07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7720 í B-deild Alþingistíðinda. (5801)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Pálmi Jónsson:

Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram bera vissulega með sér áhuga hv. alþm. fyrir vegamálum og auknum framkvæmdum í þeim. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram, ekki síst hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, um að full þörf væri á að auka það fé sem rennur til vegamála vegna þess að framkvæmdirnar sem unnar eru fyrir það eru þýðingarmiklar og víðast hvar mjög brýnar. Meginumfjöllun um það mun að sjálfsögðu bíða þangað til unnið verður að reglulegri endurskoðun vegáætlunar, sem á að fara fram á næsta alþingi, og undirbúningi fjárlaga fyrir næstu ár.

Mér hefur á hinn bóginn fundist umræðurnar að sumu leyti tæplega reistar á réttum grunni. Við verðum að gæta þess að það mál sem er til meðferðar nú er afbrigðilegt. Till. er afbrigðileg og er ekki flutt á þessu þingi vegna þess að gert sé ráð fyrir því samkvæmt vegalögum. Hvers vegna er hún þá flutt? Hún er flutt fyrir þá sök eina að um aukið fé er að ræða. Meira fé er til skiptanna en í gildandi vegáætlun og því er till. flutt.

Hv. 4. þm. Vesturl. sagði hér með allmiklum þunga að við afgreiðslu vegáætlunar á síðasta ári hefði verið gefið loforð um stóraukið fé til vegamála. Ég þykist nú muna býsna margt sem þá var um þessi mál sagt og segi: Það voru engin loforð gefin umfram það sem vegáætlun sjálf greindi frá. Vegáætlun var afgreidd til fjögurra ára og skyldi endurskoðuð að tveimur árum liðnum. Það voru engin loforð gefin, enda þýða engin munnleg loforð um eitt eða neitt annað en það sem stendur í vegáætluninni sjálfri. Þá var skilið eftir óskipt verulegt fé vegna þess að þáverandi ríkisstjórn náði ekki samkomulagi um að útvega það fé. Með því lá það nokkurn veginn fyrir að fénu yrði ekki skipt nema ný ríkisstjórn tæki af skarið og útvegaði meira fjármagn. Engin önnur loforð voru gefin. Það er því út í bláinn að koma hér og segja að verið sé að svíkja einhver loforð sem þá hefðu verið gefin.

Það sem verið er að gera með þeirri till., sem hér er til afgreiðslu, er einungis það, sem ég hef þegar sagt, að miðað er við þær forsendur sem till. er byggð á. Tekjustofnar skila meiru en áætlað hafði verið og því er skiptingin til vegamála á árinu 1988 sú samkvæmt þessari till. að 26% meira fé er veitt til vegamála heldur en árið 1987 og 6% meira til framkvæmda í vegamálum á þessu ári en gildandi vegáætlun gerir ráð fyrir.

Það er einungis þetta sem gerist og þrátt fyrir þessar staðreyndir þrástagast hv. 4. þm. Vesturl. á að hér sé verið að svíkja einhver fyrirheit. Það kynni að vera tímabært að halda slíkar ræður á næsta Alþingi við reglulega endurskoðun vegáætlunar ef þá verður brugðið út frá þeim áætlunum sem staðið hafa um fjármögnun til vegamála. En það er ekki tímabært og ekki viðeigandi af hv. alþm. að bera það á borð hér við þessa afbrigðilegu afgreiðslu vegna þess að till. felur það eitt í sér, eins og ég hef þegar sagt, að verið er að skipta auknu fjármagni.

Menn geta vitaskuld talað um að ekki hafi verið staðið við fjármögnunaráætlun langtímaáætlunar í vegagerð. Vitaskuld er hægt að gera það eins og hv. talsmenn Alþb. hafa gert í þessari umræðu og raunar fyrr. En það sem gerst hefur er á hinn bóginn það að verkin hafa u.þ.b. skilað sér að fullu, sums staðar ekki alveg að fullu en annars staðar verulega meira en það. Þannig að þau verk, sem gert var ráð fyrir í langtímaáætlun í vegagerð að yrðu unnin, hafa nokkurn veginn verið unnin á þessu tímabili eftir því sem árunum hefur þokað fram. Ég sagði við fyrri hluta þessarar umræðu að það væri lofsvert en ekki gagnrýnisvert þegar hægt er að ljúka framkvæmdum fyrir minna fé heldur en upphaflega var áætlað. En því miður höfum við mörg dæmi um hið gagnstæða. Þetta ættu hv. þm. stjórnarandstöðunnar að lofa en ekki gagnrýna.

Ég tel að ekki hafi verið tímabært á þessu þingi að gera neinar breytingar á langtímaáætlun, enda ekki gert ráð fyrir því samkvæmt vegalögum, og ekki hafi heldur verið tímabært að gera langtímaáætlun í jarðgangagerð sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson minntist hér á. Eðlilegt er gera það þegar mál þessi verða tekin til reglulegrar athugunar samkvæmt lögum á næsta Alþingi vegna þess að um miklu stærri mál er að ræða heldur en verið er að fjalla um við þessa sérstæðu afgreiðslu á vegamálum.

Ég vil aðeins segja það við hv. 2. þm. Austurl., þar sem hann vitnaði hér til ræðu minnar frá 1985, að ég fæ ekki annað séð en að þar fái allt staðist. Það hefur staðist af því að þau verk sem þar var gert ráð fyrir að myndu ná fram að ganga hafa gert það og fyrir minna fé en upphaflega var áætlað. Ef menn hengja sig í það að langtímaáætlun í vegamálum hafi aðeins verið fjármögnunaráætlun og ekkert annað geta þeir gert það fyrir mér. Auðvitað viljum við allir fá meira fé til vegamála og ég tek undir með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að við munum veita hæstv. samgrh. ýtrasta stuðning í baráttu hans í þeim málum. Við munum væntanlega ekki þurfa að deila um hvort eitthvað kunni að liggja eftir af því sem áætlað hafi verið, heldur munum við hvarvetna fara fram úr áætlun og að því ættum við sannarlega að keppa. En um leið skulum við muna að ræða þessi mál á réttum grundvelli en ekki á allt öðrum forsendum en það þingmál, sem hér liggur fyrir, birtir og ekki snúa málum alveg við eins og hv. þm. Skúli Alexandersson hefur leyft sér að gera með því að segja að með þessu sé verið að skera niður fé. Þetta þingmál er einungis flutt vegna þess að aukið fé er til skipta og því er skipt skv. brtt. fjvn. sem hér hefur verið gerð grein fyrir af framsögumanni nefndarinnar.