06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7692 í B-deild Alþingistíðinda. (5722)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegur forseti. Ég ætlaðist ekki til að þessi umræða færi svo út um víðan völl sem hún hefur gert. Ég gerði athugasemd við einfaldlega það að mér finnst óljóst hver á að gera hvað þegar um er að ræða að rannsaka gögn eins og sjúkragögn. En auðvitað gæti maður spurt fleiri spurninga. Ég hefði t.d. gaman af að heyra álit hv. 1. þm. Vestf. á því: Ef Einar Guðfinnsson og co. fær styrk úr Byggðasjóði til einhverra nýbygginga, vill stækka við sig og byggja fallegt hvítt hús með bláu þaki, þýðir það að þá geti Ríkisendurskoðun hvenær sem er komið og krafist þess að fá að fara ofan í allar fjárreiður fyrirtækisins? Ég sé ekki betur en þetta sé svona.

Stjórnmálaflokkarnir fá ríkisstyrk. Getur Ríkisendurskoðun hvenær sem er krafist þess að fá að skoða fjárreiður viðkomandi stjórnmálaflokka til botns? Kirkjukórinn á Blönduósi fær styrk til utanfarar. Getur Ríkisendurskoðun komið og farið ofan í fjárreiður allra kórfélaga eða ef einhver sjóður er til á vegum kórsins? Hvað í raun og veru þýða þessi lög? Getur Ríkisendurskoðun komið og sagt: Ég vil fá að sjá bankainnistæður félaganna í kirkjukórnum á Blönduósi. Hvert erum við að fara með þessu? Það eru þessar spurningar sem mér finnst svo áleitnar að ég get ekki staðið að því að samþykkja þetta fyrr en ég er búin að fá álit og það er það sem ég vil biðja um, virðulegur forseti, hið háa Alþingi hlýtur að njóta þess trausts í þjóðfélaginu að það geti fyrir mánudag fengið álit virts lögmanns, helst hæstaréttarlögmanns og jafnvel hæstaréttardómara, á því í fyrsta lagi hvort læknalög og þessi lög stangast ekki á, í öðru lagi hvort ákvæði í þessu frv. stangast ekki beinlínis á við stjórnarskrána. Ég er jafnvel líka hrædd um það. Má nú ekki höggva á þennan hnút með því að leita álits virts lögspekings nú um helgina? Það er fljótlegt að afgreiða málið þegar það liggur fyrir. Hafi þessar áhyggjur okkar reynst ástæðulausar er ekkert að gera annað en viðurkenna það. Mér nægir ekki að ráðuneytisstjórinn í heilbr.- og trmrn. og starfsmenn hans, annars ágætir embættismenn, — ég bendi á að ráðuneytisstjórinn er ekki einu sinni lögfræðingur — séu mínir lögspekingar í þessu máli. Ég held að hver þingmaður eigi rétt á því að biðja virðulegan forseta að fara fram á að þessa álits verði leitað. Við höfum setið hér samviskusamlega og reynt að greiða fyrir málum ríkisstjórnarinnar, en það er ekki hægt að gera þá kröfu til okkar að við sitjum bara hér og samþykkjum hvað sem er gegn okkar bestu vitund. Ég vil því setja fram þessa beiðni.