06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7610 í B-deild Alþingistíðinda. (5646)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég tel mig knúna til þess að gera hér örstutta athugasemd vegna ræðu síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefáns Guðmundssonar. Mér þykir afar leitt ef hann hefur bæði misskilið orð mín og jafnvel tóntegund vegna þess að það var aðeins eitt atriði sem ég tel mig hafa gagnrýnt í alvöru varðandi þessa afgreiðslu sem ég vitnaði til og það var að ekki voru gefnar skýringar á því hvers vegna umsókn var hafnað. Það er kannski vinnuvenja í Byggðastofnun en ég velti vöngum yfir því í máli mínu hvort Byggðastofnun hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að styrkja verkefni af þessu tagi sem ég ræddi um þarna og tel vera mjög brýn og nauðsynleg eins og málin eru núna.