06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7611 í B-deild Alþingistíðinda. (5647)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Umræðan um Byggðastofnun hefur þróast yfir í umræður um byggðamál. Ein af umdeildari stofnunum þessa lands var Framkvæmdastofnun Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, og það var talað um kommissarakerfið og það var talað um pólitík í sambandi við þá stofnun.

Ég ætla að hvetja menn til ef þeir vilja kynna sér störf þeirrar stofnunar og að mínu viti nokkuð heiðarlega úttekt á árangri þeirrar stofnunar að kynna sér skýrslu sem var unnin af starfsmanni stofnunarinnar sem starfaði þar mjög stutt, var afkastamikill að mati þeirra sem þar voru og situr í dag á Alþingi Íslendinga, Sighvati Björgvinssyni. Þessi skýrsla er verulega mikil ritsmíð með óhemjumiklum upplýsingum um hvað það var sem Framkvæmdastofnun gerði.

Framkvæmdastofnun hafði yfir að ráða bæði Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði. Það sáu margir ofsjónum yfir því valdi sem þar var saman komið. Nú standa mál þannig að Framkvæmdasjóður lýtur sérstakri stjórn þar sem segja má að framkvæmdarvaldið hafi haft af þinginu yfirráðin yfir sjóðnum. Ég er ekki búinn að sjá það að framkvæmdavaldið fari betur með þann sjóð en farið var með hann á dögum þingsins þegar það stjórnaði sjóðnum með sínum fulltrúum.

Ég get ekki látið hjá líða að vara við þeim hugsunarhætti í umræðum um byggðamál að það sé hægt að setja eitthvert jafnaðarmerki um árangur í byggðamálum og þess hvernig Byggðastofnun reynist í starfinu. Það er fráleitt. Það er svo fráleitt að það nær ekki nokkurri átt, hvorki að hugsa né tala þannig.

Mjög mörg ráðuneyti fjalla um byggðamál eðli sínu samkvæmt. Eitt af þeim sem vigta þar mjög þungt, og er í sjálfu sér ekki nema eðlilegur hlutur, er félmrn. Félmrn. hefur veruleg áhrif á undirbúning allra laga sem snerta sveitarfélögin og stefnuna í þeim málum.

Ég tel að eitt af því stærsta sem þurfi að gerast til þess að byggðirnar rísi sé að við komum á þriðja stjórnsýslustiginu. Auðvitað er sjálfsagður hlutur að sameina sveitarfélög þegar vilji og áhugi er til staðar og stundum verður að gera það jafnvel þó að áhugi sé nú ekki staðar. En ég vil bæta því við að mér sýnist þörfin brýnust hér í Reykjavík að sameina sveitarfélögin. Hvers vegna á Seltjarnarnes t.d. að verða sjálfstætt sveitarfélag? Hvaða rök eru fyrir þeirri vitleysu? Er eitthvað sem mælir með því? Ég er hér um bil viss um að hver einasti alþm. Íslendinga mundi falla á prófinu ef hann ætti að fara og ganga á mörkin milli Reykjavíkur og Seltjarnarness. Hann mundi ekki vita hvar mörkin væru.

En þetta er tilfinningamál. Sennilega er ekkert vit í að bera fram tillögu hér á Alþingi Íslendinga um að þessi sveitarfélög verði sameinuð. Þess vegna mundi þriðja stjórnsýslustigið sem yrði þá yfirstjórn yfir öllu Stór-Reykjavíkursvæðinu koma að verulegu gagni og hafa afgerandi áhrif til þess að koma í veg fyrir ýmsa vitleysu sem á sér stað í skipulagsmálum á þessu svæði.

Ég hef orðið var við að sumir telja að þriðja stjórnsýslustiginu sé stefnt gegn höfuðborginni. Ég hef líka orðið var við það að Samband ísl. sveitarfélaga taldi þessu stefnt alveg sérstaklega gegn sér og þar voru bæði pennafærir menn og eins þeir sem virtust ekki mjög kræfir í meðferð slíkra vopna sendir fram á völlinn um leið og þingmannanefnd skilaði af sér og sýndi fram á ágæti þess að hér yrði komið á þriðja stjórnsýslustiginu.

Þetta er sem sagt að mínu viti annað af stóru atriðunum varðandi það hvað verður um byggðaþróun á Íslandi. Hvert skyldi nú hitt vera? Hitt atriðið er stefnan í gengismálum. Sú aðferð að fela framkvæmdarvaldinu að selja sér sjálfdæmi um það á hvaða verði gjaldeyririnn er keyptur hefur gefist illa fyrir íslenska landsbyggð. Trekk í trekk hefur það gerst að valdhafarnir hafa verið vaklandi, brjótandi um það heilann hvort ekki væri nú útlit fyrir betri tíð og blóm í haga, og ástæðulaust að hreyfa við genginu þegar fyrirtækjum landsbyggðarinnar hefur verið að blæða út. Ég man þá tíma þegar hrunið mikla varð á dögum viðreisnar. Ég man þá tíma. Það var heldur engin smáræðisbreyting sem þá varð að eiga sér stað á gjaldeyrismálum svo að hægt væri að koma hlutunum af stað aftur. Menn voru að fárast yfir því að það færu óverðtryggð lán frá Byggðasjóði á sínum tíma út á land. Hvaða upphæðir halda menn að hafi verið fluttar til með rangri gengisskráningu krónunnar í gegnum tíðina? Ég er ekki með þessu að halda því fram að það sé einhver gæfa fyrir okkar þjóð ef hrunadans verðbreytinga á sér stað, þvert á móti. En menn verða bara að átta sig á því að menn stoppa ekki verðbólgu í frystihúsunum og meðan menn eru með tilraunastarfsemi hvað það snertir að stoppa verðbólguna í frystihúsunum á landsbyggðin undir högg að sækja. Ein slík tilraun stendur yfir í dag.

