06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7684 í B-deild Alþingistíðinda. (5716)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim sem voru á móti þeirri breytingu sem var gerð þegar Ríkisendurskoðun var sett undir Alþingi. Mér finnst, þótt báðar stofnanirnar séu hreinar og fallegar í mínum huga og ég viti ekki til þess að blettur hafi fallið á þær, það vera að óhreinka Alþingi að vera að hengja einhvers konar framkvæmdarvald á löggjafarvaldið, hvað svo sem ríkisstofnunin heitir sem hengd er á Alþingi.

Hér erum við að gera Ríkisendurskoðun að framkvæmdarvaldi Alþingis. Alþingi er sem sagt ekki lengur bara löggjafarvald, heldur á þessum sviðum framkvæmdarvald og það líst mér illa á. Ef við viljum sækja dæmið langt segi ég: Hver á að endurskoða þá sem eru yfir Ríkisendurskoðun? Alþingi eyðir stórfé í sinn rekstur. Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi. Ríkisendurskoðun heyrir undir forseta Alþingis. Þarf þá að setja einhverja nýja yfirskoðun á Alþingi sem er utan við Ríkisendurskoðun til þess að allir séu jafnir fyrir lögunum?

Ég er á móti því að Alþingi taki að sér nokkurt annað hlutverk en að vera löggjafarvald og tel allt annað rangt. Frv. sem hér liggur fyrir er að því leytinu gallað að það fer langt út fyrir þann ramma sem gaf tilefni til þess að breyta lögum um Ríkisendurskoðun. Það fer langt út fyrir þann ramma og það þýðir ekkert annað en það að úr því að Ríkisendurskoðun hafði ekki vald til þess að gera það sem hún vildi og skoða það sem hún vildi í þeirri læknadeilu sem hér hefur verið minnst á í umræðunum notaði hún tækifærið til þess að sækja vald langt út fyrir það sem hana skorti í þeirri dellu. Og það er að mínu mati ekki rétt. Það er rangt að farið.

Ég vil spyrja vegna þess að ég held að ég skilji það rétt: Það er ekkert óhult fyrir Ríkisendurskoðuninni. Með frv. samþykktu eru hvorki einstaklingar né aðrir sem samskipti hafa við ríkissjóð, ríkisstofnanir, í hverju sem er, undanskildir Ríkisendurskoðun. Og þá segi ég: Hvað með bankaleyndina? Þetta eru ríkisbankar. Þeir taka erlend lán. Þeir hafa ríkisábyrgð. Þeir fullnægja öllu því sem frv. segir um að Ríkisendurskoðun hafi heimild til þess að skoða. Trúnaður milli einstaklinga og banka, milli einstaklinga og verktaka og fyrirtækja og ríkisins er rofinn. Það er ekki eins og það vanti ríkisstofnanir sem hafa aðgang að einkafyrirtækjum. Það er alveg sama hvort þú tekur skref í rekstri til hægri eða vinstri, aftur á bak eða áfram. Einstaklingurinn rekst alltaf á einhverja ríkisstofnun sem skoðar hann. Og nú er Ríkisendurskoðunin sjálf komin inn í þessa hringiðu.

Mér finnst að Alþingi sé sett niður við það að verða gert að framkvæmdarvaldi á þennan hátt eða einhvern annan hátt. Það á að vera algjörlega laust við allan rekstur, hverju nafni sem hann nefnist, hvort sem það heitir Ríkisendurskoðun eða eitthvað annað. Ef ekki er hægt að treysta fjmrn. til þess að vera einhvers konar yfiraðili, yfirvald, yfir Ríkisendurskoðuninni eins og það var, þó svo að fjmrn. skipti sér afskaplega lítið af beinum rekstri eða vinnu Ríkisendurskoðunar, skulum við heldur finna eitthvað annað sem gerir Ríkisendurskoðun sjálfstæða, bæði af framkvæmdarvaldinu og af löggjafarvaldinu þannig að þeir geti starfað á þann hátt sem nauðsynlegt er, en að þeir fái ekki vald til þess að fara út fyrir það sem er nauðsynlegt og heiðarlegt gagnvart öðrum aðilum eins og t.d. einkaaðilum.