06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7677 í B-deild Alþingistíðinda. (5706)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. ræddi þetta mál eins og frsm. gerði grein fyrir í framsögu sinni og fór yfir það allítarlega. Ég tel að nefndinni hafi verið nokkur vandi á höndum þar sem tvö ólík sjónarmið vegast með vissum hætti á í þessu máli, annars vegar sú nauðsyn að Ríkisendurskoðun geti gegnt sínum skyldum og hafi ótvíræða lagastöðu til að gera svo og hins vegar meðferð viðkvæmra upplýsinga sem óhjákvæmilegt getur verið að kanna þegar bera þarf saman grunngögn og reikninga sem á þeim byggja.

Það svið sem nefndin staldraði sérstaklega við í þessum efnum voru reikningsskil lækna og hvaða aðferðum skyldi beita þegar Ríkisendurskoðun þyrfti að skoða grunngögn í því sambandi til að sannprófa reikningsfærslur og greiðslur til lækna fyrir unnin læknisverk. Vissulega má segja að hliðstæð tilvik geti komið upp í tengslum við trúnað starfsstétta á fleiri sviðum en þetta sérstaka efni varð nú aðallega að umtalsefni og athugunarefni í hv. þingnefnd.

Ég stend að nál. fjh.- og viðskn. og geri það í trausti þess að þær verklagsreglur sem fjallað er um í nál. verði settar og eftir þeim farið. Ég held að Alþingi hljóti að leggja þann skilning í nál. af þessu tagi, ekki síst þegar í hlut á stofnun sem heyrir undir Alþingi, þ.e. í þessu tilviki Ríkisendurskoðun, að í raun sé verið að setja niður ákveðnar leiðbeiningar sem stofnuninni ber að taka tillit til. Það er því vissa mín að Ríkisendurskoðun sjálf muni í framhaldi af þessu ganga eftir því að útbúnar verði verklagsreglur sem styðjast megi við í þessu efni og í öðru lagi er að sjálfsögðu einnig lagt til að heilbrrn., fyrir sitt leyti, sjái til þess að þær verði mótaðar. Á þeim grundvelli, herra forseti, með hliðsjón af því að ég tel, eins og ég sagði í upphafi, óhjákvæmilegt að Ríkisendurskoðun hafi lagalega stöðu til þess að sinna skyldum sínum, stend ég að áliti nefndarinnar.