05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7585 í B-deild Alþingistíðinda. (5629)

360. mál, umferðarlög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tala ekki fyrir hönd neinna sérstakra bílnúmera, enda er ég einn af þeim sem gengur illa að muna númerið hjá sér. Ég hef verið eindregið fylgjandi því að taka upp fastnúmerakerfi við skráningu bifreiða og hef í raun og veru ekki séð neina minnstu ástæðu til annars en að við hefðum slíkt kerfi því það gefur auðvitað auga leið að langeinfaldast er að bifreiðar haldi föstu númeri rétt eins og þær hafa í upphafi sitt framleiðslu- og verksmiðjunúmer sem síðan er notað svo lengi sem líf þeirra endist.

Það hafa líka verið ýmsar tillögur uppi um það hvernig mætti leysa þessa erfiðu deilu með númeraspjöldin,og ég kom með eina hér þegar málið var rætt á Alþingi síðast sem fékk ágætar viðtökur og ég ætla að hafa hana áfram með í umræðunni. Hún er sú að mönnum verði heimilt, samkvæmt sérstökum ákvæðum, e.t.v. í reglugerð, að hengja gömlu númeraspjöldin sín ofan við nýju spjöldin. Þannig geti menn eftir sem áður skreytt sig með skemmtilegum númerum, en verði engu að síður aðilar að hinu samræmda fasta númerakerfi.

Annað atriði frv. vildi ég aðeins staldra við og þar er ég ekki jafneindreginn fylgismaður eins og ég er við 2. gr. eða 3. gr. og það er það ákvæði að búa til einhvers konar hlutafélag til að annast skoðun á bifreiðum. Um það hef ég vissar efasemdir, fyrst og fremst þær að ég óttast að það komi til með að koma niður á þjónustunni við íbúa hinna dreifðu byggða. Þegar menn fara að sperra sig við að reka eitthvert hlutafélag og stúdera arðsemi einstakra anga starfseminnar, jafnvel menn mismunandi vel að sér í prósentureikningi, óttast ég að útkoman úr því geti orðið vond og niðurstaðan verði sú að þjónustan við afskekkt byggðarlög minnki. Og ég spyr: Hvað meina menn með brtt. í þá átt að skilyrða að skoðunarstöð skuli sett upp í öllum kjördæmum landsins? Ber að skilja það sem svo að það eigi þá eingöngu að vera ein skoðunarstöð í hverju kjördæmi? Er sem sagt meiningin í kjördæmi eins og Norðurl. e., þar sem Bifreiðaeftirlitið hefur haft stöðvar á fleiri stöðum í kjördæminu, að leggja aðra þeirra eða einhverja þeirra niður og reka alla til skoðunar á einni stöð? Eða hvað hafa menn hugsað sér í því sambandi í hinu nýja hlutafélagi sem á auðvitað að skila arði eins og allt annað? Ég hef fyrst og fremst efasemdir um það á þessum forsendum að ég vil ógjarnan sjá það að þjónusta manna verði mismunandi eftir því hvar þeir búa og sumir þurfi þá að sæta því að aka um langan veg til að fá druslurnar skoðaðar og ekki víst að þær hafi gott af slíkum ferðalögum, bifreiðar sem fara kannski aldrei út fyrir sín héruð og eru ekki vanar því að leggja á sig löng ferðalög. Ég óttast það að heilsufar ýmissa bifreiða leyfi heldur ekki slík ferðalög.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Ef menn vilja fara út í breytingar á þessu fyrirkomulagi á annað borð, hefur þá ekki sá kostur að löggilda tiltekin verkstæði og heimila þeim að annast þessa þjónustu eins og víða er tíðkað erlendis ekki verið kannaður og hvað mælir þá á móti því að það sé gert? Ég hygg að fá byggðarlög séu svo illa stödd að þar séu ekki einhverjir þeir aðilar sem annist þessa þjónustu að halda við og annast meiri háttar viðhald á bifreiðum íbúa viðkomandi svæða og að í flestum tilfellum væri þá hægt að koma þessari þjónustu upp í hverju byggðarlagi með því að löggilda einhverja aðila sem treystandi væri, að sjálfsögðu með eftirliti, til þess að annast þessa þjónustu. Eins og ég segi, sá háttur er víða hafður á erlendis og hefur mér vitanlega ekki skilað neitt lakari árangri.

Ég styð sem sagt eindregið þær breytingar á umferðarlögunum, öfugt við hv. síðasta ræðumann, að fastnúmerakerfið verði tekið upp, en ég hef meiri efasemdir um hitt og hef lagt fyrir hæstv. ráðherra ákveðnar spurningar í því efni.