12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

80. mál, snjóflóðahætta

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sú fsp. sem hér er til umræðu, um mat á snjóflóðahættu og fjárveitingar til snjóflóðavarna, er í fimm liðum.

Í fyrsta lagi er spurt: Hversu langt er komið mati á snjóflóðahættu á byggðum svæðum? Svar við þessum fyrsta lið fsp. er eftirfarandi:

Söfnun upplýsinga um þekkt snjóflóð og færslu þeirra á kort hefur miðað eins og hér segir: Á Súðavík lýkur korta- og skýrslugerð nú í lok nóvembermánaðar og þar hefur verið sett á stofn snjómælistöð. Á Ísafirði og í Hnífsdal lýkur korta- og skýrslugerð í janúar á næsta ári. Þar hefur verið sett á stofn snjómælistöð. Á Flateyri er korta- og skýrslugerð það vel á veg komin að búist er við að henni ljúki í apríl á næsta ári. Þar er starfrækt snjómælistöð. Á Siglufirði er korta- og skýrslugerð lokið og þar er rekin snjómælistöð. Á Seyðisfirði mun korta- og skýrslugerð væntanlega ljúka fyrir áramót og þar er fylgst með snjóalögum. Í Neskaupstað er til hættumat sem gert var af norskum sérfræðingum, og þar er fylgst með snjóalögum. Samfara þessari vinnu hefur verið lokið við forrit fyrir álagsútreikninga og gerð tillaga að reglum til að meta hættu byggðar þegar fyrir liggur kort um flóðasvæði og álag vegna snjóflóða. Eins og ég hef rakið þá er hér um mjög viðamikið verkefni að ræða, en stefnt er að því að hættumat á þessum svæðum liggi fyrir á næsta ári.

Í öðru lagi er spurt: Hvert er mat ráðuneytisins og ofanflóðanefndar á fjárþörf til snjóflóðavarna?

Því er til að svara að enn er of snemmt að meta fjárþörf til snjóflóðavarna þar sem einungis fá sveitarfélög hafa sótt um framlög úr ofanflóðasjóði í samræmi við lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þó er greinilegt að kostnaður við snjóflóðavarnir er mikill, skiptir milljónum þegar um varnir fyrir einstök mannvirki eða fá hús er að ræða, en tugum milljóna ef verja þarf heil hverfi sem byggð hafa verið á hættusvæðum.

Í þriðja lagi er spurt: Hversu mikið fjármagn er til ráðstöfunar í snjóflóðavarnir á vegum ráðuneytisins og ofanflóðanefndar? Svar við því er eftirfarandi:

Þegar þær 3 millj. sem eru til snjóflóðavarna á fjárlögum fyrir árið 1987 hafa verið greiddar í ofanflóðasjóð, auk u.þ.b. 10 millj. úr Viðlagatryggingu, verða í sjóðnum um 23 millj. kr. Af þeim er búið að heimila greiðslu á 5,1 millj. kr. til Siglufjarðar og Ísafjarðar, en þær fjárhæðir hafa enn ekki verið greiddar.

Í fjórða lagi er spurt: Eftir hvaða reglum er fjármagni úthlutað til snjóflóðavarna?

Í samræmi við lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum gera Almannavarnir ríkisins tillögur um úthlutun úr ofanflóðasjóði eftir að ofanflóðanefnd hefur fjallað um umsóknir um styrk úr honum. Félmrh. þarf að staðfesta tillögur Almannavarna ríkisins til að þær öðlist gildi.

Og loks er í fimmta lið spurt: Hvað liggur fyrir af umsóknum frá sveitarfélögum og öðrum um fjárstuðning við snjóflóðavarnir?

Aðeins tvær umsóknir hafa borist ? Almannavörnum sem eru í samræmi við fyrrgreind lög, önnur frá Ísafirði til varnar Holtahverfi og nemur 3,3 millj. kr., en hin er frá Siglufirði til varnar hitaveitustöð í Skútudal að upphæð 1,5 millj. kr. Þessar fjárhæðir hafa enn ekki verið greiddar. Auk þess er til athugunar umsögn frá Flateyrarhreppi um ótilgreinda upphæð. Umsókn barst frá Ólafsvík um fjárstuðning til varnar mannvirkjum sem reist voru fyrir gildistöku laganna. Var veittur styrkur út á þann hluta þessara mannvirkja sem Almannavarnir töldu fullnægjandi. Borist hafa fsp. frá Súðavík um möguleika á styrk til að verja fyrirhugaða byggð sem skipulögð hefur verið á hættusvæði. Þeirri fsp. var vísað frá á þeim forsendum að hættumat hefði ekki verið gert fyrir svæðið. Einnig hefur borist beiðni um styrk til rannsókna á jarðfalli og rofi sjávar í nágrenni Húsavíkur, en jarðrask af því tagi heyrir ekki til ofanflóða samkvæmt lögum.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi með þessu svarað öllum atriðum fsp.