06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7694 í B-deild Alþingistíðinda. (5725)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Finnst hv. 13. þm. Reykv. eðlilegt að ef fyrirtækið Einar Guðfinnsson hf. fengi styrk úr Byggðasjóði til að reisa hvítt hús með grænu þaki væri óheimilt að ganga úr skugga um hvort húsið hefði verið reist, það væri óheimil afskiptasemi og ríkisforsjá? Finnst hv. 13. þm. Reykv. óeðlilegt að ef hún, hv. þm., semdi við Ríkisútgáfu námsbóka um að skrifa bók til útgáfu hjá Ríkisútgáfunni og Ríkisútgáfan greiddi henni fyrir væri Ríkisendurskoðun heimilt að grennslast fyrir um hvort handriti hafi einhvern tíma verið skilað vegna þess að það væri óheimil afskiptasemi af einkalífi? Mér finnast þessi dæmi hjá hv. þm. algerlega fráleit. Hér er aðeins um það eitt að ræða að veita þeim aðila, sem Alþingi sjálft hefur lagt þær skyldur á herðar að fylgjast með framkvæmd fjárlaga, heimild til þess að ganga úr skugga um hvort sú þjónusta sem verið er að greiða fyrir hafi nokkurn tíma verið innt af hendi. Mér kemur það jafnmikið á óvart og hv. þm. Albert Guðmundssyni að alþýðubandalagsþingmaður skuli telja það vera fráleitt að ríkisvaldið hafi heimild til að grennslast fyrir um hvort vara sem það hefur keypt og borgað fyrir eða þjónusta sem það hafi greitt hafi nokkurn tíma verið innt af hendi.