05.05.1988
Efri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7515 í B-deild Alþingistíðinda. (5600)

293. mál, áfengislög

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég á sæti í allshn. sem hafði frv. til umfjöllunar, eins og fram hefur komið, og nafn mitt er ritað undir álit meiri hl. allshn. Þó að ég hafi ekki skrifað undir meirihlutaálitið með fyrirvara þykir mér samt rétt að láta mitt viðhorf koma hér fram og mun reyna að gera það í sem stystu máli því ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta mál svo mjög sem um það hefur verið fjallað á undanförnum árum, bæði hér á hv. Alþingi og manna á meðal.

Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í nál. minni hl. sem hv. flm. þess, 6. þm. Reykv., mælti fyrir áðan. Þar kemur fram að þó að heildarneysla áfengis sé minni hér en víða í nágrannalöndum okkar eigum við síst við minni heilbrigðis- og félagslegan vanda að stríða vegna áfengisneyslu og áfengissýki en aðrar þjóðir. Allir hljóta að vera sammála um að koma þurfi í veg fyrir þennan vanda, m.a. vímuefnanotkun barna og unglinga sem fer vaxandi meðal vestrænna þjóða og er víða orðin að alvarlegum vanda, og vissulega er löngu orðið brýnt að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuefnamálum.

Það er einnig rétt, sem fram kemur í nál., að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beint því til aðildarþjóðanna að minnka áfengisneyslu um fjórðung til aldamóta. Að því marki er nú stefnt meðal allra menningarþjóða og ég tek undir þessi markmið.

Ég vil einnig taka undir það, sem fram kemur í íslenskri heilbrigðisáætlun um skaðleg áhrif áfengis og gerð er grein fyrir í nál., m.a. að þótt heildarnotkun áfengis á Íslandi sé minni en í flestum löndum er það staðreynd að óæskileg heilsufarsleg áhrif áfengisneyslu eru mikil á Íslandi og þess vegna verður að vinna að því að minnka heildaráfengisneyslu og útrýma ofneyslu. Undir allt þetta tek ég.

Ég tek einnig undir markmið 8, sem er getið um í nál., að minnka og eyða að lokum alveg óæskilegum heilsufarslegum áhrifum áfengisnotkunar, að almenna neyslu áfengis þurfi að minnka, á næsta hálfum áratug verði lögð sérstök áhersla á upplýsingastarfsemi og ráðgjöf sem heilbrigðisgeirinn veitir, svo og að greina áfengisvanda á byrjunarstigi. Undir þetta allt tek ég. Þar kemur einnig fram að það á að stofna til samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda og félagasamtaka sem hafa bindindi á stefnuskrá sinni og reyna að efla starf þessara samtaka.

Þá vil ég sérstaklega taka undir það sem kemur fram í lok þessa nál. um að tvískinnungur og ósamræmi ríkir nú í meðferð áfengs öls á Íslandi þar sem sumir geta keypt og neytt þess en aðrir ekki. Hér eru einnig á boðstólum fjölmargar tegundir sterkra áfengra drykkja en ekki áfengt öl sem telst til léttra áfengra drykkja. Á þessu verður best tekið með því að móta heildarstefnu í áfengismálum, kemur fram í nál., og undir allt þetta tek ég heils hugar.

En ég get ómögulega verið sammála því að verið sé að bæta við nýrri tegund áfengis. Að mínu áliti er aðeins verið að færa eina tegundina, þá veikustu, inn í löglega áfengisverslun og létta þar með af heimilunum birgðasöfnun á þessum forboðna ávexti sem aðeins forréttindahópar mega kaupa og flytja inn í landið, sem er safnað í bílskúra vítt og breitt um landið. Ég vil að Áfengisverslunin sé birgðastöðin en ekki heimilin. Þannig held ég að megi gera ráð fyrir því að verði betra að fylgjast með neyslunni.

Ég vil líka taka fram að mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég hafi endilega rétt fyrir mér og að hinir, sem eru á öndverðum meiði um þetta frv., fari með rangt mál. Það dettur mér ekki í hug að segja. Þeim gengur gott eitt til og þeir eru að reyna að leiða okkur inn á réttar brautir að þeirra mati og ég virði þeirra skoðanir. En ég bið þá einnig í staðinn um það að það sé virt við mig að ég fari eftir eigin sannfæringu í þessu efni. Það er nú einu sinni svo að það er ekki hægt að gera svo öllum líki og það hefur komið hér fram, m.a. í máli hv. 6. þm. Reykv., að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta frv. og það er því miður ekki hægt að deila atkvæði sínu upp á milli vina sinna vítt og breitt í þjóðfélaginu og láta suma fá hlut í því að greiða atkvæði með og aðra hlut í því að greiða atkvæði á móti. Þess vegna finnst mér að ég verði að gera það upp við mig og fara eftir eigin sannfæringu og greiða atkvæði samkvæmt því. En markmið okkar allra hlýtur að vera það sama. Okkur greinir aðeins á um leiðina að þessu markmiði eins og svo oft gerist.

Ég vil aðeins að lokum segja að við þurfum sameiginlegt átak, við þurfum vakningu til að vinna að því markmiði íslensku heilbrigðisáætlunarinnar að minnka áfengisneyslu um fjórðung til næstu aldamóta. Mér finnst það hreint ekki óraunhæft markmið. Mér er ljúft að geta þess að á fundi nefndarinnar þegar áfengisvarnaráð kom til viðtals kom það fram hjá formanni áfengisvarnaráðs og það voru hans lokaorð að án tillits til þess hver afgreiðsla þessa frv. yrði hér í þinginu, það tók hann fram, væri áfengisvarnaráð tilbúið að vinna áfram að því markmiði að minnka áfengisneyslu. Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum í þeim efnum. Þrátt fyrir að okkur greini á um þetta atriði held ég að vandinn sé allt annars staðar og við þurfum að finna lausn á þeim vanda. Ég á enga ósk heitari fyrir okkur hv. alþm. en að þessi kaleikur verði nú frá okkur tekinn og við þurfum ekki oftar að standa frammi fyrir því vandamáli að greiða atkvæði um þetta mál á hv. Alþingi.