12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

73. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Fyrsta fsp. hv. fyrirspyrjanda hljóðar þannig: „Hvenær má vænta frv. um breytingar á lögum um Iðnlánasjóð sem um getur í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1988?"

Í fjárlagafrv. er lögbundið framlag ríkissjóðs til þróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs alveg fellt niður, eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda, en framlag þetta var að upphæð 25 millj. kr. í ár, en hefði átt að vera 48 millj. kr. ef gildandi lagaákvæðum væri fylgt.

Í lögum um Iðnlánasjóð er kveðið á um að framlag ríkissjóðs skuli að lágmarki vera jafnhátt 4/7 af iðnlánasjóðsgjaldi sem innheimt er af iðnaðinum til sjóðsins. Í athugasemdum með fjárlagafrv. segir, með leyfi forseta, að leita verði „heimildar í lánsfjárlögum til að fella framlagið niður á árinu 1988“. Slík tímabundin skerðingarákvæði hafa að undanförnu verið sett inn í lánsfjárlög. Hefur ákvæði um það verið tekið upp í frv. til lánsfjárlaga sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi.

Í athugasemdunum með fjárlagafrv. segir enn fremur, með leyfi forseta: „Ætlan stjórnvalda er að fella niður sem mest af lögbundnum framlögum og tekjustofnum og í samræmi við það verður stefnt að breytingum á lögum um Iðnlánasjóð.“ Orðalag þetta er frá fjmrh. sem leggur fjárlagafrv. og lánsfjárlög fram og var ekki borið sérstaklega undir iðnrh. fremur en önnur atriði í athugasemdum með fjárlagafrv.

Hér er, eins og fram kemur í textanum, rætt um að fella niður sem mest af lögbundnum framlögum og draga þannig úr sjálfvirkni í útgjöldum ríkisins eins og lögð er áhersla á í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Framlag það sem lagt er til að fellt verði niður að fullu rennur, eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns, til vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs en ekki til fjárfestinga eins og margir virðast telja. Tilgangur vöruþróunar- og markaðsdeildar er að stuðla að vöruþróun og aukinni samkeppnishæfni iðnaðarins, örva nýsköpun og auka útflutning. Hlutverk sitt rækir sjóðurinn m.a. með lánveitingum til vöruþróunar, hönnunar og útflutningsstarfsemi og enn fremur með framlögum og styrkjum til nýrrar útflutningsstarfsemi og þróunar og rannsókna í iðnaði. Þá hefur sjóðurinn heimild til að kaupa og selja hlutabréf í starfandi fyrirtækjum og taka þátt í stofnun nýrra fyrirtækja.

Framlag til vöruþróunar- og markaðsdeildar sjóðsins er nánast eina opinbera framlagið til nýsköpunar og þróunar í iðnaði. Niðurfelling þess í einu lagi er mjög tilfinnanleg fyrir fjárhag sjóðsins og tiltölulega mun meiri skerðing en tíðkast á framlögum til annarra atvinnugreina, svo sem eins og sjávarútvegs og landbúnaðar.

Í lögum um Iðnlánasjóð, er sett voru árið 1984, eru ákvæði þess efnis að endurskoða skuli ýmis ákvæði laganna, þar á meðal ákvæði um framlag ríkissjóðs fyrir árslok 1988. Af því tilefni hef ég beint því til stjórnar Iðnlánasjóðs að hefja endurskoðun laganna í ljósi fenginnar reynslu. Munu tillögur um breytingar væntanlega verða lagðar fyrir Alþingi eftir áramót.

Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta. Starfsháttum og stjórn fjárfestingalánasjóða verður breytt, einkum með því að hverfa frá skiptingu þeirra sem miðuð er við hefðbundnar atvinnugreinar, þannig að nýjar greinar standi jafnar að vígi og gamlar hvað varðar aðgang að lánsfé.“

Sérstök nefnd er starfandi á vegum ríkisstjórnarinnar til að undirbúa þetta mál og munu tillögur hennar væntanlega liggja fyrir snemma á næsta ári.

Þá vík ég að síðari fsp. hv. fyrirspyrjanda: „Hvernig er fyrirhugað að bregðast við tekjumissi Iðnlánasjóðs frá næstu áramótum og þar til lögin hafa verið endurskoðuð?"

Samkvæmt áætlun stjórnar sjóðsins var gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs yrði 1988 alls um 150 millj. kr. Skiptist það þannig að um 26 millj. kr. eru innheimtir vextir og afborganir af eldri lánum, 62 millj. kr. eru % iðnlánasjóðsgjalds sem rennur til vöruþróunar- og markaðsdeildar skv. lögum um Iðnlánasjóð og á framlag ríkissjóðs að nema að minnsta kosti jafnhárri upphæð eins og áður sagði. Ráðstöfunarfé deildarinnar í ár er um 110 millj. kr. Verði framlag ríkissjóðs alveg skorið niður á næsta ári mun ráðstöfunarfé sjóðsins á næsta ári verða 88 millj. kr. Sé tekið tillit til verðbreytinga á milli ára samkvæmt forsendum fjárlagafrv. þýðir þetta samdrátt um rúm 30% frá því sem er á þessu ári. Mun það leiða til þess að draga verður úr stuðningi við ýmis aðkallandi verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt.

Ég vil láta það koma fram að ég hef tekið þetta mál upp við fulltrúa í fjvn. og lagt til að framlag ríkisins á næsta ári verði a.m.k. hliðstæð upphæð og var á þessu ári. Mál þessi verði síðan endurmetin fyrir árslok 1988 eins og lögin um Iðnlánasjóð gera ráð fyrir. Það er von mín að samkomulag náist við endanlega afgreiðslu fjárlaga um það að sjóðurinn fái fjárveitingu á árinu 1988.