06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7670 í B-deild Alþingistíðinda. (5689)

436. mál, bifreiðagjald

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Örfáar athugasemdir að gefnu tilefni.

Fyrst þannig að það sé alveg skýrt: Undanþáguákvæðin skv. þessu frv. ná til öryrkja samkvæmt öryrkjaskrá, þeir eru að 67 ára aldri, og því næst til öryrkja samkvæmt skrá yfir þá sem njóta svokallaðra bensínstyrkja eins og fram kom í máli mínu áðan. Í öðru lagi: Björgunarsveitir. Og í þriðja lagi: Eigendur fornbíla, bíla sem eru skilgreindir sem 25 ára og eldri.

Annað: Eru aðstæður nú til þess að fella niður þennan skatt? Ég vek athygli á því að um mitt ár verður felldur niður skv. lögum frá 29. febrúar um efnahagsráðstafanir launaskattur á sjávarútveg og um næstu áramót fellur úr gildi skattur á erlendar lántökur, en við niðurfellingu þessara tekjustofna missir ríkissjóður tekjur sem eru umtalsvert hærri en nemur þessu bifreiðagjaldi.

Þriðja athugasemd mín varðar framkvæmdaatriði. Í fyrsta lagi er þess að geta að gjaldið er mismunandi eftir þyngd bifreiða. Þeim mun þyngri sem bifreið er, þeim mun hærra gjald. Það þýðir að öðru jöfnu: Þeim mun ódýrari sem bifreið er, þeim mun lægra gjald, þeim mun dýrari sem hún er, því hærra. Gjaldtakan getur hins vegar ekki talist há. Og að því er varðar innheimtu get ég ekki fallist á þær röksemdir að það breyti Íslandi í lögregluríki þótt til þess sé ætlast skv. 4. gr. að eigendur eða umráðamenn bifreiða færi sönnur á að gjald hafi verið greitt við skoðun.

Þá er spurningin um uppsöfnunaráhrif hvort heldur er í söluskatti eða við aðra gjaldtöku og áhrif á vöruverð. Þar vek ég athygli á því með vísan til umræðna sem við áttum hér í gær um samanburð á söluskatti og virðisaukaskatti að á því verður breyting til bóta við gildistöku virðisaukaskatts af mjög einfaldri ástæðu. Virðisaukaskattur er tvíþættur, innskattur og útskattur. Það þýðir að þeir sem annast vöruflutninga fá endurgreiðslu á aðföngum sínum, þar á meðal á kostnaði við bifreiðakaup, hjólbarða, eldsneyti og önnur rekstrargjöld þannig að uppsöfnunaráhrifin, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vék að, í söluskattinum hverfa í virðisaukaskatti, uppsöfnunaráhrifin sjálf.

Loks er spurningin um hvernig menn meta skattbyrði. Þar hafa menn ýmsan hátt á, meta kaupmátt kauptaxta, meta kaupmátt atvinnutekna, en sá mælikvarði sem hreinast metur kaupmátt launa er að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimila eftir skatta. Á hvern mælikvarða sem vegið er er ljóst að á undanförnum árum hefur kaupmáttur á hvern mælikvarðann sem vegið er batnað sem betur fer mjög verulega.