05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7578 í B-deild Alþingistíðinda. (5623)

431. mál, virðisaukaskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð í framhaldi af því sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði hér. Hæstv. fjmrh. svaraði hv. þm. Guðna Ágústssyni í sambandi við þá undirskrift sem hann vitnaði hér í í sambandi við niðurgreiðslur. Ég bendi hv. þm. Guðna Ágústssyni á að í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga halda ekki lög hvað þá slíkir samningar, slíkar undirskriftir. Það má segja að það sé búið að tryggja e.t.v. fyrir þetta ár niðurgreiðslur á vöruverði, en við þekkjum það sem hér erum öll að lögum er breytt þrátt fyrir að það standi svona og svona í lögum. Það verður ekki gert eins og í lögunum stendur. Þannig afgreiðum við fjárlög og lánsfjárlög í stórum stíl.

Það er engin trygging fyrir því að niðurgreiðslur haldi áfram nema þetta ár eða meðan sú ríkisstjórn situr ef hún situr það sem eftir er af árinu. Það sýnir reynslan okkur.

Hæstv. fjmrh. var að tala um samkeppnina og allt það. Hvernig halda menn að þetta hafi áhrif á neysluvenjurnar í þjóðfélaginu ef verður farið eftir þessu? Það hefur þau áhrif, miðað við þær kerfisbreytingar sem gerðar voru um síðustu áramót, að innflutta varan lækkar og ef það fer þannig, og engin trygging er fyrir öðru, að niðurgreiðslunum verði breytt, þá sjáum við það að það er verið að færa neysluvenjurnar til innfluttrar vöru frá eigin framleiðslu. Ég yrði raunar ekkert hissa á því þó að hæstv. fjmrh. færi þessa leið. Ég hef þá reynslu að ég stjórnaði um mörg ár landbn. þessarar deildar og þar var hæstv. fjmrh. a.m.k. eitt kjörtímabil, var þar einn nefndarmaður. Ég mun við 2. umr. lýsa viðhorfum hans og taka það blátt áfram upp úr ræðu hans í sambandi við búvörulögin hvernig afstaða hans var og er í því máli og hverju er þá treystandi ef á að fara eftir þeirri stefnu sem hann afhjúpaði sig þá með.

Hv. þm. Guðni Ágústsson. Hér er engu að treysta, hvorki þessu eða öðru í sambandi við niðurgreiðslur. Það kennir reynslan okkur.