05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7582 í B-deild Alþingistíðinda. (5627)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á umferðarlögum eins og það kemur frá hv. Ed.

Í þessu frv. eru fimm efnisgreinar. Í þeirri fyrstu er einfaldlega leiðrétt prentvilla sem komst inn í núgildandi lög og var því miður lögfest. Í 2. gr. er felld niður 2. mgr. 64. gr. umferðarlaga, en í þeirri niðurfellingu felst að unnt er að hætta að miða skráningarnúmer ökutækja við lögheimili eigenda og eins fellur þá niður skyldan til þess að breyta skráningarnúmerinu ef ökutækið er selt í annað lögsagnarumdæmi eða þegar eigandinn flyst búferlum í annað umdæmi.

Breytingin sem hér er gerð tillaga um hefur í för með sér að skráningarmerki bíla verða í samræmi við svokallað fast númerakerfi á ökutækjum og getur ráðherra sett um það nánari ákvæði í reglugerð ef þetta frv. verður að lögum. Fast númerakerfi af þessu tagi hefur reyndar um nokkurra ára skeið verið staðreynd hjá Bifreiðaeftirlitinu og það er skráð í skráningarvottorð hvers ökutækis. Þetta fastnúmerakerfi er byggt á tveimur bókstöfum og þremur tölustöfum, en það skráningarkerfi rúmar alls um 575 þúsund númer.

Skráningarmerki fyrir nýtt kerfi af þessu tagi hafa verið hönnuð og reyndar er birt af þeim mynd með grg. frv. Ég vek athygli á því að í þessum merkjum er einnig reitur fyrir skoðunarmerki ökutækja og reitur þar sem setja mætti einkenni heimabyggðar ökumanns eða hið alþjóðlega skráningarmerki fyrir Ísland ef menn kjósa að hafa slíkt merki á sínum bíl.

Í tillögunum felst hins vegar ekki að sú krafa yrði gerð að ný skráningarmerki yrðu sett á þá bíla sem þegar eru í notkun. Núverandi númer þeirra gætu fylgt þeim til afskráningar nema eigandinn óski sjálfur að taka upp hið nýja merki. Aðalatriðið er auðvitað það að sú almenna regla verði upp tekin að sama skráningarskilti fylgi jafnan bílnum; einfalt númerakerfi komi í stað hins tvöfalda kerfis sem nú er við lýði.

Með athugasemdum með frv. fylgir álitsgerð nefndar sem ég skipaði haustið 1987 til þess að fjalla um skráningu og skoðun ökutækja. Þar kemur fram vel rökstudd áætlun um sparnað af hinu nýja fyrirkomulagi. Er hann talinn nema a.m.k. 100 millj. kr. á ári og er þá alls ekki allt talið. Ég bendi sérstaklega á bls. 30–31 í frv. Ég tel að við höfum ekki efni á að leggja slíkar byrðar á allan almenning og ekki síður eigum við að spara fólkinu sporin og ómakið sem fylgir núverandi umskráningarumstangi.

Ég kem þá að 3. gr. frv. en þar er lagt til að fela megi hlutafélagi sem ríkissjóður á hlut í að annast skráningu bíla, skoðun þeirra og eftirlit og taki þetta hlutafélag þá við hlutverki Bifreiðaeftirlits ríkisins að þessu leyti. Ég vil nú aðallega vísa til nál. um þetta mál og fskj. sem því fylgja en þetta er allt saman prentað með athugasemdum frv. Þar kemur m.a. fram að vinnubrögð við skoðun á ökutækjum hér á landi hafi í stórum dráttum haldist óbreytt í 60 ár og að það er nú mikil nauðsyn að taka þar upp nýtt verklag og bætta tækni. Það er mikið öryggismál. Í þessu skyni þarf að koma á fót sérstakri skoðunaraðstöðu með sérhæfðum búnaði. Hér þarf í raun og veru eins konar gæðaeftirlit á bílunum sem eru í umferð.

Í frv. er lagt til að stofnað verði sérstakt hlutafélag með aðild ríkissjóðs, tryggingafélaga, fyrirtækja og samtaka er tengjast bifreiðaeign og bifreiðaþjónustu og öðrum sem áhuga hefðu. Síðan yrði samið við þetta félag um að það taki við bifreiðaskoðun, bifreiðaskráningu og reyndar fleiri þjónustuþáttum sem Bifreiðaeftirlitið gæti annast um ákveðið árabil.

