06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7662 í B-deild Alþingistíðinda. (5682)

434. mál, ríkisábyrgðir

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum.

Frv. þetta, sem fjallar annars vegar um hækkun áhættugjalds vegna veittra ríkisábyrgða og hins vegar um innheimtu ábyrgðargjalds af erlendum skuldbindingum þeirra aðila sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs vegna eignaraðildar hans eða af öðrum ástæðum, felur ekki í sér neinar efnisbreytingar frá ákvæðum V. og Vl. kafla brbl. nr. 68/1987, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Bráðabirgðalög þessi fjölluðu um breytingar á ýmsum lögum sem undir fjmrh. heyra auk ákvæða um nýja tekjustofna fyrir ríkissjóð. Því voru þau þá sett fram í bandormsformi.

Eins og kunnugt er var frv. til staðfestingar á umræddum bráðabirgðalögum lagt fram á sl. hausti. Það frv. hefur ekki verið afgreitt. Nú hafa mál hins vegar skipast þannig að ákvæði II.-IV. kafla og VII. kafla þeirra hafa verið afnumin þar sem þau hafa verið felld inn í aðra löggjöf þar sem þau eiga réttilega heima samkvæmt efni sínu. Í ljósi þessa hefur sá kostur verið valinn að flytja sérstök frv. um efni þeirra þriggja kafla sem eftir standa af brbl. Með þessum hætti er öllum efnisatriðum brbl. komið fyrir í viðeigandi sérlögum og þar með komið í veg fyrir að þau festist í sessi í formi bandorms.

Frv. þetta, sem er annað tveggja frv. sem flutt eru í framangreindum tilgangi, er efnislega samhljóða V. og VI. kafla brbl. Hins vegar hefur orðalagi og uppsetningu verið breytt nokkuð í því skyni að gera ákvæðin skýrari. Í því efni hefur verið stuðst við þá reynslu sem komin er á gjaldtöku þessa svo og framkvæmdareglur sem nótaðar hafa verið.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.