09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7762 í B-deild Alþingistíðinda. (5859)

384. mál, stefna Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fá tækifæri til þess að fagna því að þetta mál skuli vera komið hér á lokastig og vil taka undir það sem kemur fram bæði í tillgr. og enn fremur það sem kom fram í grg. með þáltill. á sínum tíma. Mig langar þó til þess að geta þess, sem hv. frsm. auðvitað veit um, að hæstv. utanrrh. hefur óskað eftir samvinnu við ýmis ráðuneyti sem láta sig þessi mál varða og ég veit ekki betur en embættismannanefnd sé þegar komin á laggirnar. Af því tilefni tel ég eðlilegt að þegar þessi nefnd hefur verið kosin af Alþingi þá hafi hún jafnframt samstarf við embættismannanefndina auk þess sem hún hlýtur að starfa með aðilum á almennum vinnumarkaði. Þá á ég við fyrst og fremst samtök atvinnulífsins.

Það er nú þannig með samskipti við Evrópubandalagið að þau tengjast ýmsum ráðuneytum, þar á meðal iðnrn. og ég vil gjarnan gera það sem í mínu valdi stendur til þess að iðnrn. geti lagt þingmannanefndinni lið og vænti þess jafnframt að þingmannanefndin sé tilbúin til þess að eiga samstarf við iðnrn., svo og önnur þau ráðuneyti sem hljóta að láta sig þetta mikilvæga mál varða.