06.05.1988
Efri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7659 í B-deild Alþingistíðinda. (5675)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég kem í ræðustól fyrst og fremst til að þakka hv. félmn. hve vel og fljótt hún hefur afgreitt það frv. sem hér er til umræðu og ég held að það sé óhætt að segja, þrátt fyrir að hér hafi verið mælt fyrir þremur nál., að þetta frv. hafi fengið hér jákvæðar undirtektir og umfjöllun.

Mig langar aðeins, fyrst ég er komin í ræðustól, að bæta við þann samanburð sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykv., þar sem hann bar saman greiðslur í verkamannabústaðakerfinu og kaupleigukerfinu, og geta þess, til þess að það komi fram rétt mynd af þessu máli, að hv. þm. kom aðeins inn á hluta þess sem fram kom í minnisblaði um þetta mál. Hann tók samanburð á mánaðarlegum kaupleigugreiðslum og greiðslubyrði þeirra sem fá fullt lán í verkamannabústaðakerfinu, þ.e. 100% lán. Við það verður að bæta til þess að komi fram sanngjörn mynd af þessu að það eru einungis 10% þeirra sem sækja um í verkamannabústaðakerfinu sem fá þetta viðbótarlán. Það má líka benda á um þá, sem eiga ekkert handbært fé og þurfa sjálfir að útvega sér þessi 15% lán og þurfa þá til þess að fara í bankakerfið, að greiðslubyrði þeirra er aftur á móti mjög þung fyrstu árin og væri það fyrsta árið um 23 000 kr. á mánuði á móti 12 600 í kaupleigukerfinu, annað árið 22 600 og fimmta árið 17 500. Ég held að það sé rétt að taka þetta með inn í myndina þegar verið er að bera saman greiðslubyrði á verkamannabústaðakerfinu annars vegar og kaupleigukerfinu hins vegar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara nú út í almennar umræður um húsnæðismál og vil aðeins ítreka í lokin þakkir til hv. félmn. fyrir afgreiðslu á þessu frv.