09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7747 í B-deild Alþingistíðinda. (5833)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd og nánast að bera af sér sakir. Ég get auðvitað tekið undir það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson var að segja að fyrrv. hæstv. samgrh. hafði sína djöfla að draga í þessum efnum eins og ýmsir aðrir. Hann vildi meira en fékk því ekki áorkað. Það skal tekið undir það hér.

Út af því sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði: Hér erum við að tala um, eins og stendur í skýrslunni á bls. 42, útgjöld til vegamála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Langtímaáætlunin var ákveðin sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, það er samanburðurinn og þess vegna er það akkúrat rétt sem ég las hér upp: 1984 1,79, 1985 1,62, 1986 1,40 og 1987 1,16. Þetta eru þær staðreyndir sem við erum að bera saman og verðum að bera saman ef við erum að tala annars vegar um langtímaáætlun og hlutfallið af henni í þjóðarframleiðslu. Hitt er bara að fara út og suður í kjaftagang, að þvæla um allt annað, til þess að reyna að dreifa athygli frá raunveruleikanum. Það virðist henta sumum á stundum að gera slíka hluti. Ég vísa þessu algjörlega á bug. Það er nákvæmlega rétt sem hæstv. samgrh. fullyrðir hér í skýrslunni, og ég vísa auðvitað til orða hans á prenti, hvernig þessi þróun hefur orðið í langtímaáætluninni miðað við þjóðarframleiðsluna. Það er það sem ég er að bera saman og það stendur hér.