07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7708 í B-deild Alþingistíðinda. (5797)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um till. til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árin 1987–1990 og geri það í óvæntum forföllum formanns og frsm. fjvn.

Fjvn. hefur haft til meðferðar þessa till. til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir þessi ár, 1987–1990.

Nefndin hefur rætt málið á nokkrum fundum og m.a. fengið til liðs við sig vegamálastjóra og starfsmenn hans eins og venja er til þegar vegáætlun er til meðferðar. Einnig hefur verið haft venjubundið samráð við þingmannahópa allra kjördæmanna um skiptingu framkvæmdafjár á milli einstakra framkvæmda og verkáfanga.

Regluleg endurskoðun vegáætlunar fór fram á síðasta þingi og næsta regluleg endurskoðun á eigi að fara fram fyrr en á þinginu 1988–1989. Sú endurskoðun, sem nú hefur farið fram á þessu 110. löggjafarþingi, nær þess vegna aðeins til tekjuspár og framkvæmdaáforma fyrir árið 1988, en tekju- og framkvæmdaáform síðari ára bíða reglulegrar endurskoðunar á næsta þingi.

Sú vinnuregla hefur skapast við meðferð vegáætlunar að ekki hefur þótt ástæða til þess að taka framkvæmdaáform í vegagerð til formlegrar umfjöllunar á Alþingi á milli þess sem regluleg endurskoðun vegáætlunar fer fram þótt minni háttar breytingar eða tilfærslur hafi þurft að gera vegna breyttra aðstæðna, heldur hefur fjvn. fjallað um það í samstarfi við Vegagerðina og þingmannahópa kjördæmanna. Ekki er ætlunin að breyta þessari hefðbundnu vinnureglu. Hins vegar lá fyrir að nú þurfti að gera mun umfangsmeiri breytingar á áætluninni vegna framkvæmda ársins 1988 en yfirleitt hefur þurft að gera milli þess sem regluleg endurskoðun fer fram. M.a. þurfti að taka ákvarðanir um ráðstöfun talsvert meira fjármagns en skipt hafði verið í áætlaðar framkvæmdir ársins 1988 í gildandi vegáætlun og kveða nánar á um fjármögnun ýmissa stórra verkefna en þar var gert. Var því talið rétt að leggja vegáætlun fyrir árið 1988 fyrir Alþingi til endurákvörðunar. Fjvn. taldi rétt að leggja þá fyrir til endurákvörðunar alla skiptingu útgjalda vegáætlunar 1988, þar á meðal tillögur unnar af þingmannahópum um sundurliðun til nýrra þjóðvega og brúargerða.

Brtt. nefndarinnar byggjast í öllum meginatriðum á till. samgrh. og ríkisstjórnarinnar til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun 1987–1990 á þskj . 817 nema hvað í brtt. nefndarinnar, sem fluttar eru á þskj. 1024, eru frekari sundurliðanir útgjalda en þar kom fram.

Í því sambandi er sérstök ástæða til þess að vekja athygli á að mörkuðum tekjum vegáætlunar 1987 og 1988, samtals að fjárhæð 285 millj. kr., sem óráðstafað er til ársins 1988 samkvæmt till. á þskj. 817, er skipt milli kjördæma og framkvæmdaflokka samkvæmt tillögum nefndarinnar þannig að sjá megi hversu mikið fjármagn það er sem bíður ráðstöfunar 1989 af mörkuðum tekjum áranna 1987 og 1988 í hverjum framkvæmdaflokki og í hverju kjördæmi.

Fjvn. tók um þetta ákvörðun þar sem hún samþykkti að óráðstöfuðu fjármagni á vegáætlun 1988, 285 millj. kr., skuli skipt til vegaframkvæmda í stofnbrautir og þjóðbrautir milli kjördæma í sömu hlutfallstölum, þ.e. skiptitölum, og gilda í vegáætlun 1988. En eins og hv. alþm. vita er um að ræða hlutfallstölur sem hafa verið lagðar til grundvallar eftir að langtímaáætlunin var ákveðin og skiptast þannig t.d. til stofnbrauta að Suðurland hefur 13,3%, Reykjanes 7,6%, Vesturland 14%, Vestfirðir 18,6%, Norðurland vestra 10%, Norðurland eystra 18,2% og Austurland 18,3%. Í þjóðbrautum hefur Suðurland 23,8%, Reykjanes 4,4%, Vesturland 21,2%, Vestfirðir 12,8%, Norðurland vestra 11,6%, Norðurland eystra 13,2% og Austurland 13%.

Fjvn. ítrekar það sjónarmið sem þáv. formaður nefndarinnar lýsti í framsöguræðu sinni með tillögum nefndarinnar að vegáætlun 1987–1990 á síðasta þingi að áætluð tekjuöflun til vegaframkvæmda af mörkuðum tekjustofnum byggist á spá.

Reynist tekjur af þessum mörkuðu tekjustofnum hærri en spáin gerir ráð fyrir eru þær tekjur bundnar því að þeim sé ráðstafað til vegaframkvæmda og komi því á næsta ári til skiptaviðbótar við þær 285 millj. kr. sem bíða ráðstöfunar þá samkvæmt till. þeim sem gerðar eru. Með sama hætti skerðist sú óráðstafaða fjárhæð reynist tekjur af mörkuðum tekjustofnum minni en þær eru nú áætlaðar.

