09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7748 í B-deild Alþingistíðinda. (5834)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður um of, en ég vil þó gjarnan víkja aðeins að þeim atriðum sem hér hafa verið til umræðu.

Skýrsla samgrh. um framkvæmd vegáætlunar hefur legið frammi og hér hefur verið að henni vikið nokkuð. Samkvæmt vegáætlun fyrir 1987–1990 var heildarfjáröflun til vegamála 1987 áætluð 2 milljarðar 150 millj. kr. Þessi fjáröflun var öll af mörkuðum tekjustofnum, þ.e. bensíngjaldi og þungaskatti samkvæmt lögunum um fjáröflun til vegagerðar. Bifreiðum hefur fjölgað ört og það hefur ekki farið fram hjá neinum í þessum umræðum hvar og með hvaða hætti og með hvaða afleiðingum slíkt hefur orðið, en auðvitað hefur í kjölfar þess orðið mikil aukning á bensínsölu, meiri aukning en gert hafði verið ráð fyrir þegar þessi vegáætlun, sem samþykkt var fyrir 1987–1990, var samþykkt.

Salan á bensíni 1987 var 14% meiri en 1986 og það gerði það að verkum að markaðar tekjur voru umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir, 160 millj. kr. Þessa upphæð hefur verið ákveðið að geyma til ráðstöfunar síðar eins og fram kemur í þeirri tillögu að breyttri áætlun 1988 sem við ræðum hér og nú.

Í framkvæmdum var mikil áhersla lögð á bundin slitlög svo sem verið hefur undanfarin ár og forveri minn lagði sérstaka áherslu á. Til þess að komast áfram með það verk hefur í vaxandi mæli verið gripið til þess ráðs að styrkja og lagfæra vegi í stað þess að endurbyggja þá undir slitlagsgerðina. Jafnframt þessu hefur verið lögð áhersla á styrkingu aðalvegakerfisins fyrir viðhaldsfé eins og fram kemur í skýrslunni. Nokkuð er um að lagt sé bundið slitlag í framhaldi af slíkum styrkingum og er það að hluta til greitt af viðhaldsfé.

Það hefur tvennt unnist með þessu. Hið fyrra er að dregið hefur verulega úr þungatakmörkunum á vorin, einkum þó á aðalleiðunum. Hið síðara er að tekist hefur að halda í við langtímaáætlun um lögn bundins slitlags og jafnvel fara fram úr henni núna síðustu árin.

Á sl. ári var lagt bundið slitlag á 308 km og er það meira en nokkru sinni áður. Í lok ársins voru alls 1729 km af þjóðvegum með bundnu slitlagi. Er það um 21% af öllum þjóðvegum á landinu en á þessum hluta vegakerfisins fara um 70% af akstrinum fram.

Að venju hafa verið tekin nokkur bráðabirgðalán til ýmissa framkvæmda. Að langmestu leyti eru þetta lán sem heimamenn hafa haft frumkvæði að. Alls voru bráðabirgðalán í árslok 212 millj. og er það rúmlega tvöfalt meira en áður ef mælt er á föstu verði. Þar er um að ræða vinnulán frá verktökum og vélareigendum, um 3/4 hlutar þessara lána, en fjórði hlutinn var frá sveitarstjórnunum og lánastofnunum. Þessi aukning í lánum undirstrikar hina miklu þörf fyrir umbætur í vegamálunum um land allt. Verkefnin blasa hvarvetna við eins og hér hefur mátt heyra, hvort sem litið er til hefðbundinnar vegagerðar sem mest hefur verið á dagskrá á undanförnum árum eða sérstakra stórverkefna, svo sem jarðganga, stórbrúa og svo vegagerðar á höfuðborgarsvæðinu sem mönnum hefur svo mjög orðið tíðrætt um við þessa umræðu. Sýnist nú ekki hjá því komist að veita aukið fé til þessa málaflokks á næstu árum. Núverandi markaðir tekjustofnar vaxa allört um þessar mundir eins og ég vék hér að áðan og meira en gert hafði verið ráð fyrir. Hins vegar er ljóst af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að nokkuð vantar á að þingheimur láti sér það fjármagn duga sem til skiptanna er og kom mér það ekkert á óvart.

Ég get ekki annað sagt en að ég hygg gott til samstarfs við þá þm. sem hér hafa talað og reyndar marga aðra við gerð næstu vegáætlunar og ég get hughreyst hv. 3. þm. Vestf. með því að ég hef ekkert í huga að þar verði ekki tekið hraustlega á. Við gætum átt samstarf saman um það, hann og ég, ásamt, eins og ég sagði, fleiri þm.

Hvað snertir umræðurnar um fjármagn, hvaðan fjármagnið kemur og hvernig því er ráðstafað, held ég að það sé kannski ekki skynsamlegt í raun og veru að við deilum um það í þessum verkefnum frekar en öðrum því að þar væri erfitt að gera dæmið upp. Mér sýnist að við hljótum hér, eins og annars staðar, að meta þörfina fyrir ráðstöfuninni því að hér er um að ræða sameiginlegan sjóð, hvaðan svo sem fjármagnið kemur. Hér erum við að della fjármagni til vegagerðar og ástæðurnar fyrir því að m.a. höfuðborgarsvæðið hefur kannski verið meira í umræðunni stafar einfaldlega af því að umferðin, að ökutækjafjölgunin á síðustu tveimur árum er kannski miklu meiri hér en annars staðar. En við komumst ekkert út á vegina í dreifbýlinu ef þannig er háttað með vegi hér á höfuðborgarsvæðinu eins og gerist á vissum stöðum. Ég vék að því að þetta væri eitt af þeim verkefnum, ég vék líka að því að stórbrúaverkefnin væru fram undan og ég nefndi líka jarðgangagerðina.

