09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7754 í B-deild Alþingistíðinda. (5843)

Efnahagsráðstafanir

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. að hefja þessa umræðu. Það skiptir auðvitað meginmáli að hér á Alþingi starfi þeir sem bera skynbragð á þarfir þjóðfélagsins og einstaklinganna sem það byggja. Okkur þm. er það því afar nauðsynlegt að tapa ekki tengslum við þjóðlífið, en fá tækifæri til þess að hrærast þar án þess að vera of bundin af því annríki sem dagleg störf þessarar stofnunar bjóða. Þess vegna eru hlé á störfum þingsins af hinu góða.

Hitt er svo annað mál að aldrei er meiri þörf fyrir afskipti lýðræðislega kjörinna fulltrúa en þegar vandi steðjar að. Nú blasir við mikill vandi í efnahagslífi sem þrengir ekki síst að undirstöðuatvinnuvegum okkar. Ríkisstjórnin hlýtur því að þurfa að grípa til margvíslegra aðgerða gegn þessum vanda eins og reyndar ýmsir ráðherrar hennar hafa þegar boðað. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins í landinu eiga að sjálfsögðu að vera með í ráðum og fá að fjalla um þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru. Það hlýtur því að vera ríkisstjórninni stoð og er jafnframt sjálfsögð virðing fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum að þingið sitji lengur. Enn er langur tími til 10. okt. er þingstörf hefjast að nýju og reyndar allt of langur tími að mínu mati, ekki síst með tilliti til þeirra miklu vandamála sem við blasa og nauðsynlegt er að þingið fjalli um. Satt að segja óar mér við því að þessi sundurlynda ríkisstjórn leiki lausum hala í sumar eins grátt og hún hefur þegar leikið hag fjölskyldna margra í þessu landi og vil ég hér með bera fram þá kröfu fyrir hönd Kvennalistans að þingi ljúki ekki nú en sitji a.m.k. fram í næsta mánuð þar til tekið hefur verið á hinum bráðasta efnahagsvanda.

Mig langar að ítreka fsp. sem ég bar hér fram í eldhúsdagsumræðum en fékk engin svör við þar sem ég var síðasti ræðumaður kvöldsins. Hvað með fólkið í þeim byggðarlögum sem nú horfa mörg hver upp á hrun í atvinnulífi vegna fyrri ráðstafana stjórnarinnar, vegna aðgerðarleysis hennar og vegna vaxandi aðþrenginga af völdum ytri aðstæðna? Hvað hyggst ríkisstjórnin gera fyrir það fólk sem horfir fram á byggðarlög sín hrynja nú? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?