06.05.1988
Efri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7651 í B-deild Alþingistíðinda. (5671)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. félmn. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. félmn. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, með síðari breytingum, sem er á þskj. 1076.

Það er orðið löngu tímabært að fram fari heildarendurskoðun á húsnæðismálakerfinu og þá ekki síst að tryggður verði sá fjárhagsgrundvöllur sem það byggir á. Núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins miða nær eingöngu við að fólk eignist það húsnæði sem það býr í. Aðrir valkostir bjóðast varla. Alls staðar vantar leiguíbúðir og víða um landið hefur skortur á leiguhúsnæði m.a. verið talinn standa í vegi fyrir eðlilegri þróun byggðar og atvinnulífs. Þetta hefur ásamt öðru leitt til stórfelldrar og vaxandi byggðaröskunar með flutningi fólks af landsbyggðinni til Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins og nú er svo komið að engu minni skortur er á leiguhúsnæði í Reykjavík en víða á landsbyggðinni og bitnar það harðast á þeim sem lægstar hafa tekjur og erfiðust kjör.

Í könnun sem gerð var á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins kemur fram, og það var könnun á leiguhúsnæði, að fram til ársins 1990 frá árinu 1986 má búast við að vanti 2500–3000 leiguíbúðir. Það er því fyllilega tímabært að opna nýjar leiðir í húsnæðismálum landsmanna, m.a. með því að auka framboð á leiguhúsnæði. Kvennalistinn hefur bent á þetta ítrekað og hafa þingkonur Kvennalistans flutt tillögur á síðasta kjörtímabili t.d. um sérstakt átak í byggingu leiguhúsnæðis.

Fjöldi fólks á nú í miklum erfiðleikum vegna íbúðakaupa og má segja að launafólk eigi vart möguleika á að koma sér upp þaki yfir höfuðið á þeim kjörum sem bjóðast. Sífelldar breytingar á húsnæðislánakerfinu á undanförnum árum hafa valdið miklu óöryggi þannig að fólk veit varla við hverju það má búast frá ári til árs af hálfu hins opinbera. Núverandi lánakerfi gerir ráð fyrir að hægt sé að fá lán til íbúðakaupa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir allt að 70% af verði íbúðar af hóflegri stærð. Það er ekki hægt að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er eftir lánum til íbúðarkaupa. Þetta hefur leitt til þess að bið eftir lánum er mjög löng. Nú þurfa þeir sem eru í forgangshópi að bíða í a.m.k. tvö ár frá því að sótt er um þangað til þeir fá fyrri hluta lánsins. Ef ekkert verður að gert stefnir í enn lengri biðtíma eftir lánum, lækkun lánsupphæðar eða að beinlínis verði að synja fleirum um lán.

Ég vil taka það skýrt fram að við styðjum þær meginhugmyndir sem liggja að baki kaupleigufrv. og teljum þær vera jákvæðar. Kaupleiguíbúðir ættu að henta flestu fólki mjög vel. Fastar hóflegar mánaðargreiðslur hljóta að vera það sem við viljum að fólki standi til boða hvort sem það heitir að leigja eða kaupa húsnæði sitt smám saman.

Einnig er mikilvægt að fólki sé tryggður búseturéttur í íbúð, en þurfi ekki sífellt að flytja með stuttum fyrirvara eins og nú gildir á leigumarkaðnum. En það eru sannarlega margir óvissuþættir enn varðandi þetta frv. og tengsl þess við aðra þætti húsnæðismála, sérstaklega við félagslega þáttinn.

Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, Landssamtökin Þroskahjálp, Samtök aldraðra, stúdentaráð Háskóla Íslands, Bandalag ísl. sérskólanema, Leigjendasamtökin og Búseti hafa nýlega myndað með sér samstarf um húsnæðismál og hafa gefið út bækling sem var sendur öllum alþm. og heitir Þak yfir höfuðið. Hann fjallar um félagslegar íbúðabyggingar á Íslandi. Samtökin sendu sameiginlega athugasemd við frv. og er sú umsögn reyndar birt sem fskj. við álit meiri hl. félmn. í Nd. þar sem þingmenn geta kynnt sér hana betur, en þó vil ég lítillega vitna í þessa umsögn því að ég tel mjög mikilvægt að þessum hópum sé séð fyrir hæfilegu húsnæði, en þeim finnst þeir ekki eiga auðveldan aðgang að því kaupleiguformi sem stungið er upp á í þessu frv. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Samtökin átta komu ábendingum um væntanlegt frv. um kaupleiguíbúðir á framfæri við félmrn. dags. 26. ágúst 1988. Í framhaldi af kynningarfundi með samtökunum 26. nóv. sl. voru gerðar ákveðnar athugasemdir. Ljóst er af framlögðu frv. að mjög lítið tillit hefur verið tekið til ábendinga og athugasemda frá þessum samtökum sem eru í forsvari fyrir leigjendur, öryrkja, námsmenn og aldraða. Þó ber að fagna þessu frv., en samþykkt þess mun væntanlega auka framboð á leiguhúsnæði með hlutareign og kaupum sem valkostum. Í stað skiptingar í félagslega og almenna kaupleigu virðist þó eðlilegra að hafa eitt kaupleigukerfi þar sem tekið væri mið af mismunandi greiðslugetu íbúa með mismunandi vöxtum og mismunandi afborgunartíma lána.“