Ég skil og veit mjög vel hvað vakir fyrir hv. 4. þm. Reykn. Ég held að hann sé ekki aðeins kominn upp í ræðustólinn til þess að gera umræðurnar fjörlegri eins og sagt var, heldur og hitt að hér kreppir skórinn og hv. þm. hefur að sjálfsögðu viljað vekja athygli á þeim hlutum. En hv. 6. þm. Norðurl. e. kom réttilega inn á það sjónarmið hér að við erum í sameiningu að dreifa því fjármagni sem við ætlum okkur til vegagerðar á árinu 1988 og ég held að karp á milli kjördæma sé ekki það hið skynsamlegasta.

Við erum hér að ræða um breytingu á vegáætlun fyrir árið 1988 og hér kom hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson og spurði hvað hefði orðið af 1 milljarði 463 millj. kr., ef ég man töluna rétt. Það sem við erum hér að gera er í fyrsta lagi það að við erum að skipta meira fjármagni en vegáætlun hafði gert. Vegáætlunin gerði ráð fyrir því að það yrði 10% aukning á vegaframkvæmdum frá árinu 1987 yfir til 1988. Það sem hér er verið að gera er að verið er að skipta 6% til viðbótar. Í vegáætluninni stóð þessi tala, það er alveg rétt hjá hv. þm., en það sem hefur skeð er það að Alþingi hefur samþykkt fjárlög, Alþingi hefur samþykkt lánsfjárlög og það er ákveðin tala sem gert hefur verið ráð fyrir. Að vísu hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að 35 millj. kr. af þeim 2 milljörðum 900 millj. kr. sem fjárlögin gera ráð fyrir til vegamála skuli látin bíða til næsta árs. Auk þess eru það 160 millj. kr. sem eru frá árinu 1987, þar að auki 90 millj. sem reiknað er með að tekjurnar verði meiri 1988 en tekjuhlið fjárlaganna gerir ráð fyrir.

Auðvitað hefðu menn viljað hafa meira fjármagn. Við hefðum viljað hafa meira fjármagn til hafna, til skóla o.s.frv. (HG: Hver ber ábyrgð á þessu?) Alþingi ber ábyrgð á samþykkt fjárlaganna. Ríkisstjórnin lagði fram sínar tillögur í sambandi við efnahagsráðstafanir. Þar var gert ráð fyrir því að 35 millj. kr. yrðu dregnar af þeim útgjöldum og þeim yrði frestað til næsta árs. Allt hefur þetta komið inn hér til Alþingis, verið afgreitt héðan og það sem verið er að gera hér er að það er verið að leggja fram tillögur um skiptingu á því fjármagni sem Alþingi hefur samþykkt í fjárlögum, lánsfjárlög gera ekki ráð fyrir neinu, og deila því á milli hinna einstöku verkefna eins og verið hefur áður og með hefðbundnum hætti.

Hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson hefur mjög svo vikið að því að ekki sé staðið við langtímaáætlun. Ég vék að því hér áðan að ákveðnir þættir langtímaáætlunar, sér í lagi bundnu slitlögin, eru meiri. Og eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni þá hefur þetta getað gerst m.a. vegna þess að það hefur verið ódýrara, það hafa verið hagkvæmari útboð, það hafa verið hagkvæmari verk sem unnin hafa verið og þannig hefur verið hægt að standa við þessa áætlun og örlítið betur í sumum tilvikum.

Hv. þm. Karvel Pálmason spurði sérstaklega um fjármagn til rannsókna á jarðgöngum þar vestra. Það er gert ráð fyrir því í þeim tillögum sem hér liggja fyrir að 3 millj. kr. verði til rannsókna á þessu verkefni á árinu 1988 í tveimur tillögum um útgjöld, þ.e. Vestfjarðavegur 14,6 millj. kr., af því er 1,9 til þessara hluta, og svo Djúpvegur 14,6 millj. kr., af því er 1,1, samtals 3 millj. kr.

Hér hefur verið nokkuð rætt um prósentur og vikið að því sem hér kemur fram, hver hefur verið prósenta til vegamála af þjóðarframleiðslu. Þær staðreyndir liggja hér fyrir, en ég vil aðeins leiðrétta því að hér er talað um og sagt: Nýr grunnur. Hér er miðað við og við höfum verið að tala um 2,4% sem var samþykkt hér á Alþingi, en miðað við þann nýja grunn eru það 2,14% sem í krónutölu ættu að skila sér í viðkomandi verkefni. Hitt liggur svo ljóst fyrir að miðað við þann tíma þegar sú áætlun var gerð hefur tækniþróunin verið með þeim hætti að við höfum fengið miklu meiri framkvæmdir fyrir sama pening en við þá gerðum ráð fyrir.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir hennar störf, bæði varðandi afgreiðslu á vegáætluninni, svo og á flugmálaáætluninni sem afgreidd var hér sl. laugardag og ég vil gjarnan þakka þm. fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég veit hvar skórinn kreppir. Ég hef ferðast það mikið um landið. Ég geri mér grein fyrir því að við þurfum að gera mikið átak í þessum málum og við skulum vona að okkur takist að halda áfram. Því að um leið og menn gagnrýna og meta og vega það sem gert hefur verið, þá vil ég mjög gjarnan undirstrika að það sem hefur verið að gerast í þessum málum á undanförnum árum hefur m.a. verið undir forustu forvera míns sem haft hefur á þessum málum sérstakan áhuga og að mínum dómi unnið að þessum málum mjög vel.