06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7678 í B-deild Alþingistíðinda. (5707)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil taka undir þann skilning sem kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. e., og jafnframt leggja á það áherslu að með þessari lagabreytingu er verið að gefa Ríkisendurskoðun auknar heimildir til þess að sannreyna reikninga sem ríkinu er gert að greiða en ekki heimildir til þess að rjúfa það trúnaðarsamband sem óhjákvæmilegt er milli sjúklings og læknis eða þá þagmælsku og trúnaðarheit sem læknalög kveða á um. Á þessum grundvelli sameinaðist nefndin um að leggja til að frv. yrði samþykkt.