05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7589 í B-deild Alþingistíðinda. (5634)

360. mál, umferðarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að mótmæla orðum dómsmrh. að þjónusta á Norðurl. v. sé ófullnægjandi og ég vísa algerlega á bug ósæmilegum aðdróttunum hans um það að bifreiðaeftirlitsmenn á Norðurl. v. séu fúskarar og þess vegna séu bifreiðaslys tíðari þar heldur en annars staðar á landinu. Bifreiðar eru vandlega skoðaðar í Norðurl. v., það leyfi ég mér að fullyrða, og af hæfum mönnum.

Ég hef enga trú á því og ég veit að þjónustan versnar um alla landsbyggðina við upptöku þessa skipulags sem ráðherrann leggur hér til og því miður verður þetta til þess að minnka öryggi í umferðinni en ekki til þess að auka það. Jafnvel þó að Björn Friðfinnsson hafi sagt honum að þetta muni batna með þessu skipulagi, þá er það ekki rétt.

Langflestir bílar skipta um eigendur innan sama umdæmis og af hverju skyldi það nú vera að flestir þeir Reykvíkingar sem selja öðrum Reykvíkingi eða versla innbyrðis skipta um númer á bílum sínum? Það eru hverfandi fá tilfelli þar sem menn innan sama umdæmis halda ekki í sínar númeraplötur. Það er vegna þess að fólkinu þykir vænt um númer sín, og alveg burt séð frá því hvort heiminum þykir númerin falleg eða ekki, þá taka menn tryggð við þau númer sem þeir hafa haft í ákaflega mörgum tilfellum og óska eftir að halda þeim jafnvel þó að ekkert sé því til fyrirstöðu að þeir gætu sparað sér það ómak.