06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7676 í B-deild Alþingistíðinda. (5702)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá félmn. um frv. til laga um breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, með síðari breytingum.

Frv. hefur fyrst og fremst að geyma ákvörðun um vexti á skyldusparnaðarreikningum hjá Byggingarsjóði ríkisins. Aðaltilgangurinn með frv. er í fyrsta lagi að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta ávöxtun á skyldusparnaði og enn fremur er nýmæli í frv. að sama ávöxtun verði viðhöfð á skyldusparnaði eftir að náð er 26 ára aldri fyrir þá sem kjósa að eiga slíkan skyldusparnað áfram á vöxtum. Ég held að það þurfi ekki að skýra þetta nánar. Það er gert ráð fyrir því í 1. gr. að ríkisstjórnin taki ákvörðun um vexti af innlánum og af skyldusparnaðarreikningum hjá Byggingarsjóði að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabanka Íslands. Það er sama aðferðin og notuð er við vaxtaákvörðun á lánum Byggingarsjóðs skv. lögum um Húsnæðisstofnun og einnig gert ráð fyrir því, sem er nýmæli, að vaxtaákvörðun sé tekin til eins árs í senn frá áramótum að telja. Það er einnig neglt niður hér að árlegri endurskoðun vaxta sé ætlað að tryggja að vextir af skyldusparnaðarreikningum séu sambærilegir þeim vöxtum sem annars staðar bjóðast. Þetta er mikilvægt atriði og hvað sem líður síðari ákvörðun um skyldusparnað þá er náttúrlega augljóst að tryggja þarf að þetta fái þessa meðferð.

Nefndin fjallaði um frv. og mælir með samþykkt þess eins og það kom frá Ed. Ingi Björn Albertsson sat fund nefndarinnar í stað Óla Þ. Guðbjartssonar og er samþykkur þessu áliti. Undir nál. skrifa auk formanns Birgir Dýrfjörð, Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Eggert Haukdal og Kristín Einarsdóttir.