06.05.1988
Efri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7643 í B-deild Alþingistíðinda. (5656)

271. mál, framhaldsskólar

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu að bæta við það sem þegar er komið fram í ræðum þeirra hv. þm. sem hafa fjallað um frv. hér á undan í umræðunum. En mig langar að fara örfáum orðum um einn þátt mála, þ.e. námsskipan og hvert skuli vera innihald náms í framhaldsskólanum. Í frv. er fyrst og fremst lögð áhersla á að skilgreina rammann utan um skólastarfið, stjórnun skólanna og fjallað ítarlega um rekstrargrundvöll framhaldsskólanna en sáralítið fjallað um það sem í mínum huga er kannski aðalatriði framhaldsskólans en það er hvers konar nám fer þar fram, hvað læra nemendur í framhaldsskólanum.

Nú er ég að sjálfsögðu alveg sammála því að eins og framhaldsskólinn hefur þróast hér á Íslandi undanfarin ár þá hefur námsefni orðið æ fjölbreyttara og möguleikar nemenda til að velja sérnám við sitt hæfi hafa aukist að sama skapi. Þetta er mjög jákvæð þróun og það er vissulega séð fyrir því að þetta haldi áfram með því frv. sem hér liggur fyrir. Hins vegar má ekki alveg gleyma því að framhaldsskólanum er ætlað ákveðið hlutverk. Það má segja að það sé tvíþætt, annars vegar að búa nemendur undir næsta skólastig þar fyrir ofan, sem er háskólastigið, svo og að sjálfsögðu að búa nemendur undir þau framtíðarstörf í þjóðfélaginu sem þeir ætla að takast á við að loknu námi í framhaldsskólanum. Hins vegar finnst mér vanta frekari upplýsingar um námsefni og námsmat, hvaða einkunnakerfi skal notað, á t.d. að vera um samræmt einkunnakerfi fyrir alla framhaldsskóla að ræða. Á yfirleitt að samræma námsefni framhaldsskólanna eða á það að vera í höndum skólanefnda hvers og eins skóla hvað verði boðið upp á? Má t.d. búast við því að sumir framhaldsskólar hætti alveg að kenna erlend tungumál? Er hugsanlegt að í sumum framhaldsskólum verði engin kennsla í stærðfræði og náttúruvísindum? Verður stúdentsprófið lagt niður? Svona spurningar vakna óneitanlega. Það er að vísu minnst á það í 21. gr. frv. að í námsskrá skuli mælt fyrir um námsmat, próf og vitnisburð en annað er ekki þar að sjá eða frekari lýsingu á því námi sem á að fara fram í framhaldsskólanum.

Ég hafði nú ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu mjög. Mér þætti þó vænt um ef hæstv. menntmrh. vildi kannski í örstuttu máli svara þessum spurningum mínum. Ég hef sem sagt nokkrar áhyggjur af því að það kunni að verða sú þróun í framhaldsskólanum að ýmislegt námsefni sem áður þótti nauðsynlegt hverjum nemanda sem fór í framhaldsskóla verði hjá ýmsum skólanefndum ekki lengur talið nauðsynlegt og verði fellt niður. Þá að lokum vaknar líka sú spurning varðandi háskólastigið hvernig háskólarnir eigi að bregðast við þegar nemendur knýja þar á dyr sem hafa öðlast tilskilin réttindi vegna þess að framhaldsskólinn hefur veitt þeim rétt til náms í háskóla. Þá vantar e.t.v. alla þá undirstöðu og þekkingu í ýmsum faggreinum sem krafist er að þeir hafi þekkingu í í háskólanum, en í framhaldsskólanum hefur ekki verið boðið upp á þær námsgreinar.

Ég hefði óskað þess að það hefði verið fjallað ítarlegar um námsefnið, um einkunnakerfið, um námsskrá með meiru og prófhald og réttindi nemenda að loknum burtfararprófum úr framhaldsskólanum. Mér finnst það ansi magurt sem stendur í frv. Að sjálfsögðu er hægt að setja nánari reglur um þetta allt í menntmrn. en ég hefði nú engu að síður kosið að það hefði verið fjallað aðeins nánar um þetta í lögunum sjálfum.