06.05.1988
Efri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7657 í B-deild Alþingistíðinda. (5673)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er hvorki í hinni mestu fýlu né með hundshaus út af því máli sem hér er á dagskrá, en eins og fram kemur í nál. meiri hl. sit ég í félmn. þessarar hv. deildar og hún mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Það er orðið alllangt síðan kaupleiguíbúðir komu fyrst til umræðu hér á landi. Fólk hefur í aðalatriðum skipst í þrjá hópa varðandi afstöðu til málsins: Þá sem eru á móti, þá sem eru með og þá sem telja þetta fyrirkomulag áhugavert og allrar athygli vert en óttast að það verði erfitt í framkvæmd. Ég tilheyri síðastnefnda hópnum.

Hér á landi hefur fram til þessa farið meiri tími og orka í að koma sér þaki yfir höfuðið en gerist og gengur á meðal annarra þjóða. Það þarf ekki af öllu leyti að vera af hinu illa, en það þori ég að fullyrða að fjöldi fólks vill frekar nota tíma sinn á annan hátt en þann. Fyrir það fólk opnar kaupleigukerfið möguleika.

Innan húsnæðismálastjórnar mun starfa sérstakur starfshópur að því að móta tillögur um úrbætur á húsnæðisvanda byggðarlaga utan höfuðborgarsvæðisins og er það vel. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í fréttabréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins frá í mars á þessu ári hefur verið ákveðið að framkvæma könnun á ýmsum þáttum húsnæðismála landsbyggðarinnar og hefur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands verið fengin til þess að vinna það verk. Í fréttabréfinu segir, með leyfi forseta:

„Könnun Félagsvísindastofnunar verður þríþætt. Í fyrsta lagi verða kannaðar fyrirliggjandi upplýsingar um húsnæðisvanda landsbyggðarinnar og er þessi þáttur verksins nú þegar vel á veg kominn. Í öðru lagi er ætlunin að staða mála á nokkrum þéttbýlisstöðum verði könnuð sérstaklega með viðtölum við bæði íbúa á staðnum og sveitarstjórnarmenn. Þriðji og meginþáttur könnunar Félagsvísindastofnunar verður svo úrtakskönnun á stöðu og viðhorfum fólks í öllum byggðarlögum landsins til húsnæðismála.“ Ég vil lýsa ánægju minni með þetta starf.

Ég er þeirrar skoðunar að húsnæðismálin séu ein aðalástæða þess að fólki fer fækkandi á landsbyggðinni, a.m.k. á það við um mörg byggðarlög. Þá þarf engan að undra þótt fólk tvínóni við að byggja sér einbýlishús á stað þar sem endursöluverð þess yrði aðeins hluti af byggingarkostnaði. Þetta gerir þrátt fyrir allt það fólk sem er staðráðið í því að það vilji hvergi annars staðar búa en í einhverju ákveðnu byggðarlagi, en fyrir það fólk sem er að stofna heimili og hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um framtíðaraðsetur og eins það fólk sem gjarnan vill prófa að búa úti á landsbyggðinni er kaupleigukerfið að mínu mati lausnin.

Hins vegar vil ég segja að ég get að sumu leyti tekið undir með þeim sem telja að eðlilegra hefði verið að bíða með þessa breytingu þar til húsnæðislánalöggjöfin verður í heild sinni tekin til endurskoðunar sem er á næstu missirum.

Mig langar að síðustu, hæstv. forseti, að vitna aftur í fréttabréf Húsnæðisstofnunar ríkisins frá því í mars sl. þó það sé kannski ekki til siðs að geta þess jákvæða sem gerist á landsbyggðinni, en þar kemur fram að íbúðabyggingar á Akureyri jukust verulega á sl. ári. Þá var byrjað á 110 nýjum íbúðum og fullgerðar ca. 50, en um nokkurra ára skeið hefur íbúðum ekki fjölgað þar í bæ. Að áliti Finns Birgissonar, skipulagsstjóra Akureyrarbæjar, og Jóns Björnssonar félagsmálastjóra er heildarþörf nýrra íbúða fram til 1991 um 450. Íbúðaþörf á Akureyri eins og annars staðar fer vissulega eftir atvinnuástandi hverju sinni og nú sem stendur eru ýmsar blikur á lofti í þeim málum, einnig hvað snertir Akureyri. En við skulum vona að úr rætist hvað snertir rekstrarstöðu undirstöðuatvinnuveganna því að öðrum kosti er óþarfi að tala um byggingu húsnæðis yfirleitt.