12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég svara fyrst síðustu spurningu hv. þm. Ég mun gera ráðstafanir til þess að sendiráð Íslands í Washington fái aðgang að þeim gögnum sem hér er um fjallað.

Eins og hv. þm. munu vita gilda ákveðnar reglur um birtingu slíkra skjala í Bandaríkjunum. Hluti slíkra skjala mun samkvæmt þeim reglum vera aðgengilegur eftir 25 ár en það nær ekki til allra trúnaðarskjala í vörslu stjórnvalda í Bandaríkjunum. Mér er tjáð svona við fyrstu eftirgrennslan að í þessum gögnum, sem umræddur norskur maður fékk, hafi m.a. verið skjal sem sé í síðari flokki, sem eigi ekki að birta. En nú skal ég viðurkenna fyrstur manna að ég er ekki nógu vel kunnugur þessum reglum til að geta sagt um þetta nokkuð ákveðið en ég svara spurningunni játandi: Það mun verða gengið eftir því að fá þessi gögn í hendur.

Ég hef sömuleiðis lýst þeirri skoðun minni að ég tel að hér eigi að gilda einhverjar ákveðnar reglur um birtingu skjala og ég mun ræða það í ríkisstjórninni hvort ekki er rétt að ríkisstjórnin semji slíkar reglur. Ég get ekki á þessari stundu sagt nákvæmlega hvernig þær eigi að vera en ég vil leggja á það ríka áherslu að komandi kynslóðir eiga að hafa tækifæri til að byggja sinn dóm á opinberum gögnum sem liggja fyrir og það á ekkert að fara í felur með það. Það er hins vegar eðlilegt að nokkur tími líði þar til slík skjöl eru birt, t.d. eitthvað svipað og við erum að tala um í Bandaríkjunum, 25–30 ár eða þar um bil.

Varðandi það fjaðrafok sem orðið hefur við birtingu þessara gagna, sem umræddur Norðmaður hefur fengið, vil ég segja það að ég treysti langtum betur ummælum t.d. Eysteins Jónssonar, sem birtast í Þjóðviljanum í dag, en sendimönnum erlendra ríkja. Við ritskoðum ekki það sem þeir kunna að setja niður á blað og ég held að þar sé verið að meta menn og málefni á máta sem er í mörgum tilfellum algjörlega óviðunandi og ekki réttur. Ég er sannfærður um að þeir menn sem um ræðir höfðu hagsmuni Íslands í huga. Það kemur greinilega fram í orðum þess mæta manns Eysteins Jónssonar að hjá þremenningum þeim sem fóru til Bandaríkjanna 1949 var aldrei lýst nokkurri hræðslu við byltingu hér á landi eða yfirtöku kommúnisma eins og virðist hafa verið inntakið í skýrslu hins erlenda sendi manns. Og ég verð að segja með fullri virðingu fyrir Nóbelsverðlaunaskáldinu að ég treysti jafnvel betur manni eins og Eysteini Jónssyni til að lýsa rétt því sem gerðist. Hann er því miður eini eftirlifandi maðurinn af þeim sem um ræðir. Ég vefengi ekki hans orð og ég hef enga ástæðu til að halda að aðrir þm. geri það. Ég slæ því þennan varnagla að við skulum fara varlega í að dæma menn og atburði sem gerðust fyrir mörgum árum á grundvelli frásagna erlendra sendimanna.