05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7592 í B-deild Alþingistíðinda. (5639)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Við hv. 2. þm. Vestf. og aðra þá sem hafa undrast það að við skulum nú ræða þetta mál svo seint sem er á deginum og svo skammt sem lifir eftir þingsins vil ég bara segja þetta: Margs þarf búið við og við þurfum að huga að mörgum málum og helst ljúka þeim. Það er sú skylda sem á okkur hvílir.

Ég vildi benda hv. 4. þm. Norðurl. e. á það að þetta mál er nú hér í seinni deild og hefur fengið rækilega meðferð í allshn. hv. Ed. Út af því sem hann ber sérstaklega fyrir brjósti um þjónustuna úti á landsbyggðinni vil ég segja þetta:

Það er nauðsynlegt að hafa fullkomnar skoðunarstöðvar í Reykjavík og víðar til þess að hafa samanburðargrundvöll vegna samninga við verkstæði. Það er kannski ekki minnst um vert, til þess að geta gert samninga um skoðun og prófun á ökutækjum, að menn hafi samanburðargrundvöll. Hann fæst í skoðunarstöðvunum. Ég fullvissa hv. 4. þm. Norðurl. e. um það að þegar fyrirtækið velur þjónustuaðferðina þá verður það líka að hafa í huga hagkvæmnina fyrir bíleigendurna, enda býst ég við því að jafnan verði litið svo á að fyrirtækið sé að framkvæma reglugerðir sem settar hafa verið af þar til kjörnum yfirvöldum og sé ekki sjálfrátt um þetta í einu og öllu. Það er með þetta eins og aðra svona framkvæmd. En vissir þættir í verkinu eru eins og hver annar atvinnurekstur og það eru þeir sem á að fela félaginu.

Ég vildi líka taka fram að það er auðvitað alveg sjálfsagt að hv. allshn. þessarar deildar kalli fyrir sig þá menn sem hún kýs til að fá svör við spurningum af þessu tagi. En ég fullvissa hv. deild um það að öll þessi mál hafa verið könnuð og fyrir liggja svör um það hvernig menn hyggist taka á þeim en auðvitað verður þetta líka að einhverju leyti að ráðast af því sem í ljós kemur þegar af stað er farið með fyrstu stöðvarnar.