06.05.1988
Efri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7651 í B-deild Alþingistíðinda. (5670)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. félmn. (Karl Steinar Guðnason):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta mál og fengið til viðræðu við sig Inga Val Jóhannsson, deildarstjóra í félmrn. Hjá honum kom fram að mikill áhugi er fyrir kaupleiguíbúðum, sérstaklega úti á landsbyggðinni, að því er fram hefur komið í félmrn. Frá Húsnæðisstofnun ríkisins mættu þau Sigurður E. Guðmundsson, Katrín Atladóttir og Percy Stefánsson og voru þau að því er skilja mátti hlynnt frv. Frá samtökunum Þak yfir höfuðið komu þau Reynir Ingibjartsson frá Búseta, Kristín Jónsdóttir frá Öryrkjabandalaginu og Ómar Geirsson frá Félagsstofnun stúdenta. Það kom fram í máli þeirra að þau töldu að þessi leið í húsnæðismálum væri áfangi á réttri leið, en gátu þess reyndar mjög skilmerkilega að margt væri ógert í húsnæðismálum. Þá mætti formaður Félags fasteignasala, Þórólfur Halldórsson, á fund nefndarinnar. Hann taldi ekki tímabært að samþykkja þær breytingar sem hér eru gerðar á húsnæðislöggjöfinni, taldi hana ekki tímabæra og vildi fresta henni til endurskoðunar húsnæðislaganna.

Það hefur mikið verið rætt um þetta mál í þinginu. Það hafa átt sér stað harðar deilur um það. Ég ætla ekki að fara yfir þá málsþætti og ekki kveikja elda í deildinni um það þess vegna, en ég vænti þess að hv. þingdeildarmenn geti sameinast um að afgreiða þetta mál fljótt. Það er að mínu mati nýr áfangi til mikilla bóta í húsnæðiskerfinu og verður vafalaust til farsældar fyrir húsbyggjendur í landinu.

Á fundi nefndarinnar sat Júlíus Sólnes sem áheyrnarfulltrúi. Það er rétt að geta þess líka að það koma sérálit frá tveimur nefndarmanna, Guðrúnu Agnarsdóttur og Svavari Gestssyni. En meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd.