09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7730 í B-deild Alþingistíðinda. (5821)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. muna endaði umræðan um vegáætlun í hv. Sþ. á sérstakan máta. Það var búið að gefa mér orðið, en vegna umræðna utan dagskrár var ákveðið að fresta umræðu um vegáætlunina. Ég held að það hafi verið af því góða og skemmtilegra að sjá þetta fjölmennan hóp þingmanna við lokaafgreiðslu þessa máls en jafnfámennt og var hér á laugardaginn var.

Ég hafði lokið umfjöllun minni um vegáætlunina, en aðeins út af nokkrum fullyrðingum og ábendingum hv. þm. í umræðunni óskaði ég eftir að fá að segja nokkur orð. Ég skal ekki eyða tíma þingsins nú á hinum miklu annatímum til að flytja aftur langa ræðu. En ég vil þó í upphafi vekja athygli á því að ég varð nokkuð undrandi á því að hér skyldu ekki koma upp fleiri ræðumenn til að fjalla um vegáætlun, ekki síst kannski frá stjórnarflokkunum, ekki kannski síst frá þeim flokki sem taldi fulla ástæðu til að kalla saman miðstjórnarfund um stöðu í þjóðfélaginu, stöðu efnahagsmála, að framsóknarmenn skyldu ekki vekja athygli á því að á árinu 1987 voru mál þannig í sambandi við vegamál að aldrei síðan 1964, svo sem kemur fram í skýrslu samgrh. um vegaframkvæmdir, hefur jafnlitlu fjármagni verið veitt til vegaframkvæmda miðað við þjóðarframleiðslu og á árinu 1987. Á því ári þegar hvað mestar framkvæmdir voru og hvað mest þensla, tvær Kringlur o.s.frv. svo sem nefnt hefur verið og framkvæmdir á flestum sviðum fóru langt fram úr áætlun, voru framkvæmdir í vegamálum á Íslandi aðeins 1,16% af þjóðarframleiðslu í staðinn fyrir 2,4% eins og gert er ráð fyrir skv. langtímavegáætlun.

Ég vænti þess að hv. þm. hafi skoðað þetta plagg og séð hvert stefnir hjá fyrrv. og núv. ríkisstjórn. Það er hraðferð niður á við. Það stefnir að því nákvæmlega sama í ár. Þó að tölurnar í vegáætlun séu á þann máta að þær séu nokkru hærri en á síðasta ári er þar verið að ræða um tölur sem eru reiknaðar með aðeins 15% verðlagsbreytingu á milli ára. Og við vitum öll að það stefnir að allt öðru þar. Við megum jafnvel vera heppin ef við náum 1% af þjóðarframleiðslu til framkvæmda í vegamálum á árinu 1988. Á sama tíma og málin standa þannig fullyrða stjórnarsinnar að það sé aukið fjármagn til þessara framkvæmda og hv. 2. þm. Norðurl. e. bar á móti því að það væri verið að minnka framlag til vegamála með þeirri vegáætlun sem hér er lögð fram.

Ég endurtek að það er verið að minnka samþykkt fjármagn til vegamála. Það er verið að falla frá samþykkt skv. vegáætlun sem samþykkt var á síðasta ári um að beint ríkisframlag til þessara framkvæmda yrði eins og þar stendur 1463 millj. kr. Frá þessari samþykkt er fallið. Menn geta svo metið hvort það á að taka mark á þál. frá hv. Alþingi eða ekki, en staðreyndin er sú að það var samþykkt á síðasta vori að áætla til vegaframkvæmda 1463 millj. kr. umfram sértekjur. Það er verið að staðfesta það með þeirri brtt. sem hér er nú til umfjöllunar.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. taldi að verkin á undanförnum árum hefðu skilað sér. Þrátt fyrir alla þá skerðingu sem hefur verið á framlögum til vegamála hafi verkin skilað sér. Ja, ég geri ráð fyrir að þeir séu ekki margir hér hv. þm. sem eru tilbúnir að segja að þau hafi skilað sér. Það er að vísu komin svipuð vegalengd af bundnu slitlagi og áætlað var á þessum tíma, en því miður, eins og sagt var við mig á laugardag, eru þær ansi langar „einhjólabrautirnar“ sem hafa verið lagðar í staðinn fyrir að leggja vegina eins og áætlað var skv. langtímaáætlun. Það hefur verið farið í að leggja bundið slitlag á vegina eins og þeir eru svo gott sem, með tiltölulega lítilli styrkingu, bráðabirgðaframkvæmdir, og það hefur verið lagt víða á landinu aðeins einbreitt slitlag, ekki breiðara slitlag en svo að þar er varla hægt að mætast á litlum fólksbifreiðum. Þetta var ekki meiningin við uppbyggingu langtímaáætlunar. Meiningin var sú að hvarvetna þar sem byggður yrði vegur og sett á bundið slitlag yrði þetta gert á þann máta að það yrði full breidd þar sem væri hægt að mætast á eðlilegan máta. Ég vildi undirstrika þetta.

Í öðru lagi kom fram í umræðunum frá hv. 4. þm. Reykn. hugleiðing um að hér væri verið að taka mikla peninga frá höfuðborgarsvæðinu til vegaframkvæmda. Það væri verið að færa fjármagn út á land frá höfuðborgarsvæðinu. Ég mótmæli svona umræðu. Ég tel það alveg fráleitt þegar verið er að ræða um að byggja upp vegakerfi á landinu, hvort sem það er á Austfjörðum eða á höfuðborgarsvæðinu, að þá sé verið að færa til eitthvert fjármagn á milli landshluta. Það er alveg fráleitt.

Eins og ég tók fram í ræðu minni á laugardaginn hljótum við að viðurkenna að einmitt á höfuðborgarsvæðinu eru ýmis verkefni sem þarf að fara í og eru mjög dýr. Ég benti einmitt á að við landsbyggðarmenn hefðum haft von um að það kæmi ekki að hinum dýru verkefnum á Reykjavíkursvæðinu fyrr en búið væri að sinna uppbyggingu vega út um land miklu betur og meir en þegar er gert. Fjármagn til vegagerðar verður engan veginn metið þannig að það komi frá þessum eða hinum staðnum. Framkvæmdir í vegagerð eru jafnréttmætar og sjálfsagðar hvort sem þær eru á Reykjavíkursvæðinu eða á landsbyggðinni.