06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7664 í B-deild Alþingistíðinda. (5686)

436. mál, bifreiðagjald

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. beindi til mín fyrirspurn um hvort ekki hefði verið sett reglugerð til að nýta umrædda heimild um undanþágu að því er varðar gjaldtöku á bifreiðar öryrkja. Því er til að svara að það hefur verið gert og vísa ég þá til reglugerðar sem út var gefin 28. des. sl. og nánar tiltekið 4. gr. í þeirri reglugerð. Þar segir:

„Af bifreiðum í eigu þeirra sem njóta örorkustyrks, styrks vegna örorku barna eða örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins skal ekki greiða bifreiðagjald samkvæmt þessari reglugerð. Ef aðili sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds skv. þessari mgr. á fleiri en eina bifreið skal bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngri.“

Þessu til viðbótar er þess að geta að af hálfu fjmrn. var á sl. hausti erindað til Tryggingastofnunar og heilbrmrn. um framkvæmd slíkrar reglugerðar þar sem tilkynnt var að fjmrh. hefði ákveðið að nýta sér þessa heimild og þess farið á leit að heilbrmrn. og Tryggingastofnun gerðu tillögur um framkvæmdina og hvernig best mætti tryggja hnökralausa framkvæmd þessarar ákvörðunar. Í þessu bréfi segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega þarf að hyggja að því hvernig tryggja megi þeim öryrkjum sem komnir eru á ellilífeyrisaldur sama rétt og öðrum öryrkjum í þessu sambandi.“

Það sem hér er sagt þýðir: Heimildin var nýtt. Bifreiðagjald hefur ekki verið innheimt af bifreið öryrkja samkvæmt skrá um öryrkja frá Tryggingastofnun ríkisins. Síðan var ráðuneytinu hins vegar tilkynnt að því er framkvæmdina varðaði að Tryggingastofnun eða heilbrmrn. hefðu ekki í sínum fórum skrá yfir öryrkja eftir 67 ára aldur. Þetta varðaði að sjálfsögðu framkvæmd reglugerðarinnar. Niðurstaðan var sú að útbúin var sérstök skrá, send öllum innheimtumönnum ríkissjóðs og kveðið á um framkvæmdina þannig að þessi heimild skyldi nýtt með þeim hætti að bifreiðagjald er ekki innheimt á bifreiðar öryrkja samkvæmt öryrkjaskrá og ekki heldur í þeim tilvikum þegar um er að ræða fólk 67 ára og eldra sem nýtur svokallaðra bensínstyrkja. Þannig hefur framkvæmdinni verið háttað.

Um þá sem eru skráðir á þessum lista og njóta svokallaðs bensínstyrks gildir reglugerð sem sett var af heilbr.- og trmrh. frá 30. júlí árið 1980. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða uppbót á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk vegna rekstrar bifreiða sem bótaþega er brýn nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar.“

Þess skal getið að hér er um að ræða meginþorra þess fólks sem er á skrá yfir öryrkja fram að 67 ára aldri, en kann þó að vera ekki algerlega tæmandi samkvæmt upplýsingum heilbrmrn. Hér er miðað við bensínstyrk sem upphaflega nam ákveðinni krónutölu sem fylgt hefur síðan vísitölu og er þá miðað við um 200 l bensínnotkun á ári.

Það sem hér hefur verið sagt er það að þótt heimildin hafi að fullu verið nýtt hefur ekki verið gengið með endanlega fullnægjandi hætti frá reglugerðinni. Framkvæmdin er eins og hér hefur verið lýst, en enn er beðið eftir nákvæmum skrám af hálfu heilbrigðiseftirlits um öryrkja 67 ára og eldri.