06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7675 í B-deild Alþingistíðinda. (5699)

403. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá félmn. um frv. til laga um breyt. á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Hér er um að ræða breytingu á lögum varðandi innheimtuhlutfall og meðferð staðgreiðslunnar og með þessum breytingum er verið að samræma þau sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins og kom fram í grg. frv., þ.e. að hafa eitt innheimtuhlutfall fyrir staðgreiðslu fyrir allt landið og enn fremur það að sveitarfélögin fái það í sinn hlut sem sveitarstjórnin sjálf ákveður. Út á þetta sjónarmið gengur frv. og þess vegna er um það að ræða að sveitarfélögin ákveða fyrir fram hvaða innheimtuprósentu þau ætla að leggja til. Viðkomandi sveitarstjórn verður að gera það fyrir 1. des. og tilkynna það fjmrh. eða fjmrn. eigi síðar en 15. des. sama ár. Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu verði síðan ákveðið sem vegið meðaltal af ákvörðunum allra sveitarstjórna og þá miðað við útsvarsálagningu fyrra árs. Skv. 1. gr. frv. er innheimtuhlutfall útsvars í staðgreiðslu hið sama á öllu landinu.

Í 2. gr. er lagt til að sú breyting verði gerð að við skiptingu og skil bráðabirgðagreiðslu útsvars til sveitarfélaga verði miðað við þann hundraðshluta sem sveitarstjórn hefur ákveðið að sé álagningarhlutfall útsvars í viðkomandi sveitarfélagi. Skv. 32. gr. laga nr. 45/1987 setur fjmrh. síðan reglur um uppgjör, skil og skiptingu bráðabirgðagreiðslna opinberra gjalda og getur því ákveðið við hvaða hundraðshlutaskil og bráðabirgðagreiðslu útsvars verði miðað hjá viðkomandi sveitarfélagi ef það sinnir ekki tilkynningarskyldu sinni skv. greininni um 1. des. og 15. des. eins og áður hefur komið fram.

Nefndin fjallaði um frv. og mælir með því að það verði samþykkt. Ingi Björn Albertsson sat fundi í stað Óla Þ. Guðbjartssonar og er samþykkur álitinu. Undir þetta rita allir nefndarmenn í félmn.