06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7697 í B-deild Alþingistíðinda. (5745)

404. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. á þskj. 750 um breytingu á lögum nr. 63 frá 31. maí 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, með síðari breytingum. Flm. auk mín er hv. þm. Ingi Björn Albertsson. Frv. hljóðar svo:

„1. og 2. mgr. 12. gr. laganna orðist svo:

Ekki mega opinberir aðilar né einkaaðilar semja um að taka lán erlendis nema með samþykki ríkisstjórnar. Til lána telst í þessu sambandi einnig hvers konar greiðslufrestur á þjónustu, svo og leigusamningar. Greiðslufrestur á vörum fellur ekki undir þetta ákvæði.

Viðskrn. setur, að höfðu samráði við Seðlabankann, reglur um erlendar lántökur.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Í grg. með þessu frv. segir:

„Með lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, ásamt með tilheyrandi reglugerðum er kveðið á um að vörur megi ekki flytja til landsins nema greiðsla hafi verið innt af hendi eða tryggð með öðrum hætti, svo sem með lántöku eða greiðslufresti. Í frv. þessu er með vörum einnig átt við vélar og tæki.

Talsverð umræða hefur á undanförnum missirum orðið um að breyta þessu fyrirkomulagi, enda hefur það í för með sér bæði aukinn kostnað og óhagræði borið saman við það sem tíðkast í öðrum löndum. Flm. þekkja ekki dæmi um sambærilegt fyrirkomulag á innflutningi,meðal annarra þjóða sem bornar verða saman við Íslendinga að lífskjörum og menningu.

Í þessu sambandi ber sérstaklega að benda á eftirfarandi:

1. Óeðlilegt er að íslensk stjórnvöld taki að sér að sjá um viðskipti íslenskra manna við erlenda á þennan hátt. Íslenskir útflytjendur geta hvergi í heiminum fengið stjórnvöld til að tryggja sér greiðslu á þennan hátt. Svona viðskipti þekkjast einfaldlega ekki.

2. Lög þau og reglur, sem hér um ræðir, tryggja á engan hátt, svo sem þeim virðist ætlað, aðhald að innflutningi og þenslu. Á síðasta ári jókst innflutningur um 28% og viðskiptahalli við útlönd er mjög mikill. Landið er yfirfullt af hvers konar varningi og ræður kaupmátturinn í landinu mestu um í hve miklum mæli hann selst.

3. Hins vegar eykur þetta fyrirkomulag kostnað og hækkar vöruverð. Svo sem alkunna er eru vörur fluttar til landsins og „liggja á hafnarbakka“ þar til innflytjandi getur innt greiðslur af hendi í samræmi við lög og reglur. Þetta þýðir í reynd:

a. Að greiðslufrestur erlendra framleiðenda og seljenda er nýttur í raun en kemur ekki að notum við lækkun vöruverðs.

b. Skipafélög og aðrir flutningsaðilar þurfa að koma sér upp viðamiklum vörugeymslum. Geymslukostnaður er mikill. Fjárfesting og vinnuafl við geymslurnar, umsjón, eftirlit og jafnvel tjón hækka vöruverð.

4. Svo sem kunnugt er greiða smásölukaupmenn innflytjendum með svokölluðum vöruvíxlum. Heildsalar og innflytjendur selja þessa víxla í banka í því skyni að afla fjár til þess að leysa út nýjar sendingar. Bankar kaupa vöruvíxla á gengi sem þeir ákveða og kostnaður við þessi „lánsviðskipti“ nemur um 50% á ársgrundvelli. Eðlilega leggst þessi kostnaður ofan á vöruverð. Lán hins erlenda framleiðanda eða seljanda nýtast hins vegar ekki, en í mörgum tilvikum er hægt að fá greiðslufrest nokkra mánuði án kostnaðar.

5. Vörukaupavíxlar eru umfangsmikill þáttur í starfsemi íslenskra banka og ein skýringin á útþenslu kerfisins. Samdráttur í vöruvíxlakaupakerfi bankanna mundi draga úr umsvifum þeirra og valda umtalsverðum sparnaði.

6. Talið er að um 70% af heildarinnflutningi falli undir heimiluð vörukaupalán. Í aðeins um helmingi tilvika er þó lánsheimildin nýtt. Árið 1986 var heildarinnflutningur um 46 milljarðar kr. þannig að 30% innflutningsins, þ.e. sá hluti sem ekki nýtur heimildar til vörukaupalána, nemur 13,8 milljörðum kr. Miðað við fyrri reynslu gæti það þýtt um 7 milljarða kr. vöruinnflutning á greiðslufresti á einu ári ef um helmingur tilvika nýtti heimildina. Ef miðað er við þriggja mánaða greiðslufrest mundi heildarupphæðin, sem um er að ræða og nýttist sem lán frá erlendum framleiðendum og seljendum, vera um 1,7–1,8 milljarðar kr. Líklegt er að það tæki um 1–2 ár að ná þessari upphæð í greiðslufresti.

7. Þensluáhrif er erfitt að meta en þau koma aðeins fram fyrst er breyting á sér stað. Í þessu sambandi má benda á áhrif innflutts fjármagns hjá kaupleigum sem ekki hefur verið talin ástæða til að amast við og eru líklega talsvert meiri og yfirdráttarheimildir sem heimilaðar hafa verið á ávísanareikningum og nema líklega hærri upphæð en hér um ræðir. Í þessu samhengi má einnig nefna greiðslukortin.

8. Ef að líkum lætur mundu vöruvíxlaviðskipti stórlega dragast saman ef frv. þetta verður að lögum. Það þýðir að þrýstingur minnkar á lánsfjármarkaði og vextir gætu lækkað.

9. Erlend lántaka er dýr. Líklegt er að bankakerfið gæti sparað erlend lán um sem svarar lánum erlendra framleiðenda og seljenda sem kæmu að notum ef frv. þetta verður að lögum. Lán þessara erlendu aðila eru ódýrari en önnur fáanleg lán, þau eru með lágum eða engum vöxtum.

10. Hið úrelta kerfi, sem við lýði er á Íslandi og varðar afskipti ríkisvalds af viðskiptum íslenskra og erlendra aðila við vöruinnflutning til landsins, er leifar af gömlu hafta- og stýrikerfi. Kerfi þetta leiðir af sér ýmiss konar óarðbæra starfsemi í þjóðfélaginu, svo sem vörugeymslukerfi flutningsaðila og vöruvíxlakaupakerfi bankanna. Bæði þessi kostnaðarsömu og óarðbæru kerfi væru óþörf í slíkum mæli sem þau eru ef skipan gjaldeyris- og viðskiptamála væri færð í nútímahorf svo sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Rétt er að benda á að nú er Seðlabankinn að koma upp umfangsmiklu eftirlitskerfi eftir að bankastimplun var afnumin. Hætt er við að þetta kerfi leiði til margra óarðbærra vinnustunda bæði í fyrirtækjum og stofnunum. Kerfi þetta yrði óþarft ef þetta frv. verður að lögum.

11. Þegar Alþingi breytti á síðasta þingi ákvæði í lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, á þann veg að ekki þyrfti staðfestingu gjaldeyrisbanka svo að tollafgreiða mætti vöru voru flestir þeirrar skoðunar að verið væri að færa mál á þann veg sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Svo var þó ekki og mun hafa komið mörgum á óvart. Til þess að svo megi verða þarf að gera þá breytingu sem hér um ræðir.

12. Frv. þetta er skref í átt að meiri fríverslun og aðlögun að viðskiptaháttum helstu viðskiptaþjóða okkar.“

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að að loknum umræðum verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn.