07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7708 í B-deild Alþingistíðinda. (5795)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þetta er fyrsta flugmálaáætlun sem lögð er fyrir hv. Alþingi. Fyrir ári síðan þegar lög voru samþykkt um flugmálaáætlun voru gefin ákveðin fyrirheit um það að þrátt fyrir það að lagður væri til sérstakur tekjustofn, búnar til sértekjur fyrir flugmálaframkvæmdir í landinu og flugmálarekstur, mundi við afgreiðslu flugmálaáætlunar jafnan vera ákveðið framlag beint út ríkissjóði.

Nú er flugmálaáætlun komin fram án þess að svo sé. Ég minni hv. alþm. á þetta fyrirheit fyrrverandi ríkisstjórnar og að það er ekki staðið við það frekar en mörg þau önnur fyrirheit sem gefin voru á síðasta ári um það hvernig og hvað skyldi gert í sambandi við framkvæmdir í flugmálum, framkvæmdir í vegamálum og ýmsu öðru í þjóðfélaginu þegar undirbúnar voru kosningar á síðasta ári.