06.05.1988
Efri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7659 í B-deild Alþingistíðinda. (5674)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu, það hefur orðið að samkomulagi að við mundum hætta klukkan sjö, en við 2. umr. vil ég segja samt nokkur orð. Ég bendi á að við þingmenn Borgarafl. í þessari deild lögðum fram heilsteyptar tillögur í húsnæðismálum er tóku yfir allt húsnæðiskerfið bæði er varðar félagslega þáttinn og svo hinn þáttinn líka.

Það frv. sem hér er er einn angi af okkar tillögum og ég verð að segja að þetta er í anda þess að gefa fleiri möguleika en þá sem verið hafa. En mér hefði þótt miklu nær en að taka þennan eina þátt út úr að helst fyrir því þingi sem er nú að ljúka hefðu legið tillögur um heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu. En ég vil lýsa því hér yfir að a.m.k. ég mun ekki standa í vegi fyrir því að þetta frv. verði samþykkt og þá í trausti þess að þegar sú endurskoðun sem nú stendur yfir fer fram verði litið á alla þætti húsnæðismálanna og þar á meðal þennan þátt þannig að heilsteypt löggjöf verði til og allir möguleikar sem ríkið getur boðið verði teknir inn í.

Ég vil aðeins segja þessi orð og mun þá fresta því að tala meira um þetta og einstök atriði þangað til að 3. umr. kemur.