05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7578 í B-deild Alþingistíðinda. (5624)

431. mál, virðisaukaskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það horfir svo vel með fundartímann að ég ætla að leyfa mér að bæta við fáeinum orðum. Það er af því að ég hef svo gaman af rökfimi og æfingum á því sviði, hvort sem það er að sanna að svart sé hvítt og eldurinn sé kaldur eða hvað það nú er. Það er og hefur verið ákaflega gaman að fylgjast með tilburðum þeirra alþýðuflokksmanna til að sanna það, færa rök fyrir því að upphafið að velferðarríki jafnaðarmennskunnar á Íslandi liggi gegnum matarskattinn, að það sé fyrsta skrefið inn í sæluna að leggja matarskatt á almenning. En þetta eru þeir vissulega að reyna, alþýðuflokksmenn, hæstv. ráðherrar og hv. þm. og jafnvel fleiri talsmenn Alþfl., eins og ritstjórar Alþýðublaðsins sem af stakri trúmennsku og samviskusemi reyna að klóra í þennan bakka. Þetta er nokkuð kostulegt vegna þess að það sem blasir auðvitað við er það að ef þeim væri í raun alvara mundu þeir byrja á hinum endanum.

Allir menn sem þekkja hverfulleika lífsins, ég tala nú ekki um stjórnmálanna, gera sér grein fyrir því að á svona ferðalögum, svona Bjarmalandsferðum, þá mega menn ekki treysta því að þeir komist alla leið. Menn verða að huga að því þegar í upphafi ferðarinnar að svo geti farið að menn verði að hverfa frá verkinu einhvers staðar á miðri leið og þá geyma menn ekki það jákvæða og það besta þangað til síðast upp á von og óvon. Menn byrja á því ef þeir mögulega geta. Hæstv. fjmrh. og þeir hv. talsmenn Alþfl. áttu þess vegna auðvitað að byrja á því að gera þær ráðstafanir í velferðarmálum sem þeir teldu mest á ríða. (SV: Þeir sýna að þeir geta það ekki.) Já, og aflað þá síðan þeirra tekna sem þyrfti til að standa undir þeim. Þetta er auðvitað farið svo kolöfugt að hlutunum að annaðhvort eru mennirnir með óráði eða þetta er ekki svona einfalt eins og þeir vilja vera láta.

Það að bera ástand mála hér saman við og raunar rökstyðja matarskattinn hér uppi á Íslandi með því að virðisaukaskattur svo og svo hár, jafnvel í einni prósentu, standi undir velferðarkerfinu á hinum Norðurlöndunum, það er hlægilegt, það er vægast sagt barnalegt vegna þess að þar er í fyrsta lagi svo ólíku saman að jafna, þar er um svo ólíkar aðstæður að ræða að það að tína eitt atriði upp úr og segja: Þetta er allt í lagi með matarskattinn vegna þess að matarskatturinn er á hinum Norðurlöndunum og þar er þetta svona og svona, þar er velferðarkerfið svo og svo öflugt o.s.frv. Það er allt í lagi með það, hæstv. ráðherra getur haft fyrirmyndir sínar frá Norðurlöndunum og sennilega er þær ekki annars staðar skárri að finna, en þá verður hann líka að segja allt stafrófið, hæstv. ráðherra. Hann verður að fara yfir það í hverju íslenska velferðarkerfinu er ábótavant í samanburði við hitt. Hann verður einnig að fara yfir það hvernig skattkerfið er að öðru leyti annars staðar á Norðurlöndum, hvernig tekjujöfnunin í gegnum skattkerfið er þar, hvernig launakjörin eru og hvernig launamunurinn er. Það sem kannski mestu máli skiptir er að hann verður að fara yfir það, hæstv. ráðherrann, hvernig lífskjör láglaunafólksins eru annars staðar á Norðurlöndum og hvernig vinnutíminn sem að baki þeim stendur er. Þetta allt má ekki gleymast þegar rætt er um matarskattinn á Íslandi. Það eru ólíkir hlutir að leggja matarskatt á launamann uppi á Íslandi sem hefur 32 þús. kr. í taxtakaup fyrir 40 stunda vinnuviku en á að framfleyta vísitölufjölskyldu ef svo ber undir fyrir 120 þús. kr. á mánuði. Þetta eru ólíkir hlutir að bera saman við launakjör og aðstæður venjulegra launamanna sem vinna tímavinnu annars staðar á Norðurlöndum. Hæstv. ráðherra er ekki svo illa upplýstur um aðstæður hér í nágrenninu að hann eigi að leyfa sér að taka svona einfaldaðan samanburð.

