05.05.1988
Efri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7517 í B-deild Alþingistíðinda. (5601)

293. mál, áfengislög

Jón Magnússon:

Herra forseti. Hv. þingdeildarmenn. Síðasti ræðumaður tók raunar af mér það ómak að flytja langt mál vegna þess að ég get tekið undir þau orð sem hún flutti. Ég vil þess vegna koma að nokkrum meginatriðum sem eru þau að andstæðingar þessa frv. koma út af fyrir sig með ákveðin og mjög mikilvæg rök sem eru fyrst og fremst almenn rök gegn áfengisneyslu. Undir þau og þær röksemdir má taka að mestu leyti. En það má benda á og einmitt í framhaldi af orðum hv. 6. þm. Reykv. þegar hún benti á að það væri minni heildarneysla áfengis hér á landi en víða erlendis að hún benti líka á að samt sem áður væri um síst minni heilbrigðislegan og félagslegan vanda að ræða en hjá öðrum þjóðum. Í öðru lagi benti hv. þm, á að ofbeldisbrot væru jafnalgeng og sum jafnvel algengari hér á landi en hjá þeim þjóðum þar sem ölneysla er leyfð. Þetta eru mjög athyglisverðar yfirlýsingar.

Þá var rætt um að nauðsynlegt væri að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuefnamálum og ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem komið hafa fram í þessum umræðum hér á undan. Það sem þarf að fjalla um sérstaklega er m.a. hvernig draga má úr heildarneyslu áfengis með sterkri verðstýringu, hvernig má koma í veg fyrir að aðgengileiki að áfengi verði of auðveldur eða of mikill. Það þarf að fjalla um hvernig veita megi auknu fjármagni til þeirra aðila sem stunda virkt varnaðarstarf í þessum efnum og það þarf að fjalla um með hvaða hætti megi koma við aukinni fræðslu sem hefur áhrif varðandi skaðsemi neyslu áfengis- og vímuefna. Ýmis fleiri atriði mætti nefna.

Það er mitt álit að tafir á afgreiðslu þessa máls og umfjöllun um þetta atriði hafi mjög hindrað og tafið fyrir því að áfengismálin hafi fengið eðlilega umræðu og framgang eða eðlilegt varnaðarstarf hafi fengið eðlilega umfjöllun hér á þinginu. Ég leyfi mér að benda á að skoðanakannanir sem framkvæmdar hafa verið nú um árabil hafa allar bent mjög eindregið til þeirrar niðurstöðu að aukinn meiri hluti þjóðarinnar vilji fá áfengt öl. Ég lít þannig á spurninguna að það sé verið að deila um valfrelsi fólks, hvaða form það hefur á neyslu á leyfðum vímugjafa. Það má deila um hvort eðlilegt sé að vímugjafi eins og þessi sé leyfður, en þar sem hann er leyfður erum við að della um form, ekkert annað.

Það var ýjað að því í máli hv. 6. þm. Reykv. að til greina gæti komið að fram yrði borin tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga, en þá ber að skoða að þetta mál hefur verið til umfjöllunar á Alþingi um nokkurt árabil. Það hefur fengið þá meðferð að ég hygg að þjóðinni sé farið að ofbjóða með hvaða hætti mál ganga fyrir sig á Alþingi. Ég lít því þannig á að það væri Alþingi til nokkurs vansa að afgreiða þetta mál ekki núna.

Þá vil ég að lokum benda á og taka undir með síðasta ræðumanni að nú þegar er um mikinn innflutning og mikla neyslu að ræða á áfengu öli. Það var talað um forréttindahópa sem gætu og hefðu ákveðna birgðasöfnun á öli í bílskúrum og kannski öðrum geymslustöðum. Ég hygg að það séu ekki bara forréttindahópar heldur sé það nokkuð algengt og raunar má halda því fram og hefur verið gert, m.a. af erlendum aðilum, að áfengt öl hefði ákveðið og fast markaðsverð á Íslandi og það væri ekki flókið mál að ná í það. Þessi atriði þurfa líka að koma til skoðunar og athugunar þegar þingmenn velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að samþykkja það lagafrv. sem hér liggur fyrir eða ekki.

Ég tek heils hugar undir þau orð sem hér hafa komið fram í umræðunum um nauðsyn mjög öflugs varnaðarstarfs gegn áfengisneyslu og vímuefnaneyslu. Ég hygg að þær nefndir sem hingað til hafa starfað og sent frá sér nefndarálit um þessi efni hafi gert það í góðri trú, en þar hafi e.t.v. vantað inn í meiri þekkingu á því vandamáli sem hér er um að ræða. Það væri æskilegt þegar Alþingi skipar næst nefnd til þess að fjalla um og gera úttekt á áfengisvandamálum að þeir menn veldust til þeirra starfa sem mesta og besta þekkingu hafa til að koma með tillögur til þess að komið verði í veg fyrir þá verstu hluti sem af áfengisneyslu geta leitt.