Nefndin hefur lagt til að í fyrstu verði samið við þetta félag um 12 ára samningstímabil eða fram til ársins 2000. Innan nefndarinnar var það ítarlega rætt hvort rétt væri að freista þess að efla Bifreiðaeftirlit ríkisins í núverandi mynd til þess að byggja þær fullkomnu skoðunarstöðvar um landið sem hún telur þörf á, en það var einróma niðurstaða hennar að fremur bæri að stofna sérstakt hlutafélag um þetta verkefni þar sem þannig gæfist kostur á að virkja frumkvæði, afla stjórnunarþekkingar og fjármagns frá þeim aðilum sem hafa einnig sérstakra hagsmuna að gæta varðandi ástand ökutækja í landinu og umferðaröryggi, auk þess sem hlutafélagsformið veitti rekstrinum aðhald. Þannig fylgdi fjárhagsleg ábyrgð þeirri ákvörðun að leggja í þá breytingu á rekstri Bifreiðaeftirlitsins með fjármagnsfrekum framkvæmdum sem hér er um að tefla. Þá hefði hlutafélag líka ýmsa möguleika á að afla sér tekna af öðrum verkefnum en Bifreiðaeftirlit ríkisins gæti eðli málsins samkvæmt ekki gert það.

Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að hlutaféð í hinu nýja félagi verði 80 millj. kr. og að ríkissjóður eigi rúmlega helming þess eða um 41 millj. Um þetta voru þó nokkuð skiptar skoðanir í nefndinni og vildu sumir nefndarmanna að ríkissjóður ætti ekki meiri hluta í félaginu. Ég legg til að svo stöddu að ríkissjóður eigi þar meiri hluta, en tel þó að helmingseign eða jafnvel minnihlutaeign með einhverjum litlum mun af hálfu ríkisins kæmi líka til greina. Hér er kjarni málsins hins vegar sá að brjóta blað í rekstri Bifreiðaeftirlitsins, að efla það með nýrri tækni og nýjum fjárhag og nýrri stjórn og forustu.

Ég tek fram að að þessari athugun hafa staðið saman fulltrúar frá Félagi bifvélavirkja, frá Bílgreinasambandinu, sem eru samtök verkstæða og innflytjenda, frá bifreiðatryggingafélögunum, frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda, auk manna sem starfa við bifreiðaþjónustu á öðrum sviðum, m.a. bílaleigu. Ég hef ástæðu til að ætla að þessir aðilar sem ég nefndi muni fúsir til að taka þátt í hlutafélagi í samræmi við þau drög að félagssamþykktum sem fylgja frv.

Á sl. hausti kynnti ég fjvn. Alþingis þessi áform sem þá voru á frumstigi. Eins voru þeim nokkur skil gerð í fjárlagafrv. og við meðferð þess. Ég tel það ekki ofsagt að þar hafi þessum hugmyndum verið afar vel tekið. Hér væri reynt að fara nýjar leiðir í opinberri þjónustu þar sem fjárhagsleg ábyrgð fylgdi framkvæmdinni.

Þá kem ég að 4. og 5. gr. frv. Þar er í raun og veru um það að ræða að kveða skýrt að orði, að fela megi sveitarstjórnum að öllu leyti eða að hluta að framkvæma ákvæði sem varða brottflutning ökutækja í sambandi við álagningu og innheimtu gjalda vegna stöðvunarbrota samkvæmt umferðarlögum. Þetta er ekki síst flutt af því að Reykjavíkurborg, og reyndar fleiri sveitarfélög, hefur sýnt því áhuga að annast slíka innheimtu og það er stefna umferðarlaganna nýju og í þeirri framkvæmd sem ég vil þar hafa uppi að þetta sé mál sem framkvæmt sé sem næst vettvangi og sé vel komið hjá sveifarfélögunum.

Hæstv. forseti. Það er ekki þörf á að fara fleiri orðum um frv. sem, eins og ég sagði áðan, er komið frá hv. Ed. með einni breytingu, þeirri að gert verði ráð fyrir skoðunarstöðvum í hverju kjördæmi landsins. Þá brtt. styð ég. Ég tel að hér sé um mjög þarfa breytingu að ræða og legg áherslu á að frv. verði samþykkt sem lög á þessu þingi því eftir því er beðið að koma rekstrarformi Bifreiðaeftirlitsins á öruggan grundvöll, almenningi til hagsbóta.

Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.