09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7737 í B-deild Alþingistíðinda. (5826)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ósköp verða menn hvumpnir ef bent er á einfaldar staðreyndir eins og ég gerði í ræðu minni þegar þetta mál var til umræðu sl. laugardag. Ég benti á þá einföldu staðreynd að það væri augljóst að a.m.k. 60% af því fé sem færi til vegagerðar rynni frá íbúum í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi á sama tíma og það hlutfall sem færi til framkvæmda á þessu svæði væri um það bil 14% þannig að hér væri dæmi um straum af fé frá fólki á höfuðborgarsvæðinu til framkvæmda úti á landi öndvert við það sem oft væru nefnd dæmi um úr þessum ræðustól. Ég hélt að menn þyldu að heyra svona augljósar staðreyndir og ég hélt að menn þyldu að heyra að þetta þýðir að íbúar höfuðborgarsvæðisins leggja til nýframkvæmda í þjóðvegum og þjóðbrautum um það bil 500 millj. samkvæmt þeim tölum sem eru fyrir framan okkur umfram það sem þeir fá sjálfir til framkvæmda á sínu svæði eða, ef við tækjum tölurnar í heild sinni sem hér er verið að úthluta, þá væri um það að ræða að það væri um 11/2 milljarður sem flyttist hér til. Ég hélt að menn þyldu að heyra dæmi af þessu tagi. Ég hef ekki talað um þetta nema sem dæmi og ég tók líka fram að ég teldi augljóst að höfuðborgarbúar og þeir sem búa á suðvesturhorninu nytu auðvitað vegaframkvæmdanna úti á landi með sama hætti og þeir sem úti á landi eru nytu þeirra þegar þeir kæmu hingað. Ég tók líka fram að ég er ekki að tala um að það þyrfti að draga úr vegaframkvæmdum úti á landi heldur hlyti ég í þessu sambandi að benda á að við stæðum frammi fyrir gífurlegum verkefnum hér á þessu svæði til að leysa þá umferðarhnúta sem augljóslega eru þegar komnir eða eru í uppsiglingu á næstu árum og þess vegna þyrfti að auka heildarfé til vegamála til þess að menn gætu haldið a.m.k. sama framkvæmdastigi í framkvæmdum úti á landi og er núna jafnframt því að vinna að framkvæmdum á þessu svæði í auknum mæli og umfram það sem menn hafa gert að undanförnu.

Ég veit ekki nema það sé ástæða til að benda á örfáar staðreyndir til viðbótar í þessu sambandi þannig að það liggi ljóst fyrir. Það liggur t.d. ljóst fyrir að umferð á þjóðvegum skiptist þannig að 36,8% eða tæp 40% af umferð á þjóðvegum talið í eknum kílómetrum eru í Reykjaneskjördæmi einu sér, eru á þjóðvegum í Reykjaneskjördæmi einu sér. Ég sagði að það væru um 14% af framkvæmdafé til höfuðborgarsvæðisins. En ef við tökum nú Reykjaneskjördæmi eitt eru það um 12%. Þarna hafa menn umferðarþungann tæp 40%, framkvæmdaféð 12%.

Ef við tökum höfuðborgarsvæðið í heild verður þetta enn þá geigvænlegra vegna þess að umferð mæld í eknum km innan umferðarsvæðisins sem er ekki á þjóðvegum er talin 500 millj. km meðan umferð á þjóðvegum alls staðar annars staðar, í öllum kjördæmum þess vegna ef menn vilja það, eru 725 þús. þúsunda. 725 millj. km eru eknar á þjóðvegum víðs vegar um landið, en innan höfuðborgarsvæðisins er talið að eknir séu 500 millj. km. Ef þetta er lagt saman væri það meira en helmingur umferðarinnar í landinu sem er innan Reykjavíkur og Reykjaness, um það bil 60% nánar tiltekið.

Þessar staðreyndir finnst mér sjálfsagt að menn hafi í huga og ég hygg að það sé engum til góðs að horfa fram hjá þessum staðreyndum.

Hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson sagði réttilega að allir eigi að borga til þessa og allir eigi að njóta og það á auðvitað að vera markmiðið. En menn njóta þess nú ekki alveg sérstaklega að standa í samfelldri biðröð frá Sóleyjargötunni inn á Kringlumýrarbraut til þess að komast þennan spöl og vera kannski 20 mínútur á leiðinni frá Kringlumýrarbraut og upp að Kringlu t.d., svo maður taki dæmi af því hvernig þetta er stundum á þessu svæði núna. Og slysagildrurnar gæti ég auðvitað talið upp.

Ég vil líka minna á það, bara svo að menn hafi það í huga sem ég benti á hér á laugardaginn, að ein framkvæmd eins og sú sem fram undan er á Arnarneshæðinni og varið er 14 millj. til samkvæmt þessum tölum hér mun kosta 190 millj. kr. Þetta er til marks um hvers konar verkefnum við stöndum frammi fyrir á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst, herra forseti, að það sé alveg nauðsynlegt að menn séu tilbúnir að horfa á staðreyndir. Ég er ekki að biðja um neinn landshlutaríg, en ég ætlast til þess að menn séu tilbúnir að sjá staðreyndir eins og þær eru og ræða málin út frá því. Og ég ítreka: Ég hef ekki gerst talsmaður þess að það væri dregið úr vegaframkvæmdum úti á landi, síður en svo, en ég hlýt að benda á þetta dæmi um fjárstreymi, sem er öndvert við það sem menn gera hér oftast að umtalsefni, og ég hlýt að benda á þau verkefni sem fram undan eru hér á þessu svæði.

Það var reyndar athyglisvert að hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði efnislega: Hvaðan koma peningarnir? Ég skildi hann svo að hann vildi skilgreina hlutina þannig að í rauninni væri hér verið að skila aftur peningum sem höfuðborgarsvæðið hefði áður hirt af landsbyggðinni. Vitaskuld má halda því fram. En ég held að hv. þm. Stefán Valgeirsson, af því að ég tel víst að hann sé að miða við útflutningsframleiðsluna, ætti að gá að því hversu stór hluti af útflutningsframleiðslu landsmanna kemur einmitt úr Reykjaneskjördæmi. Þar stendur Reykjaneskjördæmi mjög vel og áreiðanlega ekki síður en hans kjördæmi ef hann langar í samanburð af því tagi. En það var ekki það sem ég var að biðja um. Ég er að biðja menn um að horfa á staðreyndir og vera viðbúnir framtíðinni.