09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7761 í B-deild Alþingistíðinda. (5856)

117. mál, flugfargjöld

Frsm. allshn. (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. á þskj. 121, sem er 117. mál þingsins og fjallar um að ríkisstjórninni verði falið að láta fara fram athugun á flugfargjöldum hjá íslenskum flugfélögum með sérstöku tilliti til hárra fargjalda í innanlandsflugi og jafnframt verði gerður samanburður á fargjöldum innan lands og til útlanda, svo og milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu í Keflavík.

Lagt er til að grg. um þetta efni verði lögð fyrir Alþingi ekki síðar en haustið 1988.

Flm. till. er hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson.

Nefndin hefur fjallað um tillöguna á fjölmörgum fundum. Hún leitaði umsagnar eftirtaldra aðila: Flugráðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Fjórðungssambands Norðlendinga, Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Flugleiða og Neytendasamtakanna.

Allir þessir aðilar töldu að hér væri komin fram hin þarfasta tillaga og mæltu með að hún yrði samþykkt. Nefndin varð því einnig sammála um að mæla með samþykkt tillögunnar eins og hún var flutt.

Undir þetta nál. skrifa Guðni Ágústsson, formaður, Guðrún Helgadóttir, frsm., Jón Kristjánsson, Sigbjörn Gunnarsson og Sverrir Hermannsson.