09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7755 í B-deild Alþingistíðinda. (5845)

Efnahagsráðstafanir

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það kom mér á óvart að Alþb. skyldi bera fram þessar spurningar til hæstv. forsrh. nú, en spurningarnar eiga fyllilega rétt á sér. Eru efnahagsráðstafanir á döfinni? Forsrh. svaraði því ekki. Það var spurt hvort ekki væri rétt að Alþingi tæki sér hlé í nokkra daga og kæmi svo saman til að ræða þær tillögur sem væntanlega koma til lausnar efnahagsvandanum frá ríkisstjórninni. Forsrh. svaraði ekki. Það er stóralvarlegt mál, þegar svona stórar spurningar eru lagðar fram, að hæstv. forsrh. skuli leyfa sér að koma hér upp og svara eins og hann sé staddur á málfundi hjá skólafélagi. Hann talar um að allt sé að fara í kaldakol vegna þess að það sé verðfall á mörkuðum okkar erlendis. Sums staðar er það. En það er hvergi það mikið verðfall að við séum komin niður fyrir það lágmark sem greitt hefur verið fyrir okkar afurðir. Þegar stjórnarliðar tala um verðfall þá eru þeir að tala um að við fáum ekki alltaf hámarksverð fyrir okkar afurðir. Og það er stóralvarlegt að sú viðurkenning skuli koma frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað að við getum ekki lifað á okkar framleiðslu, þjóðarframleiðslu nema alltaf sé hámarksverð á okkar vörum. Það er stóralvarlegt.

Spurningarnar eru komnar fram. Þeim hefur ekki verið svarað. Vandinn er fyrir hendi. Ég vil segja það fyrir hönd Borgarafl. að við gerum okkur grein fyrir vandanum og við erum reiðubúnir til drengilegs samstarfs eins og allir aðrir í stjórnarandstöðunni, sem ég hef rætt við, til þess að leysa þann vanda.