Þetta er raunverulega hluti af því máli sem enginn Íslendingur getur látið ógert að taka afstöðu til. Enginn Íslendingur. Og meðan menn telja að þær leikreglur séu réttar eins og þær eru núna er tómt mál að tala um að hægt sé að snúa þeirri þróun við og ná upp fólksfjölgun úti á landi. Ef menn færa aftur á móti valdið heim í héruðin í ríkara mæli með þriðja stjórnsýslustiginu og ef menn viðurkenna heiðarlegar söluleikreglur á erlendum gjaldeyri en ekki kaldar eignaupptökur eins og framkvæmt er í dag getur komið sú tíð að við sjáum blómlegar byggðir Íslands rísa hringinn í kringum landið. Aftur á móti, því miður, höfum við fallið ofan í það foræði að þjóðin er að skiptast upp í tvo hópa. Annar hópurinn trúir því að landsbyggðin sé baggi á þéttbýlinu. Hinn hópurinn trúir því gjarnan að hér í þéttbýlinu séu ekki unnin þjóðþrifastörf. Þetta eru kannski öfgarnar af þeirri mynd sem við blasir en þessi staðreynd er engu að síður svo afgerandi að það er orðið tímabært að stjórnmálamenn reyni að bera þarna klæði á vopnin. Til þess að það sé hægt verður hins vegar að ríkja réttlæti. Alveg eins og það er eðlilegur hlutur að Reykjavíkurborg ráði sínum embættismönnum er það eðlilegur hlutur að Norðlendingar ráði sínum embættismönnum, Sunnlendingar sínum, Austfirðingar sínum og íbúar í Vestfirðingafjórðungi sínum. Og það þýðir ekki að standa þannig að málum, eins og gert er, að framkvæma þjóðnýtingu aftan frá á fyrirtækjum landsbyggðarinnar með því að neyða þau til að selja gjaldeyrinn undir kostnaðarverði.

Þetta eru þeir hlutir sem skipta máli. Okkur miðar vel áfram í mörgum flokkum uppbyggingar úti á landi. Hæstv. forsrh. hefur gjarnan minnst á sjúkrahúsin og skólana í þessum efnum. Og það er rétt. Það er búið að vinna mikið og gott starf hvað uppbyggingu á þessum mannvirkjum snertir. Væri það þá ekki hámark kaldhæðninnar ef þetta stæði svo bara ónotað vegna þess að óbilgirnin á hinum sviðunum er það mikil að landsbyggðin nær ekki að rétta við?

Ég var að lesa í gær í Morgunblaðinu grein eftir Vestfirðing, Einar Odd Kristjánsson á Flateyri. Ástæðan fyrir því að hann taldi sér nauðsyn að drepa niður penna, var að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins hafði hann og hópur annarra ágætra sjálfstæðismanna víðs vegar um landið orðið fyrir því að vera settir í einn hóp sem hálfgerðir ónytjungar sem bæru ábyrgð á því að útgerðarfyrirtæki Íslands væru ekki rekin með hagnaði þessa stundina og fiskvinnslufyrirtæki landsins. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir hversu stór ákvörðun það er hjá mönnum eins og Einari Oddi að taka sig til og gagnrýna Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins sem þeir hafa frá því að þeir urðu læsir litið á sem hin helgustu vé í boðskap sjálfstæðisstefnunnar á Íslandi. En hann hefur sennilega verið kominn í sömu aðstöðu og Úlfur rauði, stafnbúi Ólafs Tryggvasonar á Orminum langa, sem taldi ekki gæfulegt hvernig skipum var lagt við Svoldurorustu, og konungur lagði ör á streng og hugðist drepa stafnbúa sinn. Úlfur taldi að hann ætti frekar að skjóta þangað sem meiri væri þörfin: „Því þér vinn ek, konungur, það ek vinn.“ Og því mættu húsbændur á Morgunblaðinu gjarnan gera sér grein fyrir að það er ekki víst að það sé það þarfasta sem þeir vinna að skjóta á þá menn sem nú af því viti og þeim dugnaði sem þeim er gefinn reyna að verja þessi framleiðslufyrirtæki áföllum þó þeir hiki við í litlum byggðarlögum að beita fjöldauppsögnum. En Stephani G. var þetta yrkisefni, þetta atvik úr átökunum við Svoldur og orðaði það svo:

Sárt hefur Ólafs ofsa brunnið

einart svar frá kappa smáðum:

„Þér hefur, kóngur, Úlfur unnið

afrek sín og fall sitt bráðum.

Ver ei lakar lyfting þína,

lofðungur, en Úlfur stefnið“.

Oft nam vilhöll vanþökk brýna

vangoldnara sama efnið.

Það getur nefnilega farið svo að sumir af þessum framkvæmdastjórum viti fall sitt fyrir þó að ég trúi því nú ekki að það fari svo á Flateyri. En þeir standa í því að verja þessa ríkisstjórn svo grimmt og svo lengi að þeirra ævistarf hrynji fyrir vikið fáist ekki stefnubreyting. Það er þetta sem skiptir máli fyrir landsbyggðina: Það er réttlæti í þessum viðskiptum með gjaldeyrinn og það er valdið heim í héruðin. Þá rís landsbyggðin á Íslandi.