05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7590 í B-deild Alþingistíðinda. (5635)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég harma það ef hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur skilið orð mín á þann veg að ég væri að varpa einhverri rýrð á þá góðu starfsmenn sem vinna við bifreiðaeftirlit í hans kjördæmi. Það gerði ég ekki. (PP: Hlustaðu bara á ræðuna.) Það gerði ég ekki, ég sagði þetta ekki. Ég sagði kannski að menn í hans kjördæmi ættu enn meira en aðrir undir því að eftirlitið væri öruggt alls staðar á landinu. Það er nákvæmlega þarna sem við komum að kjarna málsins, að það þarf að bæta það alls staðar og það þarf að bæta það fyrst og fremst með því að það séu til öruggar skoðunarstöðvar fyrir stóra bíla sem smáa og það þarf að gerbreyta tækninni í þessu. Það er enginn sem segir að menn í Bifreiðaeftirlitinu reyni ekki að vinna sín störf af fyllstu samviskusemi, það gera þeir. En þeir hafa ekki tækin í höndunum. Þeir hafa ekki aðferðirnar til þess. Það er það sem breyta þarf. Út á það gengur þessi tilraun til þess að byggja þarna upp nýja og betri þjónustu, bæta öryggið í umferðinni en alls ekki að skerða þjónustuna við landsbyggðina. Enda er það nú svo sem betur fer að bílar eru færanlegir hlutir og hægt er að færa þá til skoðunar hér og hvar en engu að síður verður allt gert sem kostur er til þess að koma til móts við þarfir landsbyggðarinnar og bjóða upp á þessa þjónustu þar sem hentugt þykir og öruggt er að hún sé í fullkomnu lagi vegna þess að það þreifi- og skynmat sem nú er framkvæmt á bílunum er ekki nóg og það skipulag sem er á skoðuninni er ekki fullnægjandi við nútímaaðstæður. Þetta eru vinnubrögð sem eru löngu aflögð í öðrum löndum og við megum ekki spara okkur þá fyrirhöfn sem í því felst að skipta um aðferð. Þetta er tilgangur frv. og ég bara frábið mig orðum eins og þeim sem hér féllu hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að í þessu fælist gagnrýni á mennina sem vinna í kerfinu. Gagnrýnin er á kerfið. Tillagan er um að breyta því.