06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7671 í B-deild Alþingistíðinda. (5690)

436. mál, bifreiðagjald

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég harma að ég skyldi fá tilefni til að koma hér upp aftur, en ráðherra gaf tilefni til að halda langa ræðu. Ég ætla ekki að gera það núna. Ég ætla að geyma mér það. En þetta er ekkert smámál. Hæstv. ráðherra ýtir því til hliðar sem ómerkilegu kvabbi sem á sér stað frá minni hálfu og hv. 6. þm. Norðurl. e. í þessu tilfelli.

Undanþáguákvæðin. Ég fagna því. Það er kannski ekki mitt að þakka eitt eða annað í þessu efni. Ég tek þannig til orða. Ég tel að ráðherra hafi unnið þarft og gott verk að fella niður innheimtu af öryrkjum, öldruðum og björgunarsveitum. Mér finnst það vera góð ráðstöfun og ég er honum sammála um það.

En hann segir þar á eftir að ríkissjóður muni verða af launaskatti, hann verði felldur niður um mitt ár. Er það ekki? (Fjmrh.: Seinni áfanginn.) Já, seinni áfanginn. Hann talar eins og ríkissjóður sé að tapa þar tekjum. Launaskatturinn er nýjar tekjur fyrir ríkissjóð. Þær voru ekki innheimtar. Launaskatturinn sem hæstv. ráðherra er að tala um var ekki innheimtur. Þetta eru alveg nýjar tekjur. Þó að hann verði felldur niður um mitt ár eða seinni hlutinn er innheimtan á fyrri hluta ársins viðbótartekjur við ríkissjóðstekjurnar á síðasta ári þannig að hér er ekki verið að fella neitt niður frá því sem áður var. Hér er bara verið að taka helmingi minna af nýjum skatti en upphaflega var reiknað með. Hefði hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll hlustað betur á góð ráð, heil ráð stjórnarandstöðunnar við gerð fjárlaga hefði þessi skattur aldrei komið á vegna þess að jólafríið var rétt liðið þegar þessi skattur var dreginn til baka. Þá var ríkisstjórnin sem sagt í jólafríinu búin að átta sig á góðum ráðum stjórnarandstöðunnar.

Í þriðja lagi segir hæstv. ráðherra að gjaldið sem um er rætt sé mismunandi eftir þyngd bifreiða. Þetta er alveg rétt. En ég vil lesa aftur og vitna þá í 2. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Bifreiðagjald skal vera sem hér segir:

a. Af bifreiðum sem eru að eigin þyngd allt að 2500 kg skal greiða 2,15 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar, þó aldrei lægra gjald en 1000 kr. vegna hverrar bifreiðar á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr." Ég lít svo á að þetta séu fólksbílar eða einkabifreiðar frekar en annað, gætu þó verið sendiferðabílar. Og b-liður 2. gr. segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Af bifreiðum sem eru að eigin þyngd 2500 kg eða þyngri skal greiða 5375 kr. á hverju gjaldtímabili vegna hverrar bifreiðar, sbr. 1. mgr. 3. gr." Þetta eru þyngri fólksflutningsbílarnir og eins og segir í 1. gr. er tekið fram að aftanívagnar, sem við köllum, skuli líka bera gjöld eins og þar segir.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að hann fór að rugla fyrir þm.: Telur hann virkilega að það sé einhver lítil upphæð sem fer út úr Reykjavík í vörum og fólki í bílum? Hve margir bílar, sem eru af þessari þyngdargráðu og yfir, fara árlega út á land? Þá má margfalda það með þeirri upphæð sem á að taka í skatta plús vísitalan, miðað við þá vísitölu sem er getið um sem grunnvísitölu hér, hver sem hún nú er í dag. Hvað er þetta þá stór upphæð í heild sinni sem leggst á vörur sem fara út á land til viðbótar við það sem er fyrir? Og ekki bara það heldur segir hæstv. ráðherra, og það var nú eiginlega tilefni til þess að ég kom upp aftur, að virðisaukaskatturinn verði endurgreiddur og hafi ekki uppsöfnunaráhrif í þessu tilfelli eins og gat um í minni fyrri ræðu. Svo við erum hér að tala um allt annan hlut. Við erum að tala um bifreiðagjald sem hefur ekkert að gera með virðisaukaskattinn og verður ekki endurgreitt þó virðisaukaskatturinn komi til framkvæmda. Þetta heitir allt annað. Þetta er allt annað. Tilgangurinn með þessu er að vísu hliðstæður hvaða skatti sem er, að auka tekjur ríkissjóðs. En ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að rugla ekki saman endurgreiðslu á virðisaukaskatti og bifreiðagjaldinu. Eða vill hæstv. ráðherra staðfesta hér og nú að bifreiðagjaldið, sem við erum að tala um samkvæmt frv. til laga um bifreiðagjald sem er hér til staðfestingar á þskj. 786, skuli endurgreiðast á sama hátt og virðisaukaskatturinn þegar hann kemur til framkvæmda, ef hann þá kemur? Ég held að hæstv. ráðherra sé tæplega tilbúinn til að staðfesta það og þess vegna harma ég að hann skuli reyna að slá ryki í augu þm. með því að blanda saman bifreiðagjaldinu annars vegar og væntanlegum virðisaukaskatti hins vegar, máli sem er alls ekki á dagskrá undir þessum dagskrárlið.

Ég vil líka segja að ég, í mínum huga, geri mun á því hvort skoðunargjald er innheimt við skoðun bifreiðar eða hvort lögregla er send á menn sem ekki standa skil á þessu aukagjaldi á bifreiðum. Því þá ekki að senda lögregluna til að taka númerið af bílum ef menn ekki borga yfirleitt sín opinberu gjöld, alveg sama hvaða nafni þau nefnast? Það fer því ekkert á milli mála að þar sent ríkið notar lögregluna á þennan hátt er það hluti af lögregluríki eins og hugtakið leyfir manni að nota það. Það er ríkið sem er að nota lögregluna til að stöðva einstaklinga sem eru á sínum eigin farartækjum eða eignum í umferðinni hér á landi.