Sem sagt, ef þeir hæstv. ráðherrar Alþfl. hefðu þannig byrjað að segja í ríkisstjórninni: Góðir félagar, við þurfum að hækka elli- og örorkulífeyri, við þurfum að hækka barnabætur svo og svo mikið, við þurfum að hækka sjúkradagpeninga, þeir eru til skammar, við þurfum að gera þessar ráðstafanir í heilbrigðismálum, t.d. í vistunarmálum aldraðra og varðandi hjúkrunarpláss handa öldruðum, við þurfum að gera átak í dagvistunarmálum og við þurfum að hlúa að þessu og hinu í sambandi við uppeldi barna, umönnun sjúkra o.s.frv. Við förum hingað inn í þessa ríkisstjórn til þess að gera þetta og það er hluti af þeirri jafnaðarmennsku sem við viljum beita okkur fyrir. Þá segja hinir náttúrlega: Já, en þetta kostar peninga. Þá segja ráðherrar Alþfl.: Það er rétt, þetta kostar peninga, við vitum það, en við erum þá tilbúnir að afla þeirra. Þetta fer hönd í hönd. Við grípum til þessara ráðstafana, við eflum hér velferðarkerfið, við bætum hér kjör þeirra lakast settu með ýmsu móti, jafnvel með því að taka upp útborganlegan neikvæðan tekjuskatt vegna þess hve launin sem verið er að semja um úti á vinnumarkaðinum eru óþolandi lág. Við erum tilbúnir til að afla tekna til þessara verkefna á móti. Þá hefði verið hægt að taka mark á orðum þessara manna því þá hefðu þeir sýnt það með samhengi hlutanna að þeir meintu það sem þeir væru að segja. Þá hefði verið einhver von til þess að þeir kæmust eitthvað áfram með þetta, jafnvel þó að þeir yrðu svo dagþroti einhvers staðar á leiðinni. Þá hefði hugsanlega eitthvað af þessum umbótamálum þeirra verið komið í framkvæmd.

En það sem líklega gerist, vegna þess hvernig alþýðuflokksmennirnir fara í þetta, er að afturhaldsöflin leyfa þeim að leggja skatt á almenning. Það er í góðu lagi. Það er í góðu lagi að þeir byrja á því að skattleggja almenninginn, en það er ekki á vísan að róa með framhaldið nema síður sé og vonandi hefur sú meinlega villa ekki slæðst inn í hugarheim hæstv. fjmrh. að hann sé ævikjörinn, að Alþfl. sé bara kominn til að vera í ríkisstjórn um aldur og ævi. Svo er ekki. (SighB: Ertu viss um það?) Ég er alveg viss um það, hv. formaður fjvn. Það er heldur ekki víst að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson verði formaður fjvn. um aldur og ævi.

Þá komum við að því að auðvitað er byrjað hér á öfugum enda og þessi röksemdafærsla öll er ómerk af því. Þess sér í raun og veru hvergi stað að einhverjar umbætur af því tagi sem maður mundi tengja við jafnaðarmennsku og velferðarkerfi jafnaðarmanna séu á döfinni. Það eru ekki einu sinni uppi áform um slíkt mér vitanlega. Það er bara verið að leggja á matarskatt. Til hvers? Til að bæta fjárhagsstöðu ríkissjóðs í staðinn fyrir að gera það með stóreignaskatti, með skatti á gróðann, með skatti á þensluna o. s. frv. Menn skulu ekki gleyma því að á sama tíma og matarskatturinn var lagður á voru tekjur látnar út úr ríkissjóði á móti. Eða hvað? Þýddi það ekki tekjutap fyrir ríkissjóð að afnema lúxustollana? Jú auðvitað, þannig að það má með fullum rökum segja að með þessu móti sé verið að færa skattbyrðina til og þyngja hana á hinn almenna launamann. Þessi röksemdafærsla gengur því ekki upp, hún er brosleg og aumingjaleg og vægast sagt er nöturlegt að hugleiða þessi örlög sem Alþfl. býr nú við, ekki síst þegar haft er í huga heilbrigði ríkisstjórnarinnar sem hér hefur nokkuð verið til umræðu í dag og spáð hefur verið í af fleirum en ræðumanni.

Það má kannski segja að þetta flokkist frekar undir almennar pólitískar vangaveltur heldur en beint undir umræður um dagskrárefnið, herra forseti, og ég vona að forseti virði mér það þá til betri vegs að ég leyfi mér að fara pínulítið út í þessa sálma í tengslum við umræðuna um matarskattinn, en ég geri það að gefnu tilefni. Ég geri það af því að hæstv. fjmrh. var hér áðan að reyna einu sinni enn að sýna fram á það hvernig velferðarríki jafnaðarmennskunnar ætti að hefja innreið sína á Íslandi í gegnum matarskattinn. Þetta eru auðvitað slík öfugmæli, svo fráleit að það er ekki hægt annað en mótmæla þeim, jafnvel þó að einhverjir kynnu að vilja að menn héldu sig meira efnislega og beint við þennan blessaðan virðisaukaskatt eins og eitthvert ópólitískt og dautt fyrirbæri, sem hægt væri að ræða um sem slíkt, sem út af fyrir sig er ekki. Auðvitað er málið stórpólitískt og það hlýtur einnig að ræðast á þeim grundvelli en ekki bara tæknilega.

Ég get þá lokið þessu aftur með því að biðja menn um að reyna ekki að ræða þennan virðisaukaskatt, áhrif hans á lífskjörin á Íslandi, áhrif hans á almenning, einangrað og út af fyrir sig án þess að taka með í myndina aðstæður almennings í landinu að öðru leyti, bæði launakjörin, launamuninn í landinu og það að tekjuskattur er nú lagður á með einu flötu skattþrepi á Íslandi sem gerir það auðvitað að verkum að beinu skattarnir eru minna „prógressívir“ og jafna minna tekjur manna heldur en víðast hvar annars staðar. Það eitt og sér dugar í raun og veru til þess að samanburðurinn sem hæstv. fjmrh. er að reyna að viðhafa hér við aðra staði á Norðurlöndum er ómark og gengur ekki upp og ég trúi reyndar ekki öðru en hæstv. fjmrh. viti það þó að hann reyni þetta hér aftur og aftur.