06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7665 í B-deild Alþingistíðinda. (5687)

436. mál, bifreiðagjald

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vona að ég hafi tekið rétt eftir hjá hæstv. fjmrh. að þetta umrædda gjald hafi þegar verið fellt niður af bifreiðum í eigu öryrkja og björgunarsveita. Er það ekki rétt skilið? Ég fagna því og tel að fjmrh. hafi gert rétt í að fella það niður.

Hitt er annað mál að nú heyrist að ríkissjóður fái verulega miklu meiri tekjur en áætlað var og spursmálið er þá hvort bráðabirgðaráðstafanir eins og hér er verið að staðfesta séu réttlætanlegar eftir að slíkar upplýsingar liggja fyrir og hvort ekki sé þá rétt að hæstv. fjmrh. skoði þetta mál á milli umræðna með það í huga að hætta við að taka gjaldið hér eftir.

Annars er merkilegt, þegar svona tillögur og svona frv. til laga koma á borð hv. þm. í mesta sakleysi, að tala um eina upphæð sem er tiltölulega lág þó að hún geri heildarkostnað við farartæki nokkuð háan því þetta er bara einn skattur af mörgum sem lagður er á bifreiðar. Þá verður manni hugsað til þess áhuga sem sérstaklega utanbæjarþingmenn hafa sýnt fyrir því að lækka flutningskostnað, lækka vöruverð úti á landi. Ég hef verið sammála þeim. Svo koma ráðstafanir þar sem sakleysislega er lagt á eins og segir í 1. gr. c-lið, með leyfi forseta: „Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga eða til að draga annað ökutæki og er búið beltum og eftir atvikum stýrimeiðum, stýrihjólum og er 400 kg að eigin þyngd eða meira“, og áfram með leyfi forseta: 2. gr. liður a. Bifreiðagjald, skal vera sem hér segir: „Af bifreiðum sem eru að eigin þyngd allt að 2500 kg skal greiða 2,15 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar, þó aldrei lægra gjald en 1000 kr. vegna hverrar bifreiðar á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr." — Í b-lið segir: „Af bifreiðum sem eru að eigin þyngd 2500 kg eða þyngri skal greiða 5375 kr. á hverju gjaldtímabili vegna hverrar bifreiðar, sbr. 1. mgr. 3. gr."

Hér er lagt á grunngjald sem ber vísitölu. Það kemur fram hér seinna. Það er, með leyfi forseta, 5. gr. Þar segir: „Bifreiðagjald skv. 2. gr. og lágmarksgjald skv. 3. gr. eru grunngjöld. Fjmrh. er heimilt að hækka gjöld þessi í réttu hlutfalli við hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunngjöld bifreiðagjalds og lágmarksgjald eru miðuð við vísitölu 1. jan. 1988“, þ.e. 107,4 stig.

Þetta er keðjuverkandi. Þetta er ekki bara vísitölutryggt heldur fer þetta inn í verðútreikning á vöruna sem er flutt út á land og margfaldar sig með álagningu. Það er furðulegt að það er alveg sama hvað ég sem þingmaður Reykvíkinga bendi á þessi uppsöfnunaráhrif á svona ráðstöfunum. Það er eins og þegar kemur söluskattur á öll gjöld sem búið er að taka af vörunni við innflutning. Þá er söluskattur ekki lengur 25%. Hann er orðinn miklu hærri vegna þess að uppsöfnunaráhrifin eru eins og snjóbolti sem veltir utan á sig. Ég segi við utanbæjarþingmenn: Standið þið nú með okkur Reykvíkingum og komið í veg fyrir að þetta frv. verði samþykkt eins og það er. Ég hefði helst kosið að hæstv. fjmrh. drægi frv. til baka á þeim forsendum að innheimta ríkissjóðs á opinberum gjöldum og fleira gefur samkvæmt hans eigin mati miklu hærri upphæð en áætlað var í upphafi.

Það eru uppsöfnunaráhrif þessa skatts sem ég held að hafi farið fram hjá hæstv. ráðherra. Það væri gaman og ég óska eftir því, hæstv. forseti, að það verði reiknað út í nefnd hver hinn eiginlegi skattur er á fólks- og vöruflutningabifreiðar sérstaklega þeirra sem flytja fólk og vörur um landsbyggðina og hvaða áhrif það hefur þegar ofan á þann kostnað, sem færist náttúrlega inn í vöruverðið, kemur álagning, allur sá dreifikostnaður sem við erum alltaf að heyra að utanbæjarþingmenn réttilega mótmæla.