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að eyða miklum tíma í að fara yfir brtt. Þó vil ég aðeins renna yfir þær. Eins og þm. sjá á þskj. 1024 er í meginatriðum engu breytt frá till. á þskj. 817, þ.e. stjórn og undirbúningur fær 177 millj. kr., viðhald þjóðvega, bæði sumar- og vetrarviðhald fær 1063 millj. kr., til nýrra þjóðvega, þ.e. stofnbrauta, fer í almenn verkefni 306,5 millj. kr., sem er sundurliðað í þskj., bundin slitlög 216,1 millj. kr., sérstök verkefni 224 millj. kr., Ó-vegir 125 millj. kr. og höfuðborgarsvæðið 111 millj. kr. Síðan eru þjóðbrautir með 169,4 millj., bundin slitlög á þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum 29 millj. sem fjvn. er nú þessa dagana að ganga frá skiptingu á, girðingar og uppgræðsla 17 millj. kr. og vegur að Bessastöðum 4 millj. kr. eða samtals 1202 millj. kr.

Til brúargerða eru 94 millj. kr. og til fjallvega 26 millj. kr., til sýsluvega 125 millj. kr. og til vega í kaupstöðum og kauptúnum 164 millj. kr. og til tilrauna 14 millj. kr.

Ég vil þessu til viðbótar aðeins koma inn á Óvegina. Eins og fram hefur komið áður í umræðum um vegáætlunina þá er um að ræða tvo verkþætti undir þessum flokki, það er annars vegar Djúpvegur eða Óshlíðarvegur og í tillögunni til fjárveitinga fyrir þetta ár eru það 14,9 millj. kr. sem fara í Óshlíðina, en Ólafsfjarðarvegur um Ólafsfjarðarmúla, þ.e. væntanleg jarðgöng, fá 110,1 millj. kr. Að vísu nægir það ekki að fullu til að standa undir kostnaði sem áætlaður er að verði á þessu ári og kemur sú viðbót sem til þarf í gegnum hlut Norðurlands eystra í vegaframkvæmdum á næsta ári og verður væntanlega brúað með tilfærslum eða lánum yfir áramótin. En sú kostnaðaráætlun sem nú liggur fyrir í sambandi við þá framkvæmd í Ólafsfjarðarmúla, sem gert er ráð fyrir að verði lokið á árinu 1991, heildarkostnaður er áætlaður 650 millj. kr.

Í sambandi við annan þátt í vegáætluninni sem er fyrirferðarmeiri nú en áður hefur verið, þ.e. höfuðborgarsvæðið, þá er í till. reiknað með að í þennan þátt fari 111 millj. kr. Það er sundurliðað í sambandi við Vesturlandsveg, þ.e. Grafarholt-Lágafell 8 millj., við Laugatanga-Álafossveg 4 millj. og við Brúarland 7 millj., Hafnarfjarðarvegur, Kópavogur og Arnarnes 14 millj. og Reykjanesbraut-Reykjavík-Hafnarfjörður 30 millj. Hvammsbraut-Ásbraut 3 millj., gatnamót Lækjargötu 5,7 millj. og Hafravatnsvegur 1,3 millj. Síðan fer greiðsla upp í skuld við Reykjavíkurborg sem nemur um 265 millj. kr. Vegna þjóðvega í þéttbýli fara 26 millj. og til þjóðvega í þéttbýli Reykjavík 6 millj. og til þjóðvega í þéttbýli Kópavogi 6 millj.

Herra forseti. Mér þótti rétt að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta er að hluta til nýtt í þessari vegáætlun. Síðan vil ég aðeins fara yfir skiptingu á því fjármagni sem fjvn. ákvað að skipta af því fé sem er óráðstafað til 1989 milli kjördæmanna, eins og ég áður sagði miðað við þær hlutfallstölur sem þar eru, sem verður til stofnbrauta óráðstafað en merkt til framkvæmda 1989 og verður væntanlega ekki frá því hvikað nema eitthvað óvænt komi upp í tekjustofnunum. En Suðurland fær 23 millj., Reykjanes 13 millj., Vesturland 24 millj., Vestfirðir 32 millj., Norðurland vestra 18 millj., Norðurland eystra 32 millj., Austurland 32 millj., Ólafsfjarðarmúli 25 millj. og höfuðborgarsvæðið 25 millj. eða samtals til stofnbrauta 224 millj. kr. Til þjóðbrauta fer þessi skipting einnig. Þar eru 39 millj. kr. af þessu fjármagni. Suðurland fær 9 millj., Reykjanes 2 millj., Vesturland 8 millj., Vestfirðir 5 millj., Norðurland vestra 5 millj., Norðurland eystra 5 millj. og Austurland 5 millj. Og til brúagerða er gert ráð fyrir að fari af þessu óráðstafaða fé á næsta ári 22 millj. kr.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í þessa vegáætlun og þessa till. nefndarinnar nema tilefni gefist til en nefndin hefur samþykkt till. einróma. Undir samþykktina rita Sighvatur Björgvinsson, Pálmi Jónsson Margrét Frímannsdóttir, Alexander Stefánsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Óli Þ. Guðbjartsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Egill Jónsson og Valdimar Indriðason.