07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7706 í B-deild Alþingistíðinda. (5791)

302. mál, neyðarsími

Frsm. allshn. (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Allshn. hefur fjallað um till. hv. þm. Inga Björns Albertssonar o.fl., um að Alþingi álykti að fela samgrh. að láta kanna með hvaða hætti sé unnt að koma upp neyðarsímum á hættulegum og torfærum vegum.

Nefndin hefur fjallað um till. og fengið umsagnir frá Slysavarnafélagi Íslands og Póst- og símamálastofnun. Báðir aðilar lýsa sig áhugasama um að þessi till. nái fram að ganga.

Nefndin varð sammála um að gera tillögu um breytingu sem er að finna á þskj. 955 og er í því fólgin að tillgr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta kanna með hvaða hætti unnt sé að koma fyrir neyðarsímum á torförnum fjallvegum og heiðum til öryggis fyrir vegfarendur og gera áætlun um kostnað.“

Undir þetta álit skrifa Guðni Ágústsson formaður, Kristín Halldórsdóttir fundaskrifari, Guðrún Helgadóttir, Jón Kristjánsson, Sigbjörn Gunnarsson, Sverrir Hermannsson og Pálmi Jónsson.