Síðan er 4. gr. sem er mér ekki að skapi. Það getur þó verið að það sé ekki hægt annað en hafa einhvers konar slíkar ráðstafanir sem eru hreinar lögregluaðgerðir af verstu tegund. Þó að bifreið sé í fullkomnu lagi, ekkert athugavert við hana og bifreiðarstjórinn hafi öll sín skírteini í lagi og hafi hreina samvisku og allt sem hann þarf að uppfylla til að vera handhafi ökuskírteinis, þá skal stöðva bifreiðina, taka af henni númerið og allt nema það að taka skírteinið af viðkomandi bifreiðarstjóra ef þetta aukagjald er ekki greitt. Þetta er svo mikil lögregluaðgerð að þó að þetta sé kannski örugg aðferð til að ná inn gjaldi er þetta aðgerð sem íslenskt fólk vill ekki viðhafa þó það verði að þola það vegna þess að íslenskt fólk er löghlýðið. Öðruvísi gætum við ekki lifað hér á landi vegna þess að við höfum enga lögreglu eða her til að fylgja eftir lögum. Þess vegna er það sem við megum fagna meðan fólk er eins löghlýðið og raun ber vitni. En ég ætla að lesa, með leyfi forseta, 4. gr.:

„Við árlega aðalskoðun bifreiðar, sem gjaldskyld er samkvæmt þessum kafla, skal eigandi hennar eða umráðamaður færa sönnur á að greitt hafi verið af henni gjaldfallið bifreiðagjald. Að öðrum kosti skal skoðunarmaður neita um skoðun á bifreiðinni, taka af henni skráningarmerki og afhenda þau lögreglustjóra. Lögreglustjóri skal ekki afhenda þau aftur fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu bifreiðagjaldsins.

Skráning eða umskráning bifreiðar skal ekki fara fram nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt af henni.

Ef bifreiðagjald er ekki greitt fyrir eindaga skal lögreglustjóri, eftir kröfu innheimtumanns, taka af bifreiðinni skráningarmerki til geymslu svo sem að framan segir.“

Ef þetta er ekki lögregluríkisaðgerð, hvað er það þá? Viljum við svona þjóðfélag? Meira að segja prívatfyrirtæki úti í bæ eru lögvernduð, eins og tryggingafélögin, ef þú ekki borgar gjaldið sem þeir telja sig þurfa að fá af bílnum, ekki vegna þess að maðurinn sem á bílinn sé að tryggja það verðmæti sem hann á í bílnum heldur vegna þess að hann er að tryggja gegn tjóni sem hann gæti valdið hjá öðrum. Ég kæri mig ekki um að tryggja annað en það sem ég er sjálfur með að verðmæti í höndunum. Ef allir gerðu það væri allt tryggt. En hver og einn verður að tryggja það tjón sem hann hugsanlega getur valdið. Þarna er alrangt staðið að.

Og ég get sagt ykkur eitt. Það eru fáir dagar síðan ég fór til að greiða tryggingar af mínum bíl og það kostaði mig þingfararkaupið að tryggja tvo gamla ameríska bíla og einn lítinn Lada-bíl. Hver trúir því að Lada-bíllinn var hér um bil í sama verðtryggingarskala og stóru amerísku bílarnir? (HG: Ekur þingmaðurinn á þremur bílum?) Það er ekki þar með sagt. Þetta er of heimskuleg spurning til að svara hv. 2. þm. Austurl. því að hann er miklu skynsamari maður. Hitt er svo annað mál að sami maðurinn getur ekki ekið þremur bílum í einu. En ég skal bara upplýsa hv. þm., af því að hann er ekki viss um hvort það sé mögulegt eða mögulegt ekki að aka þremur bílum í einu, að það er ekki öllum í einu sem ég ek. Það er til skiptis. En ég á nú alla þessa þrjá bíla og ég greiði af þeim tryggingar. Og frekar til upplýsinga, ef hv. þm. vill leita sér upplýsinga um sannleiksgildi orða minna, er þetta bíll sem kona mín ekur, bíll sem ég ek, þeir eru báðir um átta og níu ára gamlir, en Lada-bíllinn er nýr. En hann er miklu ódýrari. Amerísku bílarnir kosta kannski nýir núna hátt á aðra milljón kr. Lada-bíllinn kostaði 300 þús. Amerísku bílarnir eru hátt á annað tonn að þyngd, en ég giska á að Lada-bíllinn sé ca. 500 kg. Ætlið þið að segja mér að þar eigi ekki að vera þó nokkur munur á tryggingagreiðslum jafnvel þó metið væri tjón sem þeir geta valdið miðað við að þeir séu á sama hraða þegar þeir valda tjóni? Og þetta er lögverndað.

Þess vegna vil ég biðja hæstv. ráðherra um að kanna hvort það er ekki hægt að fara öðruvísi að en helst að hann leggi til, það er eina ráðið til að losna við þennan aukaskatt, því þetta er aukaskattur, viðbótarskattur við marga aðra þunga skatta, að þessi skattur verði afnuminn þegar í stað, sérstaklega þegar haft er í huga það sem hann sjálfur hefur upplýst um að tekjur ríkissjóðs eru mun meiri en áætlað var í upphafi sem kemur ekki á óvart því að margir nýir skattar hafa verið settir í umferð.

Ég hef ekki meira um þetta að segja, hæstv. forseti, en ítreka að svona aðfarir gagnvart fólki almennt, í þessu tilfelli í sambandi við þessa nýju aukaskatta á bifreiðar, eru ekki að mínu skapi. Farartækið, þótt ekkert sé að því og ekkert sé að þeim sem eiga að nota það, er ekki talið ökufært, fær ekki skoðun nema aukaskattar í ríkissjóð séu greiddir fyrir fram.