Það kom einmitt skýrt fram í máli fulltrúa þessara samtaka, sem mættu á fundi nefndarinnar í morgun, að þeir teldu að kaupleigufrv. eða kaupleiguhugmyndin væri sannarlega áfangi í átt til öflugra félagslegra húsnæðiskerfis þó þeir teldu vandkvæði á því að þeir gætu fengið þar aðgang fyrst og fremst vegna þess að þeir stæðu ekki undir afborgunum eins og ætlað er í þessu kerfi.

Ég mun ekki tefja tíma deildarinnar með því að vitna frekar í margt af því sem kom fram í máli þeirra, en það lýsti þó mjög vel þeirri brýnu neyð sem steðjar að bæði mörgum öryrkjum, námsmönnum og öðrum þeim sem eru á hrakhólum með húsnæði en hafa ekki efni á því að borga allt að 30 þús. kr. fyrir þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu.

Á þessu ári er áætlað að verja um 273 millj. kr. í félagslegar kaupleiguíbúðir hjá Byggingarsjóði verkamanna, en skv. fjárlögum eða lánsfjárlögum hefur ekki verið gert ráð fyrir að verja neinu fé í almennar kaupleiguíbúðir. Þá er athyglisvert að ekki liggur fyrir neitt um það hve mikið af því fé sem áætlað er að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi til ráðstöfunar á næstu árum fari í kaupleiguíbúðir. Fjármögnun þessara nýju lánaflokka er því í mikilli óvissu. Ég legg áherslu á að þegar verið er að gera ákveðna tilraun með nýtt kerfi eins og hér er verið að gera og stjórnarflokkarnir hafa samþykkt tel ég mjög áríðandi að þetta kerfi fái þá tækifæri til að sýna hvernig það þróast og því sé gefinn nægilegur tími og nægilegt fé til þess að það megi rætast. Látið er að því liggja að fjármagn verði tekið af fé til annarra lánaflokka Húsnæðisstofnunar og sett í kaupleiguíbúðir. Þetta gæti leitt til enn meira öngþveitis og óvissu í húsnæðismálum en nú er.

Í janúar sl. var skipaður vinnuhópur til að gera tillögur um framtíðarskipun húsnæðislánakerfisins og til að leggja mat á stöðu núverandi kerfis. Í álitsgerð vinnuhópsins til félmrh. frá 23. mars 1988 kemur m.a. fram að núverandi lánakerfi valdi ekki hlutverki sínu. Í framhaldi af þessu hefur verið boðað að endurskoðun eigi að fara fram á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins strax á þessu ári.

Það er enginn vafi á því að margir binda miklar vonir við kaupleiguformið og halda í raun að það sé lausn á kannski öllum vanda í húsnæðismálum. Hins vegar er það líka rétt að það er alveg sama hve gott kerfi við búum til eða viljum koma á: ef ekki fæst til þess fjármagn, þá getur það ekki valdið hlutverki sínu.

Kvennalistinn leggur áherslu á nauðsyn þess að endurskoða húsnæðislánakerfið í heild, m.a. með það að markmiði að auka framboð á leiguhúsnæði, félagslegum íbúðum og íbúðum með búseturéttarfyrirkomulagi. Ég ítreka hér að við teljum að meginhugmyndin að baki frv. sé jákvæð, en við teljum ekki tímabært að koma á nýju kerfi við hlið þess sem fyrir er án þess að heildarstefna sé mótuð og án þess að fjármagn sé til þess tryggt. Það getur varla skipt sköpum þó frv. sé sett inn í heildarendurskoðun í húsnæðislöggjöfinni og taki gildi með haustinu ásamt öðrum breytingum. Varla þurfa ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra að óttast að ekki verði vilji til að vinna hratt og örugglega að þessum málum. Við kvennalistakonur erum a.m.k. boðnar og búnar til að vinna að þessum málum í sumar. Við höfum reyndar einmitt fengið beiðni um að skipa konu í nefnd til að vinna að þessum málum. Við teljum afar brýnt að svo verði gert og fögnum því að stjórnarandstaðan eða fulltrúar hennar skuli fá leyfi til að taka þátt í þessari undirbúningsvinnu og fylgjast með allt frá byrjun. En eins og ég sagði: Við erum boðnar og búnar til að vinna að þessu málefni í sumar með það að markmiði að leggja fram heilsteypta löggjöf þar sem framtíðarstefna um kaupleiguíbúðir verði einnig mörkuð.

Með vísun til þess sem ég hef þegar sagt leggur 2. minni hl. til að þeir aðilar sem til þess verða kvaddir að endurskoða húsnæðislöggjöfina marki einnig framtíðarstefnu um kaupleiguíbúðir og málinu verði með það í huga vísað til ríkisstjórnarinnar.