sem aðstoðarmaður hæstv. félmrh., að hún beri það traust til núv. ríkisstjórnar og kannski alveg sérstaklega til þess ráðherra sem hún starfar náið með, hæstv. félmrh., að það megi á þeim tíma sem þær hafa til stefnu í félmrn. ná fram jákvæðum árangri á þessu sviði. Betur að satt væri og ég vil ekki vera með neina svartsýni fyrir fram í þeim efnum. En ég nefni hins vegar að þetta einkennir dálítið þá sem eru í stjórnaraðstöðu hverju sinni, eru með hönd með einhverjum hætti á framkvæmdarvaldinu. Þeim hættir til að ofmeta þá möguleika sem til staðar eru á þeim vettvangi, því miður. Því miður sýnir reynslan oft að svo er. Þess vegna tel ég að rök hv. þm. séu ekki ýkjaþung í þessu efni þó ég óski henni og alveg sérstaklega hæstv. félmrh. alls góðs í viðleitni þeirra til að ná fram breytingum til bóta.

Ég tel að þau sjónarmið sem komu fram hjá talsmönnum Kvennalistans í þessari umræðu hljóti að vera umhugsunarefni fyrir konur og karla sem láta sig þessi mál skipta. Þær telja að að athuguðu máli sé hér um eðlilegt skref að ræða þó að talist gæti jafnvel nauðungarkostur eins og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir orðaði það, að mig minnir eitthvað í þá átt, að þurfa að beita lagaþvingun til að þoka málum í rétta átt. Það fannst mér vera mjög athyglisverð niðurstaða og eins það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir líka lagði áherslu á í sínu máli og rökstuddi með dæmum frá nágrönnum okkar í. Noregi þar sem uppskeran úr viðleitni stjórnvalda án lagastöðu hefur ekki skilað því sem menn væntu og hún dró fram í því dæmi sem hún rakti frá stöðuveitingum á háskólastigi þarlendis.

Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir velti því fyrir sér í sinni ræðu hverjar væru ástæðurnar fyrir því hversu hægt miðaði í sambandi við jafnréttisbaráttu kvenna. Ég ætla ekkert að skera úr í þeim efnum. Ég bý ekki yfir neinni endanlegri visku á því sviði hvort teljast skuli vantraust karla á konum eða valdafíkn sú valdabarátta sem fer fram innan þess sem oft er kallað karlveldið í umræðum þess máls, kannski sambland af hvoru tveggja, en auðvitað þær aldagömlu og árþúsunda hefðir sem liggja að baki og enn sitja þrátt fyrir miklar breytingar í samfélaginu bæði innra með okkur og ég tala nú ekki um í samfélagsgerðinni og valda afskaplega miklu um það hversu andstaðan er hörð, hversu vantrúin er rótgróin á möguleikum, hæfni kvenna til eðlilegrar virkrar þátttöku.

Ég rakti í máli mínu í gær dæmið frá lagasetningu 1915 þegar konur fengu sinn takmarkaða kosningarrétt í fyrsta sinn til Alþingis þar sem þeim var ætlaður 15 ára aðlögunartími, þeim sem yngri væru en fertugar til þess að fá að nota kjörseðilinn til jafns við karla. Var það ekki dæmigert? En er ekki hugsunarhátturinn enn að sumu leyti óbreyttur og þá var hjá þeim sem stóðu að þeim breytingum á stjórnskipunarlögum Íslands 1915, vantrúin eins og hún birtist okkur þar sem framkvæmdarvaldið á að halda um stjórann, t.d. í sambandi við stöðuveitingar þegar að þeim málum kemur að skera úr um hverjum skuli hleypt áfram í samfélaginu, falinn aukinn trúnaður og aukin ábyrgð? Er það ekki dæmigert hvernig þar er yfirleitt staðið að málum? Og jafnvel jafnréttislög, sem við köllum svo, duga oft skammt, þau ákvæði þeirra laga sem eiga að veita ákveðna viðspyrnu. Ég held að þarna vanti skýrari fyrirmæli í lög af opinberri hálfu en nú er til að girða fyrir þá misbeitingu valds sem við erum stöðugt að verða vitni að gagnvart konum í sambandi við trúnað til starfa í okkar samfélagi.

Vissulega væri góðra gjalda vert, eins og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir vék að í sínu máli, að kanna enn frekar ástæður misskiptingarinnar, ástæður mismununarinnar, ástæður valdníðslunnar gagnvart konum í landinu. Ég lagði það til í tengslum við alþjóðasamninginn um afnám mismununar gagnvart konum að það yrði einmitt notað sem tækifæri til að fara ofan í saumana á ýmsum þáttum. Ekki vegna þess að ég hafi neina oftrú á slíkum könnunum og ekki vegna þess að málin liggi ekki fyrir á mjög mörgum sviðum og óréttlætið blasir við hverjum sem sjá vill heldur vegna þess að við verðum að beita öllum tiltækum ráðum og draga fram þekkingu og upplýsingar um stöðu þessara mála.

Ég óttast ekki það, sem kom fram hjá hv. þm. Maríu Ingvadóttur í hennar ræðu áðan, að konur sem færu inn í ráð og nefndir á 40% kvótareglunni, sem hér er lögð til, yrðu taldar annars flokks. Auðvitað yrði það notað af einhverjum. En konur standa fyrir sínu þar sem þær fá trúnað. Ég hef enga trú á því að það sé hægt að nota það sem árangursríkt vopn til lengdar þó að svona regla yrði lögfest eins og hér er gerð tillaga um. Ég tel að reynslan af aukinni þátttöku og sókn kvenna núna síðasta áratuginn hafi fært okkur heim sanninn um það með svo ákvarðandi hætti hvað þær megna í æðstu trúnaðarstöðum í samfélaginu að það er ekki hægt fyrir nokkurn að bera þar á móti eða segja: Vegna þess að þið eru komnar hérna formsins vegna eruð þið bara á lægri bekk. Það held ég ekki.

Við lifðum þá ánægjustund 1980, er það ekki rétt munað hjá mér?, að kona hélt til Bessastaða sem forseti Íslands. Var ekki vantrúin ríkjandi í hugum margra ljóst og leynt? En stuðningurinn nægði samt. Það var ekki meirihlutastuðningur þá, en ég þarf ekki að spyrja hvernig hugur þjóðarinnar stendur í því máli og hvaða dómur liggur þar fyrir nú, sjö eða átta árum síðar. Ég tel að vissulega hafi sá árangur og sú niðurstaða sem fékkst með kjöri Vigdísar forseta til æðsta embættis í landinu haft hvetjandi og þýðingarmikil áhrif fyrir stöðu kvenna og sókn og ég tel einnig að sá árangur sem málflutningur kvenna, aukin þátttaka, þó að hægt gangi, á vettvangi Alþingis hafi lagst á sömu sveif og skilað sínu með mjög ákvarðandi hætti upp á möguleikana í framtíðinni. En þetta gengur bara allt of hægt og þess vegna þurfum við að setja inn hvetjandi ákvæði í lögum til að bæta stöðuna og tryggja að þróunin verði örari, að réttlætið megi sigra á meðan við erum þátttakendur í þessari baráttu sem hér stöndum nú.

Hæstv. félmrh. tók ekkert ákvarðandi til orða þegar hún lýsti efasemdum varðandi þetta mál. Ég skildi hæstv. ráðherra svo að hún væri opin fyrir því, væri reiðubúin að athuga hvort rétt væri að setja lög af þessu tagi og vildi ekki vísa því frá þó að hún sé að reyna að vinna á sínum vettvangi sem ráðherra jafnréttismála og þoka málum áleiðis. Ég vona að þær efasemdir sem hafa komið fram í umræðunni séu ekki svo ákvarðandi að þetta mál fái ekki góða meðferð í þinginu, frekari umræðu og afgreiðslu, hugsanlega með breytingum því að ég er alls ekki að segja að hér sé verið að vísa hina einu réttu leið þó að við flm. þessa máls teljum að hún sé boðleg, hún sé jákvæð og skapi aukna viðspyrnu í þessu einu stærsta réttlætismáli í landinu.